PÉTUR Kr. Hafstein hæstaréttardómari tilkynnti í gær að hann byði sig fram til embættis forseta Íslands í kosningunum sem fram fara 29. júní. Pétur sagði á blaðamannafundi, þar sem m.a. voru viðstaddir allmargir stuðningsmenn hans, að æðsta skylda forseta væri við íslenskan veruleika.
Pétur Kr. Hafstein í

kjöri til forsetaembættis

PÉTUR Kr. Hafstein hæstaréttardómari tilkynnti í gær að hann byði sig fram til embættis forseta Íslands í kosningunum sem fram fara 29. júní.

Pétur sagði á blaðamannafundi, þar sem m.a. voru viðstaddir allmargir stuðningsmenn hans, að æðsta skylda forseta væri við íslenskan veruleika. Það væri bábilja að vegur forsetans og fremd þjóðarinnar væri því meiri, sem hann hefði meiri skyldum að gegna í útlöndum eða væri í betri tengslum við erlenda fyrirmenn. Pétur hefur fengið launalaust leyfi frá Hæstarétti fram yfir kosningar.

Pétur sagði í ræðu sinni að meginskyldur forseta Íslands væru tvenns konar. "Annars vegar er sú skylda að rækja hlutverk sitt í stjórnskipuninni með öruggum og tvímælalausum hætti í djúptækri virðingu fyrir því íslenska lýðræði, sem grundvallast á þingræði og þingræðisvenjum. Hins vegar er sú skylda forsetans að vera sameiningartákn og friðarafl á innlendum vettvangi, tala í þjóð sína kjark og kraft. Engar skyldur í frjálsu og fullvalda ríki eru brýnni en skyldur þjóðhöfðingjans við þjóð sína og þann grundvöll, sem hún byggir samfélag sitt á. Forsetinn á að skerpa vitund Íslendinga um sjálfa sig sem þjóð í samfélagi þjóðanna, ekki með innihaldslausri lofgerð heldur hvetjandi gagnrýni og markvissri leiðsögn."

Tímabært að leggja aðrar áherslur

Pétur benti á að hinn formlegi rammi um embætti forseta væri ekki jafnskýr og annarra þátta æðstu stjórnar ríkisins. Embættið hlyti því að mótast nokkuð af hendi þeirra, sem með það fara hverju sinni. "Embættið á ekki að festast í ákveðnu fari í einu og öllu og nú er að mörgu leyti tímabært að leggja aðrar áherslur í meðferð þess en stundum áður."

Pétur sagði að embætti forseta ætti að reka með hófsemd og látleysi og ekki í stórþjóðastíl. Sparnaður og ráðdeild ætti að vera í fyrirrúmi og það mætti aldrei gerast að fjárútlát embættisins færu fram úr því sem kveðið væri á um í fjárlögum og fjárveitingarvaldið hefði áætlað.

Fram kom á blaðamannafundinum að Pétur átti fund með Davíð Oddssyni forsætisráðherra og Friðriki Sophussyni fjármálaráðherra áður en hann tók endanlega ákvörðun um framboð. Pétur sagðist hafa talið eðlilegt að ræða við forsætisráðherra um þessa ákvörðun. Aðspurður sagðist hann ekki hafa óskað eftir stuðningi forsætisráðherra eða fjármálaráðherra við framboð sitt og þeir hefðu ekki lýst stuðningi við sig.

Pétur K. Hafstein er fædur í Reykjavík 20. mars 1949. Foreldrar hans eru Ragnheiður Hafstein og Jóhann Hafstein, fyrrverandi forsætisráðherra. Að loknu stúdentsprófi frá MR 1969 hóf Pétur nám í lögfræði við Háskóla Íslands og lauk þaðan embættisprófi 1976. Hann stundaði framhaldsnám í þjóðarrétti við Háskólann í Cambridge í Bretlandi 1977-1978. Pétur var fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík 1976-1977 og starfaði í eigna- og málflutningsdeild fjármálaráðuneytisins 1978-1983. Pétur var sýslumaður á Ísafirði 1983- 1991 þegar hann var skipaður hæstaréttardómari.

Pétur er kvæntur Ingu Ástu Hafstein píanókennara. Þau eiga þrjá syni, 8-17 ára.

Morgunblaðið/Árni Sæberg PÉTUR Kr. Hafstein tilkynnti framboð sitt að viðstöddum hópi stuðningsmanna. Við hlið hans er Inga Ásta Hafstein, eiginkona hans, og Kristján Valur Ingólfsson, sem var fundarstjóri á blaðamannafundinum.