BYGGÐASAFNI Hafnarfjarðar hefur verið afhent að gjöf líkan af línubátnum Erni GK 5, sem fórst úti fyrir Norðurlandi árið 1936. Líkanið gefa Hrafnhildur, Sveinbjörg, og Halldóra Bergsdætur til minningar um föður sinn, Berg Hjartarson, sem lét smíða það til minningar um föður sinn, Hjört Andrésson, og aðra sjómenn sem fórust með skipinu.
Gáfu líkan af

línubátnum Erni GK 5

BYGGÐASAFNI Hafnarfjarðar hefur verið afhent að gjöf líkan af línubátnum Erni GK 5, sem fórst úti fyrir Norðurlandi árið 1936. Líkanið gefa Hrafnhildur, Sveinbjörg, og Halldóra Bergsdætur til minningar um föður sinn, Berg Hjartarson, sem lét smíða það til minningar um föður sinn, Hjört Andrésson, og aðra sjómenn sem fórust með skipinu.

Í frétt frá Byggðasafninu kemur eftirfarandi fram:

Línuveiðarinn Örn GK 5 var smíðaður í Noregi árið 1903. Skipið var stálskip, 103 brúttólestir að stærð, með 230 ha. 2ja þjöppu gufuvél. Skipið var fyrst gert út frá Noregi, en síðan selt til Færeyja. Árið 1927 keypti O. Ellingsen í Reykjavík skipið sem þá hélt Pétursey RE 277, en árið 1929 var það selt þeim Vilhelm Jónssyni, Guðmundi Guðjónssyni og Albert Guðjónssyni frá Reykjavík. Árið 1932 keypti Samvinnufélagð Ernir frá Hafnarfirði skipið og hét það upp frá því Örn GK 5. Skipið var gert út frá Hafnarfirði og voru eigendur þess 12 sjómenn, sem margir voru í áhöfn þess. Framkvæmdastjóri útgerðarinnar var Beinteinn Bjarnason frá Hafnarfirði.

Örninn fórst með allri áhöfn, samtals 19 manns, út af Norðurlandi, þann 8. ágúst 1936. Þennan dag skall á svartaþoka og norðvestan rok og stórsjór á síldarmiðunum fyrir norðaustan land. Skipin leituðu þvi eitt af öðru vars, en þar sem þau voru flest allmikið hlaðin gekk siglingin seint. Óveðrið hélst allan laugardaginn og fram á sunnudagsmorgun, en fór þá að ganga niður. Hélt síldarflotinn þá inn á Siglufjörð og voru öll skipin kominn þangað á sunnudagskvöld, nema Örninn. Þegar hann kom ekki fram um nóttina, var farið að óttast um skipið og leit undirbúin. Varðskiptið Ægir sem var statt á Húsavík hélt þegar til leitar og fannst annar nótabáturinn á reki mannlaus. Einnig fannst töluvert brak úr skipinu vestan Mánáreyja og er talið að skipið hafi farist á þeim slóðum þann 8. ágúst. Hinn nótabáturinn fannst síðan mannlaus á reki undan Melrakkasléttu. Engin vitneskja hefur fengist um, með hvaða hætti Örninn fórst, en sumir telja að mikil ketilsprenging hafi orðið í skipinu og það sokkið strax.

Morgunblaðið/Ásdís Á MYNDINNI eru f.v. Halldóra Bergsdóttir, Hrafnhildur Bergsdóttir og Björn Pétursson, forstöðumaður Byggðasafns Hafnarfjarðar. Litla hnátan á myndinni heitir Ester Ósk Hafsteinsdóttir.