7. júní 1996 | Blaðaukar | 6148 orð

FJALLVEGIR OG FJÓRHJÓLADRIF

JEPPAFERÐIR upp á hálendið verða æ vinsælli, enda eykst jeppaeign landsmanna með hverju árinu. Hálendið telst það land sem liggur í meira en 300 metra hæð yfir sjó. Flestar ár eru þar óbrúaðar og vegir margir langt frá því að vera rennisléttir, svo þörf er á bifreið með drifi á öllum hjólum.
FJALLVEGIR OG FJÓRHJÓLADRIF JEPPAFERÐIR upp á hálendið verða æ vinsælli, enda eykst jeppaeign landsmanna með hverju árinu. Hálendið telst það land sem liggur í meira en 300 metra hæð yfir sjó. Flestar ár eru þar óbrúaðar og vegir margir langt frá því að vera rennisléttir, svo þörf er á bifreið með drifi á öllum hjólum. Það er þó ekki nóg og vert að undirbúa slíkar ferðir vel, enda erfitt um vik að ætla að bæta úr einhverju á miðju hálendinu. Þess vegna hafa ýmsir opinberir aðilar, sem málið er skylt, gefið út upplýsingabæklinginn Fjallvegir , þar sem eftirfarandi upplýsingar er að finna: Ýmsir fjallvegir á hálendinu eru flokkaðir fyrir almenna umferð. Þeir eru flestir mjóir malarvegir og ár óbrúaðar. Þar verður því að aka gætilega og sýna sérstaka aðgát þegar bílar mætast. Hálendi Íslands er í túndrubeltinu, gróðurfarsbelti sem nær umhverfis hnöttinn á norðurhveli jarðar, Sumrin eru stutt og fremur köld og vaxtartími plantna er því stuttur. Þess vegna er gróður viðkvæmur og nauðsynlegt að umgangast náttúruna af varfærni. Friðlýst svæði á miðhálendinu eru Hveravellir, Landmannalaugar, Askja, Herðubreiðarlindir, Hvannalindir, Þjórsárver, Lakagígar, Skútustaðahreppur allur og Lónsöræfi. Þar gilda sérstakar umgengnisreglur og ber ferðamönnum að virða þær og tilmæli landvarða á þessum stöðum. Óþarfa akstur utan vega er bannaður samkvæmt náttúruverndarlögum. Jarðvegur og gróður eru viðkvæm fyrir umferð og fótgangendur geta jafnvel skilið eftir varanleg ummerki í landinu, sem gróa seint eða aldrei. Þess vegna er óþarfa akstur utan vega bannaður. Við yfir 40 vöð á miðhálendinu hafa verið settar upp leiðbeiningar um það hvernig menn eiga að bera sig þegar farið er yfir vöð. Munið að kanna straum, dýpi og botngerð áður en farið er yfir vatnsföll. Hafið í huga að vatnsmagn í jökulám vex eftir því sem líður á daginn. Gætið þess að fara ekki yfir varasöm vöð ef engir ferðafélagar á öðrum bíl fylgjast með. Nauðsynlegt er að kynna sér hvar tjaldsvæði og sæluhús eru áður en farið er inn á hálendið. Gistingu í sæluhúsum þarf oft að panta með nokkrum fyrirvara því gistirými er takmarkað. Ekki er hægt að treysta á að fá gistingu í skála fyrirvaralaust að sumri til. Hafið því ávallt tjald með í ferð inn á hálendið. Veður á hálendinu getur breyst snögglega og nær fyrirvaralaust. Hitastig getur farið niður fyrir frostmark og jafnvel getur snjóað að sumarlagi. Kannið því veðurhorfur á hálendinu áður en haldið er á fjöll og fylgist með veðurspá á meðan dvalið er þar. Bensínsala er aðeins á nokkrum stöðum á miðhálendinu að sumarlagi og því er nauðsynlegt að fylla bensíntankinn á síðustu bensínstöð áður en haldið er inn á hálendið. Ekki er hægt að treysta á að aðrir séu aflögufærir með bensín. Landverðir eða skálaverðir starfa á helstu ferðamannastöðunum á hálendinu. Þeirra hlutverk er að taka á móti ferðamönnum og veita þeim upplýsingar um staðina og umgengnisreglur sem þar gilda. Þeir eru umsjónarmenn svæðanna og ferðamönnum ber að virða tilmæli þeirra. Opnun fjallvega Veðurfar á hálendinu er rysjótt og venjulega er það þakið snjó langt fram á sumar. Snjóalög ráða mestu um opnun fjallvega og bleyta í vegum getur einnig valdið því að þeir opnist seint. Þar sem fjallvegir liggja um friðlýst svæði er mögulegt að þeir séu ekki opnaðir fyrr en svæðið er talið hæft til þess að taka við ferðamönnum, þrátt fyrir að vegirnir séu auðir og geti borið umferðina. Á vorin, meðan snjóa er að leysa og frost að fara úr jörðu, er mikil hætta á skemmdum á vegum og gróðri. Þetta stafar helst af ótímabærri umferð og því að ekið er utan vega til að krækja fyrir skafla. Einnig getur verið hætta á skemmdum þegar reynt er að koma vélsleðum á snjó að vorlagi. Sumar á hálendinu er aðeins um einn og hálfur mánuður og vaxtartími gróðurs er að sama skapi stuttur. Gróður er því lágvaxinn og mjög viðkvæmur fyrir öllu raski. Umferð gangandi fólks getur jafnvel skilið eftir sig varanleg merki á gróðrinum. Vegagerðin og Náttúruverndarráð gefa vikulega út kort yfir ástand fjallvega. Kortunum er dreift til hótela, fjölmiðla, ferðaskrifstofa og fleiri aðila. Auk þess gefur þjónustudeild Vegagerðarinnar upplýsingar um ástand vega, þar á meðal fjallvega, í síma 563-1500, eða í grænu númeri, sem er 800- 6316. TAFLAN sýnir hvenær fjallvegir hafa verið opnaðir í fyrsta lagi undanfarin 5 ár, hvenær í síðasta lagi og hvenær áætlað er að þeir verði opnaðir í ár. Vegagerðin veitir allar nánari upplýsingar og ættu allir ferðalangar að afla sér sem nákvæmastra upplýsinga áður en haldið er á fjöll. UM FJÖLL OG FIRNINDI MEÐ FERÐAFÉLAGI ÍSLANDS FERÐAFÉLAG Íslands býður upp á dags- og kvöldferðir, helgarferðir og sumarleyfisferðir, sem Íslendingar nýta sér í æ ríkari mæli. Þátttakendur í Ferðafélagsferðum hafa að meðaltali verið um sjö þúsund á hverju ári. Hver sem er getur slegist í för með Ferðafélagi Íslands, en félagsmenn fá þó betri kjör en aðrir og er félagsgjaldið fljótt að borga sig. Afsláttur félagsmanna gildir einnig fyrir maka og börn . Börn og unglingar 7-15 ára, í fylgd foreldra, greiða hálft gjald. Í dagsferðum greiða börn og unglingar að 15 ára aldri ekkert, að undanskildum ferðum í Þórsmörk og Landmannalaugar. Þá eru göngumiðar nýmæli í dagsferðunum og fá félagar fría ferð á tíunda miða. Í ferðunum er gist í sæluhúsum félagsins, öðrum húsum eða tjöldum. Farþegar sjá sjálfir um nesti og annan útbúnað. Ferðafélagið mælir með því að ferðalangar hugi vel að útbúnaði áður en lagt er af stað og leggur áherslu á góðan, hlýjan fatnað yst sem innst, regnfatnað og þægilega skó. Þótt farið sé í stutta ferð er sjálfsagt að taka nesti með, en skrifstofa FÍ gefur allar nánari upplýsingar um útbúnað í ferðir. Ferðalangar þurfa einnig að hafa í huga, að FÍ tryggir hvorki farþega sína né farangur þeirra. Þá þarf að panta tímanlega í sumarleyfis- og helgarferðir, en dagsferðir þarf ekki að panta nema annað sé auglýst sérstaklega. Minjaganga Í ferðaáætlun FÍ í ár er talsvert af ferðum fyrir einstaklinga og fjölskyldur sem kjósa ferðir þar sem áhersla er lögð á útiveru og náttúruskoðun með stuttum og auðveldum gönguferðum. Þetta á við um dags-, helgar- og lengri ferðir. Þá er aukin áhersla lögð á fræðsluferðir í ár, í samvinnu við Hið íslenska náttúrufræðifélag. Minjagangan er ný raðganga við allra hæfi, farin í átta ferðum frá Laugarnesi í Reykjavík upp í Lækjarbotna og síðan að Hafravatni og Blikastaðakró. Leið göngunnar liggur um nokkra áhugaverða minja- og sögustaði innan borgarmarka Reykjavíkur og í næsta nágrenni borgarinnar og er stuðst við fornminjaskrá Þjóðminjasafnsins. Göngunni lýkur 23. júní. Þá hafa Ferðafélagið og Útivist ákveðið að sameinast um 8 ferða raðgöngu til kynningar á gönguleið frá Reykjanestá að Þingvöllum er nefndur hefur verið Reykjavegur. samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, ferðamálasamtök þar og á Suðurnesjum hafa undirbúið merkingu leiðarinnar og hafa ferðafélögin komið inn í það starf. raðgangan hófst 5. maí og henni lýkur 8. september. Leið göngunnar liggur um jarðfræðilega fjölbreytt svæði. Sólstaða og sveppir Sem nokkur dæmi um dags- og kvöldferðir má nefna sólstöðugöngu yfir Esju þann 21. júní, kvöldgöngu á Jónsmessunni 24. júní, fjölskyldugöngu um Rauðuflög og Nesjavelli þann 30. júní, í júlí verða m.a. göngur um Gullkistugjá og Kaldársel, Hafursfell á Snæfellsnesi, Ljósufjöll á Snæfellsnesi, kvöldganga á Esju, hellaskoðunarferð að kvöldlagi og stikað verður um skógarstíga í Heiðmörk. Í ágústmánuði vantar heldur ekki tilboðin í skemmri ferðir. Þá verður kvöldganga út í óvissuna, síðsumarskvöldganga á Álftanesi, gengið um Hveravelli og á Heklu og farið í sveppaferð í Heiðmörk. Dagskráin heldur svo áfram út allt árið. Hér hefur verið stiklað mjög á stóru og er ferðalöngum ráðlagt að verða sér úti um ferðaáætlun FÍ, vilji þeir kynna sér tilboðin betur. Fjöldi helgarferða Hið sama er uppi á teningnum í helgarferðunum. Þar eru ótal tilboð, en sem dæmi um ferðir nú í júní má nefna sólstöðugöngu yfir Fimmvörðuháls og helgina 28.-30. júní verður fjölskylduhelgi í Þórsmörk, þar sem fólk getur ráðið hvort það kemur á eigin jeppa, eigi það slíkt farartæki, eða slæst í för með öðrum í rútunni. Sömu helgi er boðið upp á skíða og gönguferð í Landmannalaugar, Hrafntinnusker og á Torfajökul. Í júlí eru m.a. helgarferðir í Þórsmörk, yfir Fimmvörðuháls og í Landmannalaugar og fjöldi tilboða er einnig í ágúst. Svo aðeins sé nefnd ein forvitnileg ferð í þeim mánuði, þá ætlar Ferðafélagsfólk að fara í ævintýraferð í Þórisdal 17.-18. ágúst og gista í helli. Það sama á við um helgarferðirnar og dagsferðirnar, að FÍ lætur ekki deigan síga eftir sumarið, heldur býður slíkar ferðir allan ársins hring. Laugavegurinn" og aðrar lengri ferðir FÍ býður ýmsar lengri ferðir, sem standa frá þremur og upp í þrettán daga. Einna vinsælust slíkra ferða er gönguleiðin milli Landmannalauga og Þórsmerkur, sem í daglegu tali göngugarpa kallast Laugavegurinn. Á fjórum dögum er gengið frá Landmannalaugum, um Hrafntinnusker, Álftavatn, Emstrur og til Þórsmerkur. Gist er í gönguskálum FÍ og komast 18 manns í hverja ferð. Ferðafélagið skipuleggur einnig ferðir um Kjalveg hinn forna, sem liggur frá Hvítarnesi um Þverbrekknamúla og Þjófadali til Hveravalla. Þá má nefna gönguferð frá Snæfelli í Lónsöræfi, þar sem leiðin liggur um Eyjabakkajökul, gengið er á Geldingafell og Grjótfell og að upptökum Jökulsár í Lóni, farið í dagsgöngu í Víðidal og á sjöunda degi er farið heim frá Illakambi. Lengstu sumarleyfisferðirnar hjá FÍ eru ferðir á Hornstrandir. Sem nýmæli í þeim ferðum má nefna, að flogið er á miðvikudegi til Ísafjarðar og fimmtudagsmorgni að Búðum í Hlöðuvík. Á næstu dögum er svo gengið um Hælavíkurbjarg, Hornvík, Veiðileysufjörð, Lónafjörð og Hrafnsfjörð í Reykjafjörð. Eftir hvílda þar er haldið áfram um Skjaldabjarnarvík, Bjarnarfjörð, Dranga, Ófeigsfjörð og endað í húsi FÍ í Norðurfirði. Þessi ferð, sem stendur í 13 daga, er að vísu flokkuð sem nokkuð strembin í áætlun FÍ, en þeir sem vilja fara á þessar slóðir en jafnframt í léttari göngu geta valið 10 daga ferð. Þá er dvalið í Hornvík yfir helgi, síðan siglt eða gengið yfir að Búðum í Hlöðuvík og dvalið þar í húsi fram til næsta föstudags. Þessi ferð er tilvalin fjölskylduferð og geta ungir sem aldnir litast um í Víkum og skoðað fuglabjörgin stórbrotnu af landi og sjó. FERÐAFÉLAG AKUREYRAR FERÐAFÉLAG Akureyrar skipuleggur fjölda ferða í sumar. Nú í júní verður til dæmis fariðí Jónsmessuferð út í buskann 22. mánaðardaginn. Þann 29. er gengið á Þorgerðarfjall, 6. júlí verður fjölskylduganga að Hraunsvatni, 13. júlí er skipulögð öku- og gönguferð að Þeistareykjum og 13.-16 júlí verður gönguferð milli skálanna í Herðubreiðarlindum og Bræðrafelli. Í þeirri ferð verða ummerki eldvirkni skoðuð sérstaklega og komið við á Kollóttudyngju. Það væri til að æra óstöðugan að tíunda allar ferðir Ferðafélags Akureyrar, en svo haldið sé áfram að grípa niður í áætlun sumarsins, þá verður farið í jeppaferð 26.-28. júlí. Farin verður leiðin Dyngjufjalladalur-Askja-Herðubreiðarlindir og er ferðin hugsuð sem afturhvarf til þeirra tíma, þegar ferðir félagsins voru ósjaldan farnar á jeppum félagsmanna sjálfra. Öskjuvegurinn Ferðafélag Akureyrar hefur undanfarin ár unnið að skipulagningu gönguleiðar yfir Ódáðahraun. Leið þessa, Öskjuveginn" er hæfilegt að ganga á 5-6 dögum. Fyrsta daginn er fylgt stikaðri leið úr Herðubreiðarlindum, við norðurrætur Herðubreiðar, vestur í skála Ferðafélags Akureyrar við Bræðrafell. Vegalengd göngunnar fyrsta daginn er 17-19 kílómetrar, lóðrétt hækkun er 240 metrar og göngutíminn að minnsta kosti 5-6 klukkustundir. Á öðrum degi er gengið suður frá Bræðrafelli að Dreka. skála FFA austur undir Dynjufjöllum. Leiðin er að mestu stikuð. Vegalengd er 18-20 km, lóðrétt hækkun 60 metrar og göngutími a.m.k. 6-7 klukkustundir. Á þriðja degi mætti ganga norðvestur yfir Dynjufjöll um Öskju og Jónsskarð að Dyngjufelli, skála FFA í Dyngjufjalladal. Hér væri hægt að bæta við aukadegi til að skoða Öskju. Skemmtilegt er að ganga beint vestur yfir fjöllin frá Dreka, upp á austurbarm Öskju. Þaðan er gengið norður austan Öskjuvatns að Víti. Frá Víti er best að ganga norður að Vikraborgum við Öskjuop og þaðan vestur undir fjöllunum nyrst í Öskju að Jónsskarði. þaðan er stikuð leið norður yfir Jónsskarð og niður í Dyngjufjalladal. Vegelengd er 19-20 km, lóðrétt hækkun 500 metrar og tími a.m.k. 8-10 klst. Frá Dyngjufelli er gengið norður úr Dyngjufjalladal í Suðurárbotna, þar sem FFA hyggst reisa skála á árinu 1996. Löng dagleið er að ganga frá Dyngjufelli um Suðurárbotna norður á Stóruflesju við Suðurá. Þar eru gangnamannaskálar Mývetninga og hægt er að fá leyfi hjá fjallskilastjóranum á Skútustöðum til að gista í þeim. Vegalengd er 30-31 km og gangan tekur a.m.k. 8-10 klst. Í stað þess að ganga lengri leiðina norður í Suðurárbotna má ganga frá Dyngjufelli á einum degi norðan Dyngjufjalla austur í Bræðrafell. Lengd þeirrar leiðar er 19-22 km og gangan tekur 9-10 klst. Ef gist er á Stóruflesju er róleg ganga síðasta dag ferðarinnar um gróið land niður með Suðurá að Svartárkoti í Bárðardal. Vegalengdin er 8 km og gangan tekur aðeins 2-3 klukkustundir. Á ferðaáætlun FFA í sumar eru þrjár ferðir um ofangreint svæði. Sú fyrsta verður farin 13.-16 júlí, önnur 26.-28. júlí og sú þriðja 2.-5. ágúst. FERÐAFÉLAG FLJÓTSDALSHÉRAÐS FERÐAFÉLAG Fljótsdalshéraðs fer í sólstöðuferð á Héraðssand þann 22. júní. Þann 29 verður svo það sem Ferðafélagsmenn kalla upphitun" í Fjallasyrpu ársins, sem er ganga á Múlakoll, 642 metra hátt fjall. Þann 6. júlí verður farið í sérstaka ferð á söguslóðir Vopnfirðingasögu. Fjallasyrpan heldur svo áfram þann 20. júlí og að þessu sinni verður gengið á Hött, sem er 1106 metra yfir sjávarmáli. Lokahnykkurinn í Fjallasyrpunni verður svo dagana 24.-25 ágúst, þegar gengið verður á Snæfell, hæsta fjall Íslands utan jökla, en það telst 1833 metra hátt. FERÐAFÉLAG AUSTUR- SKAFTFELLINGA FERÐAFÉLAG Austur-Skaftfellinga ætlar í Jónsmessuferð eitthvert út í bláinn. Í júlí eru skipulagðar tvær ferðir, sú fyrri er gönguferð um fjalllendi austan Hoffellsár, en sú síðari um Hvannagil og Bæjardal í Lóni. Í ágúst ætlar félagið að ganga umhverfis Kvísker og í Múlagljúfur og í sama mánuði verður helgarferð í Geithellnadal og Kollumúla. Lokahnykkur á starfi sumarsins verður í september, þegar skipulögð verður haustlitaferð. FERÐAFÉLAG SKAGFIRÐINGA FERÐAFÉLAG Skagfirðinga fer í Glerhallavík þann 21. júní og gengur á Tindastól þann 30. Í júlí eru gönguferðir á Glóðafeyki, Trölla og Mælifellshnjúk, ganga um Austurdal frá Grána í Ábæ og fjölskylduferð Ábæ-Hildarsel-Fögruhlíð. Fleiri ferðir eru skipulagðar í ágúst. FERÐAFÉLAG HÚSAVÍKUR FERÐAFÉLAG Húsavíkur fer í kvöldgöngu 18. júní á Hallbjarnarstaðakamb og að Skeifárfossi. Þann 21. júní verður vinnuferð í Sigurðarskála. Helgina 13.-14. júlí skipuleggur félagið ferð í Hrísey, Barkárdal, Öxnadal, að Hraunsvatni. Gist verður í Baugaseli. Þann 27. júlí verður skoðunarferð í Þingey. Í ágúst verður göngu- og grillferð þann 10., í Aðaldalshraun og Hellnasel. Þann 17. ágúst verður farið í Flateyjardal og lokunarferð í Sigurðarskála farin 30. ágúst. ÚT UM ALLT MEÐ ÚTIVIST ÚTIVIST býður upp á ferðir um Ísland og leggur félagið áherslu á uppbyggingu gönguleiða, byggingu fjallaskála, kynningarstarf um ferðir á Íslandi og uppgræðslu landsins. Ferðirnar eru fjölbreyttar og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, jafn rólegasta fjölskyldufólk sem vönustu fjallagarpar. Útivist skipuleggur í sumar bæði lengri og styttri ferðir af ýmsum toga, náttúruskoðunarferðir, bakpokaferðir, söguferðir, skemmtiferðir, rútuferðir, jeppaferðir, trússferðir, ferðir fyrir unglinga og fleira. Af dagsferðum má nefna, að 23. júní verður Jónsmessunæturganga úr Sleggjubeinsdal, yfir Húsmúla í Marardal. Helgarferðir í júní eru t.d. ganga á Snæfellsjökul, í Bása eða yfir Fimmvörðuháls á sumarsólstöðum, helgina 21.-23. júní. Næstu helgi á eftir, 28.-30. júní verða ferðir í Bása og Kerlingarfjöll með gönguferðum við allra hæfi og ökuferð um helstu staði í Skaftárhreppi. Sömu helgi verður gönguferð yfir Fimmvörðuháls. Leggjabrjótur og lækningajurtir Í júlí eru ekki síður fjölbreyttar ferðir. Þann 14. verður til dæmis farin dagsferð yfir Leggjabrjót, hina fornu leið milli Þingvallasveitar og Hvalfjarðar og önnur forn leið verður farin 28. júlí, þegar gengin verður Selvogsgatan, milli Hafnarfjarðar og Selvogs. Af helgarferðum í júlí er t.d. vert að skoða Mýrdalsjökul helgina 5.-7., sömu helgi verður farið í Bása, Lakagíga og yfir Fimmvörðuháls. Jurtum verður safnað í Þjórsárdal 6.-7. júlí, bæði lækningajurtum og jurtum sem henta í te og aðra drykki. Komið verður við að Stöng og í Þjóðveldisbænum. Síðar í júlí verður t.d. farið í Hítardal helgina 12.-14. júlí og í Skaftárdal 26.-28. júlí, þar sem ferðafélagar gista og ganga síðan að Leiðólfsfelli. Fimmvörðuhálsi verður að sjálfsögðu sinnt í nokkrum ferðum í júlí og göngugarpar koma þá oftar en ekki við í Básum. Fimmvörðuhálsferðirnar eru hinar fjölbreyttustu og er einnig boðið upp á slíkar ferðir í miðri viku, fyrir þá sem ekki komast um helgar. Í ágúst verður farið í dagsferð að Heklu, arkað Reykjaveginn og upp á Högnhöfða, svo dæmi séu tekin. Verslunarmannahelgi á fjöllum Verslunarmannahelgina nýta göngugarpar í Útivist sér rækilega. Þá er m.a. skipulögð ferð í Bása, þar sem hægt er að velja um gönguleiðir um nágrennið, farið frá Básum upp á Fimmvörðuháls og haldið í Landmannalaugar með samkomutjald í farteskinu. Þá verður farið í Núpsstaðarskóg og er hægt að velja um gönguferð við allra hæfi, eða strembnari göngu fyrir vant göngufólk. Vilji ferðalangar reyna eitthvað nýtt um verslunarmannahelgina þá skipuleggur Útivist nú í fyrsta sinn ferð um Lakagíga, Sveinstind og Skælinga. Þessa miklu ferðahelgi er einnig gönguferð frá Ólafsfirði í Héðinsfjörð, þar sem gist er um nóttina og síðan gengið til Siglufjarðar, þar sem síldarævintýri verður í fullum gangi. Ýmsar aðrar helgarferðir eru í boði í ágúst og ber þar hæst ýmsar ferðir á Fimmvörðuháls. Þá má nefna, að 23.-25. ágúst heldur Útivist í pysjuferð út í Vestmannaeyjar. Að sjálfsögðu verður gengið um Heimaey þvera og endilanga og siglt í kringum hana að auki. Um mánaðamótin ágúst-september fagnar Útivistarfólk 5 ára afmæli Fimmvörðuskála og slær upp fagnaði í skálanum, auk þess sem ýmsar gönguleiðir á svæðinu verða skoðaðar nánar. Sumarleyfi með Útivist Útivist skipuleggur ýmsar lengri sumarleyfisferðir. Þeir sem ætla sér í slíkar ferðir ættu að panta tímanlega. Fargjaldið verður að greiða viku fyrir brottför, en fararstjórar halda undirbúningsfundi fyrir allar sumarleyfisferðir, venjulega um einni viku fyrir brottför. Þar er fjallað um ferðatilhögun, útbúnað og annað sem máli skiptir. Sumarleyfisferðirnar í ár eru hátt í 30 talsins og verður að ráðleggja lesendum að hafa samband við Útivist til að fá alla nánari upplýsingar. Svo aðeins sé stiklað á stóru um áfangastaðina, þá verður m.a. haldið í sólstöðuferð á Ingjaldssand, farið í Emstrur og Bása, Landmannalaugar, Núpsstaðarskóg, Aðalvík og Hornvík, um Austfirði og Austfjarðafjöll, Austurdal og Nýjabæjarfjöll, Lónsöræfi, Ingólfsfjörð og Reykjafjörð, gengið Laugaveginn", og farið um Vatnajökul á vélsleðum. SUÐURLAND SIGLT MILLI LANDS OG EYJA ÞAÐ tekur tvær og hálfa klukkustund að sigla með Herjólfi á milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar. Ferjan sem var tekin í notkun árið 1992, er rúmgóð með tveggja og fjögurra manna klefum, stórri kaffiteríu með matseðli, krá og sjónvarpssal með bíóstólum. Fimm hundruð farþegar komast í ferjuna í hverri ferð og bílageymslan tekur um 70 fólksbíla. Fargjald fyrir fullorðna aðra leið er 1.300 krónur, ellilífeyrisþegar og börn á aldrinum 6-12 ára greiða 650 krónur, en ókeypis er fyrir börn yngri en 6 ára. Hægt er að panta svefnrými og kostar uppbúið rúm 650 krónur, en rúm með teppi og kodda 325 krónur. Fyrir fólksbíl af venjulegri stærð þarf að greiða 1.300 krónur, fyrir stóra fólksbíla eða húsbíla 2.600 og fyrir mótorhjól 800 krónur. Síðan er hægt að fá fjölskylduafslátt þar sem einn fullorðinn greiðir fullt fargjald, en aðrir fullorðnir fá 50% afslátt. Einnig er hægt að kaupa sérstök afsláttarkort. Sumaráætlun Herjólfs er í gildi fram til 1. september nk. Ferjan fer alla daga kl. 8.15 frá Vestmannaeyjum og frá Þorlákshöfn kl. 12.00. Á fimmtudögum, föstudögum og sunnudögum fer ferjan líka frá Vestmannaeyjum kl. 15.30 og frá Þorlákshöfn kl. 19.00. Rútuferðir eru frá Umferðarmiðstöðinni í Reykjavík kl. 10.45 og 17.30 í tengslum við brottför Herjólfs frá Þorlákshöfn. Í GÖNGUSKÓM Á LAUGARVATNI LAUGARVATN í Laugardalshreppi er vinsæll ferðamannastaður. Þar er nokkur byggðakjarni, en til skamms tíma voru starfræktir fimm skólar við Laugarvatn. Þungamiðja skólastaðarins er Héraðsskólinn sem var byggður í burstabæjarstíl árið 1928 en aðrir skólar voru stofnaðir síðar í tengslum við Héraðsskólann. Þeir eru Íþróttakennaraskóli Íslands, sem var byggður árið 1932, Húsmæðraskóli árið 1944, Menntaskólinn á Laugarvatni árið 1953 og barnaskóli, sem var um árabil í fóstri Héraðsskólans en í eigin húsnæði frá 1962. Húsmæðraskólinn lagðist af fyrir nokkrum árum, en aðrir skólar staðarins starfa enn af fullum krafti. Rekstur þeirra hefur leitt til aukinnar byggðar og þjónustu á Laugarvatni og má þar nefna verslun, banka, pósthús, símstöð o.fl. Þegar Héraðsskólinn á Laugarvatni hafði starfað í nokkur ár og vegasamgöngur voru orðnar viðunandi fóru ferðamenn að streyma til Laugarvatns og hefur sá straumur staðið óslitið síðan. Margir ferðamenn nýta dvölina til gönguferða um staðinn enda er það ýmislegt að sjá. Niðri við vatnið er Vígðalaug þar sem menn voru skírðir til forna og lík þeirra Hólafeðga voru lauguð vorið 1551, áður þeir þau voru flutt til greftrunar fyrir norðan. Jónasarlundur er skjólgóður staður, kjörinn til að njóta sólar, í kjarrlendinu fyrir ofan þorpið. Þar er brjóstmynd af Jónasi Jónssyni frá Hriflu. Stóragil vestra. Einfaldasta gönguleiðin að Stóragili er að ganga vestur Gjábakkaveg, upp á brekkubrún fyrir ofan vatnsgeymi Laugarvatns, í námunda við skíðalyftu hreppsbúa. Laugarvatnsfjall. Þaðan er víðáttumikið útsýni. Frá fjallsrótum eru um 500 metrar upp á brún og er það tilvalin fjölskyldugönguleið. Styst er að fara upp frá Pósti og síma en auðveldara er að ganga öxlina ofan skíðalyftu. Fjallið er flatlent að ofan svo ganga verður allmikið um ef útsýni á að fást til allra átta. Stóragil eystra. Frá Laugarvatni er 15-20 mínútna gangur í þennan gilskorning milli Laugarvatnsfjalls og Snorrastaðafjalls, rétt ofan við tjaldstæðið. Inni í gilinu eru hellar og klettar sem eru skemmtilegir fyrir klifurgarpa. Neðan við hellana er Reyniviðarbrekkar, þar sem svonefnd Trúlofunarhrísla er. Það er sagt að henni fylgi álög ef tekin er af henni grein - en það er ekki vitað hvort álögin feli í sér gæfu eða ógæfu. Skillandsárgljúfur. Ein fegursta gönguleið í Laugardal er upp með Skilllandsá. Farið er út af þjóðveginum móts við bæinn Ketilvelli, um 4 km. í norðaustur af Laugarvatni. Gullkista. Upp frá Miðdal, sem er í um 5 km. fjarlægð frá Laugarvatni, er tíðfarnasta gönguleiðin upp að Gullkistu. Vegurinn upp að Miðdalsfjalli er fær jeppum að sumarlagi. Kóngsvegur. Þessi gamli reiðvegur liggur í gegnum skóginn allt frá Miðdalskoti austur yfir Brúará, en á henni er gömul göngubrú. Þarna í skóginum er mjög friðsælt og fallegt á ljúfum sumardegi. Gist á Laugarvatni Þeir eru fjölmargir sem yfir sumarið gista í sumarbústöðum við Laugarvatn eða í nágrenninu. Þá er tjaldbúum ekki í kot vísað því við austurenda þorpsins eru falleg tjaldstæði í kjarrivöxnu umhverfi og í tengslum við þau er rekin þjónustumiðstöð með hreinlætisaðstöðu og verslun. Þá eru rekin tvö sumarhótel á Laugarvatni á vegum Ferðaskrifstofu Íslands. Þau veita alla almenna þjónustu, auk þess sem annað þeirra býður upp á svefnpokapláss. Það er auðvelt að finna annað sér til dægradvalar á Laugarvatni en gönguferðir. Við vatnsbakkann er til dæmis rekin margs konar þjónusta og ber þar fyrst að nefna gufubaðið víðfræga sem byggt er yfir hver. Báta- og seglbrettaleigan leigir ýmsar gerðir af vatnafarkostum auk þess sem hún stendur fyrir námskeiðum í seglbrettasiglingum. Þá eru nokkrar minigolfbrautir á vatnsbakkanum. Við nýja íþróttahúsið er sundlaug sem er opin almenningi og hægt er að fá veiðileyfi hjá landeigendum íár og vörn á svæðinu. Þá er golfklúbbur starfandi og unnið er að gerð golfvallar, en 9 holu golfvöll er að finna í Miðdal, í um 5 km. fjarlægð frá Laugarvatni. SJÓMINJASAFN ÍSLANDS ER Í HAFNARFIRÐI Tíu ár eru nú liðin frá því að Sjóminjasafn Íslands tók til starfa. Það er til húsa í Brydepakkhúsi sem byggt var í hjarta Hafnarfjarðar um 1865. Húsið var sérstaklega endurbyggt fyrir safnið og er nú viðeigandi umgjörð um muni og minjar frá sjósókn fyrri tíma. Næstu nágrannar Sjóminjasafnsins eru Byggðasafn Hafnarfjarðar, í húsi sem Bjarni Sívertsen, faðir Hafnarfjarðar", byggði árið 1803, og veitingahúsið A. Hansen sem er í gömlu Hansensbúð. Aðstandendur þeirrar starfsemi sem rekin er í þessum þremur húsum hafa sameinast um að kynna starfsemi sína og kenna sig við Sögutorg í Hafnarfirði. Í anddyri Sjóminjasafnsins er afgreiðsla og lítil safnbúð. Þar er rakin saga endurbyggingar Brydepakkhúss og sýndar gamlar ljósmyndir frá Hafnarfirði. Í forsal verður brugðið upp smærri sýningum eftir því sem tilefni gefast. Þar eru nú minjar um bátabrunann í Vesturvör 23. apríl 1993, sýning á munum og teikningum frá Vita- og hafnamálaskrifstofu, merkjafánar, ný aðföng sem safninu berast, stórt líkan af kútter auk mynda og líkana sem minna á siglingu erlendra manna til Íslands fyrr á tímum. Stærstur hluti þeirra 500 fm sem Sjóminjasafnið hefur yfir að ráða fer undir fastasýninguna Fiskur og fólk þar sem reynt er að stikla á stóru í sögu sjósóknar og siglinga Íslendinga frá fyrstu tíð til samtímans. Sýningunni er ætlað að standa í 1-3 ár. Hún er sett upp í tímaröð eftir því sem hægt er og munir í eigu safnsins og húsrúm leyfa. Á 1. hæð eru þrír árabátar, veiðarfæri, munir, myndir og líkön frá þeim tíma þegar handafl og vindur voru einu orkugjafarnir til sjós. Á 2. hæð er m.a. saga vélbáta og togara, farþega- og flutningaskipa, landhelgisgæslu, þorskastríða, siglingatækni, fjarskipta og síldveiða. Rishæðin er síðan nýtt undir kennslu skólabarna, skoðun myndbanda, fundi og fyrirlestra. Þar eru nokkrar smærri sýningardeildir og ekki síst kappróðrarbáturinn og hvítblái fáninn sem danskir sjóliðar af Islands Falk tóku af Einari Péturssyni þegar hann reri sér til skemmtunar á Reykjavíkurhöfn 12. júní 1913. Opnunartímar Sjóminjasafn Íslands er yfir sumarmánuðina opið daglega frá kl. 13-17. Aðgangseyrir er 200 kr. fyrir fullorðna en börn og ellilífeyrisþegar þurfa ekki að greiða aðgangseyri. Að sögn aðstandenda safnsins er gestum safnsins skipt í þrjá hópa. Erlendir ferðamenn eru fjölmennasti hópurinn, þá koma skólabörn sem heimsækja safnið gjarnan í fylgd kennara og síðasti hópurinn telur Íslendinga sem kíkja við. Þeir mættu vera duglegri að koma að mati aðstandenda safnsins og því er hér með komið á framfæri. HEIMILI FARFUGLANNA VÍÐA um land er að finna gististaði, sem kallast því skemmtilega nafni Farfuglaheimili . Ekki eru þessi heimili þó ætluð fyrir fiðraða ferðalanga, heldur þá sem vilja ódýra gistingu með möguleikum til sjálfsþjónustu á sem flestum sviðum. Gisting er í rúmi með sæng og kodda, þannig að ferðalöngum nægir að koma með eigin sængurföt eða fá þau leigð á staðnum. Einnig geta þeir notað eigin svefnpoka ef þeir kjósa það frekar. Á flestum farfuglaheimilum eru herbergi tveggja til fjögurra manna og leitast er við að hafa sérstök fjölskylduherbergi. Hreinlætis- og snyrtiaðstaða er að sjálfsögðu á heimilunum, en gestir leggja sjálfir til handklæði, sápu og annað þess háttar. Gestir geta svo sjálfir notað eldhúsið á staðnum til að elda sér eigin mat, en mörg heimilanna selja einnig mat. Öruggara að panta Ekki er nauðsynlegt að panta gistingu á farfuglaheimilunum, en það er þó alltaf öruggara. Sérstaklega ætti fólk að panta ef það óskar eftir fjölskylduherbergi og hópar ættu vissulega að hafa vaðið fyrir neðan sig og panta. Þrjátíu farfuglaheimili eru um allt land og á kortinu hér á síðunni geta ferðalangar áttað sig á staðsetningu þeirra. Skrifstofa Bandalags íslenskra farfugla, sem staðsett er á farfuglaheimilinu í Reykjavík að Sundlaugavegi 34, við hliðina á sundlauginni í Laugardal, veitir allar nánari upplýsingar. ÞJÓNUSTUMERKI OG LEIKUR MEÐ auknum ferðalögum og þar með síaukinni þjónustu fyrir ferðamenn fer ýmsum umferðarmerkjum einnig fjölgandi. Nú er ekki einungis þörf á nauðsynlegum viðvörunum um blindhæð, krappa beygju, vegavinnu, steinkast og fleira í þeim dúr, sem allir ferðalangar kunna vonandi utan að, heldur þurfa ferðamenn einnig að vita hvar þeir geta fundið athyglisverða staði, hvar hægt er að leita aðstoðar ef bíllinn bilar, hvar hægt er að leigja hest ef sá gállinn er á mönnum, hvar hægt er að leggja hjólhýsinu, komast í þvottavél, leigja sér sumarhús, elda mat eða komast í sturtu. Svokölluð þjónustumerki, sem ættu að upplýsa ferðalanga um allt þetta og meira til, eru nú 62 talsins. Nú ætti enginn að velkjast í vafa um hvar næsta sorpgám, íþróttahús, ferðamannaverslun, banka, sædýrasafn eða bakarí er að finna. Þar sem merki þessi eru mörg ný af nálinni eru þau birt hér lesendum til glöggvunar. Þegar sumarfríið rennur upp og ekið er af stað um landið ætti því öll fjölskyldan að vita hvað þessi merki þýða. Það gæti líka verið skemmtilegt fyrir yngsta fólkið í fjölskyldunni að gista á merkingu skiltanna og mamma og pabbi geta þá fylgst með hvort afkvæmin skilja merkingarnar rétt. Þannig gæti öll fjölskyldan skemmt sér og um leið áttað sig betur á öllum skiltunum. RÁÐ FRÁ REYNDUM FJALLAMÖNNUM HJÁ ferðafélögum og verslunum sem selja ýmsan útilífsfatnað hafa menn á orði á Íslendingar hafi fundið fæturna" um 1990. Með þessu er átt við, að Íslendingar áttuðu sig allt í einu á að allir þessir útlendingar, sem voru á sífelldu vappi um fjöllin á Íslandi, hefðu eitthvað til síns máls; það væri ef til vill ekki svo galið að reyna þetta líka. Íslendingar, eins og aðrar þjóðir, voru líka meðvitaðri um nauðsyn hollrar hreyfingar og með gönguferðum er hægt að sameina þjálfun og skemmtilega útivist í fögru umhverfi. En draumaferðin á fjöll getur breyst í martröð ef útbúnaðurinn er lélegur. Til allrar hamingju eru flestir þess vel meðvitaðir, en sífellt bætast nýir fjallamenn í hópinn. Þeim til glöggvunar hafa verið gefnar út ýmsar leiðbeiningar um æskilegan útbúnað. Skátabúðin, sem lengi hefur selt alls konar fatnað og viðlegubúnað, gefur ferðalöngum til dæmis ýmis heilræði. Ætli menn í gönguferð um landið er mælt með 60-80 lítra bakpoka, léttu göngutjaldi, fyrirferðarlitlum bakpoka, dýnu, góðum gönguskóm, legghlífum, göngustöfum, höfuðljósi, áttavita og göngukorti, fyrirferðarlitlu eldunartæki, pottasetti, eldsneyti og eldspýtum, hitabrúsa, hnífapörum, diskum og vasahníf, mat (t.d. þurrmat), ýmsu orkufæði eins og þurrkuðum ávöxtum, súkkulaði, hnetum og rúsínum, sóláburði, sárabindi, plástri og hælsærisplástri, tannbursta, tannkremi, sápu, sjampó og salernispappír. Heppilegur klæðnaður er vandaður nærfatnaður fyrir útivistarfólk, flís- eða ullarpeysa, flísbuxur eða hnébuxur, mjúkir ullarsokkar, stakkur úr Gore-Tex efni eða annað sambærilegt og hlífðarbuxur úr sama efni, húfa og vettlingar. Taka þarf með aukafatnað; nærfatnað, buxur og peysu, sokka, stuttbuxur, sundfatnað og handklæði og millifatnað til skiptanna. Vandið val á skóm Að sjálfsögðu er misjafnt hvað menn þurfa að hafa með sér af farangri eftir lengd ferða, en fötin og skórnir þurfa alltaf að vera í lagi og rétt að leita ráðlegginga reyndari manna. Við val á gönguskóm er til dæmis nauðsynlegt að hugleiða hvar og hvernig þeir verða notaðir. Meginreglan er sú að í styttri ferðum eru léttir og mjúkir skór heppilegastir, en í lengri ferðum, þar sem allar vistir og búnaður er borinn á bakinu, eru vatnsheldir skór með góðum stuðningi við ökkla nauðsynlegir. Þegar skórnir eru mátaðir er gott að vera í sömu skóm og nota á á göngunni. Skórnir gangast til og víkka með tímanum, þannig að sokkarnir mega ekki vera of þykkir. Þegar búið er að reima skóna er gott að ganga rösklega um gólf til að finna hvernig skórnir passa. Gakktu upp og niður tröppur og gættu að því að skórnir sitji vel og nuddi fæturna hvergi. Taktu þér góðan tíma til að skoða ýmsar tegundir og finna örugglega réttu stærðina, því ekki er gott að vakna upp við það á fjöllum að vanda hefði mátt valið betur. Nokkur heilræði Skátabúðin gefur fjallafólki líka nokkur heilræði áður en lagt er í 'ann: Farðu aldrei í langferð án þjálfunar. Ferðastu aldrei ein(n). Taktu mið af veðri og veðurútliti. Hlustaðu á reynda fjallamenn. Sparaðu kraftana og leitaðu skjóls í tæka tíð. Hafðu ávallt með þér áttavita og kort. Snúðu við í tæka tíð. Það er engin skömm að því. Búðu þig undir óstöðuga veðráttu og hafðu með þér nauðsynlegan fjallabúnað. Segðu öðrum hvert ferðinni er heitið og hvenær þú kemur til baka. NÍTJÁN EDDUHÓTEL EDDUHÓTELIN eru nú orðin nítján talsins, en nýjasta viðbótin er 24 herbergja heilsárshótel á Flúðum. Tvö önnur Edduhótel eru rekin allt árið, á Kirkjubæjarklaustri og Hvolsvelli, en hin eru opin frá júníbyrjun til ágústloka. Í öllum Edduhótelunum er boðið upp á gistingu í herbergjum með handlaug, en á sumum er jafnframt boðið upp á herbergi með baði og mörg þeirra hafa sundlaug. Flest Edduhótelin bjóða gistingu í svefnpokaplássi. Edduhótelin er að finna hringinn í kringum landið. Ef byrjað er á Laugarvatni, þá er tvö hótel að finna þar, í Menntaskólanum og Húsmæðraskólanum, samtals 127 herbergi. Í Reykholti í Borgarfirði er einnig hótel, með 48 gistiherbergjum, Laugar í Sælingsdal bjóða gistingu í 34 herbergjum og þar er einnig svefnpokapláss. Á Vestfjörðum eru tvö Edduhótel. Annað er á Núpi við Dýrafjörð, þar sem eru 34 herbergi og svefnpokapláss og í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp eru 28 herbergi og einnig góð aðstaða til gistingar í svefnpokum. Ef farið er um Norðurland er einnig leikur einn að finna Edduhótel. Fimmtíu herbergja hótel er að Reykjum við Hrútafjörð, á Laugarbakka fyrir botni Miðfjarðar eru 29 herbergi og Edduhótelið á Húnavöllum, korters akstur frá Blönduósi, býður 28 herbergi og svefnpokapláss. Þar er stór íþróttasalur undir sama þaki og hótelið og sundlaug við húsvegginn. Áfram skal haldið og þegar ferðalangar koma niður í mynni Hörgárdals blasir Edduhótelið á Þelamörk við. Þar eru 32 herbergi, auk svefnpokapláss. Aðeins er 10 mínútna akstur til Akureyrar. Kjósi menn að gista þar í bæ, þá er Edduhótel í húsi Menntaskólans, með hvorki fleiri né færri en 79 herbergi. Á Stórutjörnum í Ljósavatnsskarði er hægt að velja um margs konar gistiaðstöðu í Edduhótelinu, allt frá svefnpokaplássi upp í ný herbergi með baði. Sundlaug, heitur pottur og barnaleiksvæði innanhúss og utan. Næst víkur sögunni austur á firði. Edduhótelið á Eiðum er aðeins 13 kílómetra frá Egilsstöðum, í landi þar sem hreindýrahjarðir reika um hátt í fjöllum. Kjósi menn gróðursældina þá stendur til boða að gista á litlu Edduhóteli í miðjum Hallormsstaðarskógi. Þar þykir veðursæld með mesta móti og á góðum degi fátt sem mælir á móti sundspretti í nýrri laug við hótelið. Þegar sunnar dregur er hægt að gista á Edduhóteli í Nesjaskóla, skammt frá Höfn í Hornafirði. Á Suðurlandi eru þrjú Edduhótel, heilsárshótelið á Kirkjubæjarklaustri, sumarhótelið á Skógum og heilsárshótelið á Hvolsvelli. Hringferðinni lýkur svo í nýjasta hótelinu, á Flúðum. Auk 24 herbergja, sem leigð eru út allt árið eru að auki 19 herbergi í skólahúsnæðinu leigð út á sumrin. SÉRHÆFÐIR Í STUTTUM SÉRFERÐUM FERÐAÞJÓNUSTAN Frá hvirfli til ilja er nýstofnað fyrirtæki sem sérhæfir sig í stuttum sérferðum. Þar eru skipulagðar ferðir fyrir starfsmannafélög og alls kyns hópa fólks sem hefur áhuga á stuttum skemmtiferðum hvert á land sem er. Fólk getur lagt fram hugmyndir um ferðir, en meðal þeirra ferða sem Frá hvirfli til ilja bendir á eru: helgarferð á Snæfellsnes með siglingu um Breiðafjörð, tveggja til þriggja tíma gönguferð um Viðey, dagsferð um Reykjanes, dagsferð á Egluslóðir í Borgarfirði, dagsferð á Njáluslóðir og tveggja daga ferð til Vestmannaeyja með siglingu umhverfis Heimaey. FERÐAÞJÓNUSTU bænda vex sífellt fiskur um hrygg. Fyrir nokkrum árum byrjuðu bændur að selja ferðalöngum gistingu heima á bæjum og voru þá oftast tekin frá herbergi inni í íbúðarhúsi ábúenda jarðanna. Síðar fóru bændur að byggja smáhýsi, þar sem ferðalangar gistu og nú er sums staðar hægt að finna myndarlegustu gistiheimili á jörðum þar sem áður var byrjað að leigja út tvö lítil herbergi. En uppbygging af þessu tagi hentar ekki öllum, enda ákjósanlegt fyrir ferðalanga að möguleikarnir séu sem fjölbreyttastir. Því er enn hægt að velja um margs konar gistimöguleika hjá bændum og verðið er í samræmi við það. Skrifstofa Ferðaþjónustu bænda er nú til húsa að Hafnarstræti 1 í Reykjavík, en flestir ættu að átta sig á staðsetningunni þegar það fylgir sögunni, að þar var verslunin Hamborg í mörg ár. Skrifstofan gefur út verðlista á hverju ári, en sá verðlisti gildir þegar gengið er frá pöntunum og greiðslu fyrir gistingu á skrifstofunni sjálfri. Einhver frávik kunna að vera frá því samræmda verði á hverjum og einum bæ, en ferðalangar ákveða að banka upp á þar og skipta beint við bóndann. En verðlistinn lítur þannig út, að hægt er að fá uppbúið rúm á 2.050 krónur, 2.300 krónur eða 3.100 krónur á mann og fer það t.d. eftir stærð herbergja. Rúmin eru ýmist í herbergjum inni á bæjunum eða í smáhýsum á jörðinni. Svefnpokagisting í rúmi kostar 1.350 krónur, en álag fyrir eins manns herbergi er 1.000 krónur. Börn á aldrinum 6-11 ára sem gista í herbergi með fullorðnum greiða hálft gjald, en börn undir 6 ára aldri gista ókeypis. Þeir sem vilja leigja sér sumarhús geta valið um ýmsa möguleika. Sex manna hús eru í boði á 32.500, 36.000 og 39.000 krónur á viku og fjögurra manna sumarhús kosta frá 19.000 krónum á viku og allt upp í 34.000 á viku. Eftir 15. ágúst og fram til 15. september eru sumarhúsin ódýrari og kostar sex manna hús þá frá 29.000 krónum og upp í 35.000 krónur hver vika, en fjögurra manna húsin 18.000 til 30.500 krónur. Leiga sængurvera kostar 600 krónur á mann. Víða eru bændur með hestaleigu og skipuleggja allt frá klukkustundar reið og upp í 14 daga ferðir. Klukkustundar reiðtúr kostar 1.350 krónur, með leiðsögumanni. Börn í fylgd með fullorðnum greiða hálft gjald. Ferðalangar, sem hafa hug á að gista hjá bændum. ættu að verða sér úti um bækling Ferðaþjónustu bænda, því þar eru allir gistimöguleikar tíundaðir, myndir af bæjunum, sýnt á korti hvar á landinu þeir eru og fleiri gagnlegar upplýsingar. FLÓRAN Í FRÍINU Í MIÐRI höfuðborginni er lystigarður, Grasagarður Reykjavíkur, þar sem gestir geta skoðað 3500 jurtir á 2,5 hektara svæði. Þrátt fyrir að margir viti af garðinum og komi þangað oft, þá eru ýmsir sem ekki gera sér grein fyrir hvað leynist á bak við myndarleg trén í Laugardalnum. Gestir í Reykjavík og höfuðbúarborgar sjálfir ættu að gefa sér tíma til að líta þar við. Þeim frídegi væri vel varið og að auki er Grasagarðurinn við hliðina á Fjölskyldu- og húsdýragarðinum, tjaldstæði borgarinnar, Laugardalslauginni og öðrum íþróttamannvirkjum. Grasagarðurinn var stofnaður á 175 ára afmæli Reykjavíkurborgar árið 1961 og er rekinn af borginni. Í garðinum er að finna sérstakt horn, þar sem flóra Íslands er kynnt. Þar eru nú 300-350 tegundir af þeim u.þ.b. 485 háplöntum, sem teljast til íslensku flórunnar. Plöntunum er að mestu raðað eftir ættum, sem gefur tækifæri til að bera saman náskyldar tegundir og skoða muninn á þeim. Allar plöntur í garðinum eru merktar íslensku og latnesku tegunda- og ættaheiti og getið heimkynna þeirra. Erlendar, fjölærar jurtir setja mikinn svip á garðinn og eru um 1500 talsins. Þá geta gestir rölt um garðskála og skoðað þær jurtir sem þola ekki íslenskan vetur. Gestirnir sjálfir geta snætt nesti í skálanum eða keypt sér kaffibolla. Skammt undan eru uppeldisreitir", þar sem plöntum er skýlt fyrir frosti og næðingi fyrstu árin. Arboretum kallast yngsti hluti garðsins, en það er latneskt heiti á svæði sem ætlað er undir trjásafn. Með tíð og tíma geta gestir því rölt þar um og skoðað ólíkar trjátegundir. Loks má svo nefna, að í Grasagarðinum eru tvö listaverk. Annað þeirra er styttan Sköpun eftir Helga Gíslason, en hitt verkið var sett upp á síðasta ári og stendur í miðjum garðinum og er það vatnslistaverkið Fyssa eftir Rúrí. Grasagarðurinn er opinn frá kl. 8-22 virka daga og frá kl. 10-22 um helgar.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.