ÍVAR Guðmundsson, einn þekktasti blaðamaður landsins og fréttaritstjóri Morgunblaðsins um langt skeið, er látinn á 85. aldursári. Ívar var fæddur í Reykjavík 19. janúar 1912, sonur Guðmundar Jónssonar verkstjóra og Sesselju Stefánsdóttur.
ÍV A R GUÐMUNDSSON LÁTINN

ÍVAR Guðmundsson, einn þekktasti blaðamaður landsins og fréttaritstjóri Morgunblaðsins um langt skeið, er látinn á 85. aldursári.

Ívar var fæddur í Reykjavík 19. janúar 1912, sonur Guðmundar Jónssonar verkstjóra og Sesselju Stefánsdóttur. Eftir nám við MR og MA 1927-31 gerðist hann blaðamaður og síðan fréttaritstjóri Morgunblaðsins 1934 til 1951, er hann gerðist blaðafulltrúi hjá upplýsingadeild Sameinuðu þjóðanna í New York.

Eftir það starfaði hann hjá SÞ, rak upplýsingaskrifstofu fyrir Norðurlönd í Kaupmannahöfn 1955-60, var upplýsingafulltrúi við friðarsveitir SÞ á Ítalíu og í Kairo, blaðafulltrúi við ráðstefnu utanríkisráðherra stórveldanna í Genf 1959, blaðafulltrúi forseta Allsherjarþingsins í New York 1961 og síðan forstjóri skifstofunnar í Karachi til 1965 er hann tók aftur við í Kaupmannahöfn. Deildarstjóri alþjóðadeildar upplýsingaskrifstofu SÞ í New York var Ívar 1967-70 og árið eftir aðalfulltrúi við mannfjöldasjóð SÞ.

Eftir að Ívar lauk störfum hjá SÞ fyrir aldurs sakir gerðist hann ræðismaður Íslands í New York og var jafnframt viðskiptafulltrúi við sendiráðið í Washington. Er því starfsskeiði lauk 1986 kom Ívar aftur að Morgunblaðinu sem fréttaritari blaðsins í Washington og sendi heim fréttir frá Bandaríkjunum allt til 1992. Á síðastliðnum vetri kom Ívar Guðmundsson sjúkur heim til Íslands og hefur verið vel hlynnt að honum undafarna mánuði á Skjóli þar sem hann fékk hægt andlát.

Ívar Guðmundsson lætur eftir sig eiginkonu, Barböru Guðmundsson frá Manitoba í Kanada, og þrjá uppkomna syni, Bryan, Bruce og Pétur.

Morgunblaðið þakkar Ívari Guðmundssyni langt og mikið starf og sendir konu hans, börnum og öðrum ættingjum samúðarkveðjur við andlát hans.

Útförin fer fram frá Dómkirkjunni í dag kl. 15.

Ívar Guðmundsson