Í MORGUNBLAÐINU 28. apríl er grein sem ber heitið "Uppruni hrapsteina". Höfundur fjallar þar um mælingar á hraða loftsteina og samanburð við svonefndan lausnarhraða. "Lausnarhraða jarðar" skýrir höfundur sem þann hraða, sem gervihnöttur þurfi að hafa í upphafi til þess að honum takist að "yfirgefa þyngdarsvið jarðarinnar", eins og höfundur orðar það. Þarna er eflaust um pennaglöp að ræða.

Um lausnarhraða

og loftsteina

Af þeim mælingum sem lagt er út af í greininni, segir Þorsteinn Sæmundsson, verður ekkert ráðið um uppruna vígahnatta. Í MORGUNBLAÐINU 28. apríl er grein sem ber heitið "Uppruni hrapsteina". Höfundur fjallar þar um mælingar á hraða loftsteina og samanburð við svonefndan lausnarhraða. "Lausnarhraða jarðar" skýrir höfundur sem þann hraða, sem gervihnöttur þurfi að hafa í upphafi til þess að honum takist að "yfirgefa þyngdarsvið jarðarinnar", eins og höfundur orðar það. Þarna er eflaust um pennaglöp að ræða. Réttara væri að segja "yfirvinna" en ekki "yfirgefa", því að enginn hlutur yfirgefur þyngdarsvið jarðar, hversu hratt sem hann fer. En síðan bætir höfundur við: "Alveg eins og jörðin hefur sólkerfið í heild sinni eigin lausnarhraða sem er því sem næst 73 km/sek."

Hér gætir nokkurs misskilnings. Í fyrsta lagi er villandi að tala um lausnarhraða jarðar eða lausnarhraða sólkerfisins þegar átt er við lausnarhraða frá jörð eða frá sólkerfinu. Í báðum tilvikum er lausnarhraðinn háður því hvar lagt er af stað, og því er ekki um neina eina tölu að ræða. Lausnarhraði frá yfirborði jarðar reiknast rúmlega 11 km/sek., en lausnarhraði gervitungls, sem er á braut umhverfis jörð, er minni og fer eftir fjarlægðinni frá jörðu. Lausnarhraði frá sólkerfinu fer fyrst og fremst eftir fjarlægð frá sólu. Í fjarlægð jarðar frá sólu er lausnarhraðinn 42 km/sek. en ekki 73 km/sek. Töluna 42 km/sek. mætti með réttu kalla lausnarhraða jarðar, því að fengi jörðin þann hraða, myndi hún losna frá sólkerfinu. Þennan sama hraða myndi loftsteinn fá, ef hann kæmi úr óendanlegri fjarlægð og hefði allan sinn hraða af fallinu í átt til sólar. Talan 73 km/sek. er hins vegar fengin með því að leggja hraðann 42 km/sek. við hraða jarðar á braut hennar um sólina (30 km/sek.). Þá fæst sá hraði sem fyrrnefndur loftsteinn myndi hafa miðað við jörð, ef svo vildi til að hann kæmi nákvæmlega úr þeirri átt sem jörðin hreyfist í. Áður en loftsteinninn rækist á jörðina, yrði lítilsháttar hraðaaukning vegna aðdráttarafls jarðar, og við það myndi lokahraðinn hækka úr 72 í 73 km/sek.

Nú berast loftsteinar að jörð úr öllum áttum, og þeir sem eiga uppruna sinn í sólkerfi okkar, ættu því að öllum jafnaði að mæta jörðu með hraða sem er minni en 73 km/sek. Meiri hraði sannar þó ekki að loftsteinninn sé lengra að kominn, því að brautir steinanna geta truflast og hraðinn aukist ef þeir fara nálægt einhverri reikistjörnunni. Þannig hefur reikistjarnan Júpíter oftsinnis slöngvað heilum halastjörnum út úr sólkerfinu. Rykið sem streymir frá halastjörnum, þegar þær eru í grennd við sól, getur líka komist yfir lausnarhraðann, þar sem margar halastjörnur fara svo nærri þeim mikla hraða.

Umræddri grein í Mbl. fylgir mynd með textanum: "Hvaðan koma glóandi vígahnettir?". Eftir því sem best verður séð, er myndin ekki af vígahnetti, heldur halastjörnu. En hvað sem því líður, er rétt að benda á, að þær mælingar sem lagt er út af í greininni, beinast fyrst og fremst að örsmáum geimögnum, sem naumast mynda sýnileg stjörnuhröp. Af þeim mælingum verður ekkert ráðið um uppruna stærri loftsteina eða vígahnatta.

Höfundur er stjarnfræðingur.

Þorsteinn Sæmundsson