Tryggvi Þórhallsson - ALDARMINNING Bók hans um Gissurar biskup og siðaskiptin að koma út Texti: Elín Pálmadóttir Í dag er minnst aldarafmælis Tryggva Þórhallssonar, sem á stuttri ævi var sóknarprestur, ritstjóri, alþingismaður, forsætisráðherra og...

Tryggvi Þórhallsson - ALDARMINNING Bók hans um Gissurar biskup og siðaskiptin að koma út Texti: Elín Pálmadóttir Í dag er minnst aldarafmælis Tryggva Þórhallssonar, sem á stuttri ævi var sóknarprestur, ritstjóri, alþingismaður, forsætisráðherra og bankastjóri og fleira. M.a. var hann forsætisráðherra Íslands á Alþingishátíðinni 1930. Ekki hefur til þessa verið litið á hann sem sagnfræðing, en ástæða er til að ætla að hann hafi ekki síður átt heima í starfi fræðimanns en í stjórnmálum. Þess ber m.a. merki rit sem kemur þessa dagana, en í tilefni aldarafmælis hans hafa börn hans sjö efnt til útgáfu á samkeppnis ritgerð hans í kirkjusögu frá 1917 með heitinu Aðdragandi og upptök siðaskiptanna á Íslandi, afstaða Gissurar biskups Einarssonar til kaþólsku biskupanna Ögmundar og Jóns annarsvegar og konungsvaldsins hinsvegar, og viðgangur hins nýja siðar á dögum Gissurar biskups". Ritgerðin var samin á afdrifaríkum tímamótum í lífi Tryggva Þórhallssonar, þegar hann hlaut ekki dósentsstöðuna við H.Í. og hvarf í kjölfarið af markaðri braut prestsskapar og fræðimennsku og gerðist ritstjóri og stjórnmálamaður.

Tryggvi var fæddur 9. febrúar 1889. Hann var sonur Þórhalls biskups Bjarnarsonar frá Laufási við Eyjafjörð, kominn af merkum prestum og búendum í Suður- og Norður-Þingeyjarsýslu. Móðir Tryggva var Valgerður Jónsdóttir Halldórssonar frá Bjarnastöðum í Bárðardal. Faðir hennar drukknaði í Fnjóská aðeins 33 ára og var yngsta dóttirin, Valgerður, sett í fóstur til Tryggva Gunnarssonar og Halldóru Þorsteinsdóttur að Hallgilsstöðum í Fnjóskadal. Tryggvi tók stúdentspróf 1908 og sigldi sama haust til Kaupmannahafnar til náms í eitt ár, en guðfræðipróf tók hann við Háskóla Íslands 1912. Heim kominn varð hann biskupsritari og kennari við Miðbæjarskólann. Tryggvi vígðist til Hestþinga í Borgarfirði 1913 og í september sama ár kvæntist hann Önnu Guðrúnu Klemensdóttur, dóttur Klemensar Jónssonar, þá landritara. Þau bjuggu á Hesti til 1916 og þar fæddust tvö elstu börn þeirra, Klemens og Valgerður.

Þá lá leiðin á ný til Reykjavíkur. Anna Klemensdóttir sagði síðar svo frá í blaðaviðtali:Tengdafaðir minn Þórhallur biskup andaðist 16. desember 1916. Laufás var þá bújörð í útjaðri Reykjavíkur. Gert hafði verið ráð fyrir að Björn mágur minn tæki við búinu, en hann andaðist í Noregi við búfræðinám í júlí 1916. Því skipaðist svo til að Tryggvi tæki við. Um kvöldið 15. desember hringdi Tryggvi til mín, en hann hafði farið suður áður vegna veikinda föður síns. Sagði hann mér að koma suður með börnin tvö daginn eftir, en þá var ferð suður frá Borgarnesi. Við fórum frá Hesti kl. 4 um morguninn niður að Hvanneyri til að hafa samfylgd með Halldóri og Svövu ásamt yngstu dóttur þeirra og farið var á sleðum í Borgarnes. Hest sé ég ekki aftur fyrren 50 árum síðar. Jón Helgason tekur við biskupsembætti að tengdaföður mínum látnum og losnar þá staða Jóns við guðfræðideild Háskólans. Var Tryggvi þá settur dósent í guðfræði og kenndi til vors. Þá var dósentsstaðan auglýst."

Var ákveðið að fram færi samkeppnispróf um dósentsembættið. Í ritinu Úr Sögu Háskóla Íslands segir dr. Guðni Jónsson að fyrsta sam keppnisprófið skv. reglugerð frá 1912 hafi verið háð 1917 um dós entsembætti í guðfræði. Það þreyttu auk Tryggva, sem var settur dósent, Magnús Jónsson þá prestur á Ísafirði, síðar alþingismaður og ráðherra, og séra Ásmundur Guðmundsson, þá sóknarprestur í Stykkishólmi og varð seinna biskup. Í dómnefnd voru Jón Helgason, biskup, Björn Magnússon Ólsen, háskólarektor og Jón Jónsson Aðils prófessor í sögu við Háskólann. Umsækjendur höfðu aðeins þrjá mánuði til að skrifa ritgerð um tiltekið efni. Hálfum mánuði eftir að hafa skilað henni skyldu þeir flytja tvo fyrirlestra um tiltekið efni úr fræðum Nýja testamentis. Þeir luku allir prófinu og voru taldir hæfir til embættisins, en Magnús þó framast. Mælti deildin með honum og var honum veitt embættið. Ekki var sú veiting þó óumdeild, því að ýmsir töldu að Tryggvi Þórhallsson hefði verið órétti beittur," segir dr. Guðni Jónsson. Lét dómnefndin þess sérstaklega getið að ritgerð Tryggva bæri vott um einkar góða sagnaritara hæfileika. En sú ritgerð kemur nú fyrst fyrir augu almennings á 100 ára fæðingardegi Tryggva og verður komið að henni síðar. Óhætt er að segja að íslenska kirkjan hafi þar misst af miklum starfsmanni og góðum, því Tryggvi þótti hafa allt til að bera til að verða fræðimaður og kennari, eins og hann hafði hug á, án þess að dregið sé úr hæfileikum hans á öðrum sviðum. Þetta urðu Tryggva vonbrigði. Hann hafði sagt upp prestsembættinu um vorið og stóð nú uppi atvinnulaus með 3 börn.

Forsætisráðherra í blíðu

og stríðu

Tryggvi hafði snemma skipað sér undir merki Ungmennafélags Íslands og stóð með öðrum að útgáfu Skinfaxa. Árið 1917 var ár mikilla umskipta í þjóðmálum og var leitað til Tryggva um að gerast ritstjóri Tímans, málgagns Framsóknarflokksins. Vinur þeirra hjóna, Guðbrandur Magnússon, sem þá var einhleypur og bjó í Laufási, hafði þá hrint blaðinu af stað. Tryggvi tók boðinu og var Tíminn fyrstu árin unninn í Laufási. Var Tryggvi ritstjóri blaðsins í 10 ár. Hann varð fljótlega annar aðalforingi Framsóknarflokksins, þingmaður Strandamanna 1923 og sá maður, sem ásamt Jónasi Jónssyni, tryggðu öðrum fremur yfirburðasigur Framsóknarflokksins í Alþingiskosningunum árið 1927. Var Tryggvi þá orðinn foringi flokksins og myndaði fyrstu ríkisstjórn Framsóknarflokksins, er sat að völdum 19271932. Tímabilið frá 1927 til 1930 var hér mikið framfaraskeið á fyrrihluta aldarinnar. Tryggvi var atvinnumálaráðherra, auk þess að vera forsætisráðherra, en því fylgdi að fara með utanríkismál. Jónas Jónsson var dóms- og kirkjumálaráðherra og fór líka með kennslumál fram til 1931 og aftur ráðherra um haustið til 1932.

Frægt er þingrofið það ár, er Tryggvi efndi til sem forsætisráðherra, er þjarmað var að stjórninni þegar hlutleysi Alþýðuflokksins hafði verið dregið til baka vegna kjördæmamálsins. Flestum var ljóst að kosningalög og kjördæmaskipan voru með miklum annmörkum, enda þéttbýli vaxandi á Íslandi. Tryggvi hafði lagt fram frumvarp um stjórnarskrárbreytingu, sem flokkarnir voru sammála um nema hvað Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn vildu bæta við fleiri breytingum, einkum að þingmönnum Reykjavíkur yrði fjölgað um meira en helming. Rökstuddu það með því að þeir vildu jafna atkvæðin og fluttu alþýðuflokksmenn um það breytingartillögu. En framsóknarmennirnir vildu ekki rýra hlut sveitanna. Þarmeð hætti Alþýðuflokkurinn stuðningi við ríkisstjórn Tryggva og hugðist greiða atkvæði vantrausti frá Sjálfstæðisflokki. Átti umræðan að fara fram 14. apríl. Blasti þá við í fyrsta skipti að Alþingi viki ríksstjórn frá með beinni atkvæðagreiðslu. En í upphafi kvaddi Tryggvi Þórhallsson sér hljóðs utan dagskrár og tilkynnti þingrof og kosningar 12. júní. Hélt hann svo heim í Tjarnargötu 32, en mannfjöldi fylgdi á eftir. Hófst þá hin fræga þingrofsvika. Mannsöfnuður gerði aðsúg að húsinu áhverju kvöldi. Var heimilið umsetið og mörg óþvegin orð látin fjúka. Lögregluvörður var um húsið dag og nótt og börnin gátu ekki sótt skóla vegna aðkasts frá börnum og kennurum. Þótt Tryggvi hljóti að hafa haft áhyggjur af heimili sínu og mörgum börnum og væri heilsuveill, lét hann engan bilbug á sér finna. Var efnt til kosninga sumarið 1931 og í þeim hlaut Framsóknarflokkurinn þann mesta stuðning sem hann hefur nokkurn tíma fengið eða 35% atkvæða og meirihluta á Alþingi, sem þó nýttist ekki tilað koma fjárlögum gegn um Alþingi. Þetta dugði því ekki til áframhaldandi stjórnarsetu Framsóknarflokksins og fór stjórn Tryggva frá vorið 1932. Sjálfur féll hann í sögulegum kosningum fyrir Hermanni Jónassyni í Strandasýslu 1934. Þá hafði hann 1933, eftir sundurlyndi í flokki hans, gengið út og stofnað Bændaflokkinn og var formaður hans.

Alþingishátíðarárið 1930 var Tryggvi Þórhallsson forsætisráðherra og hefur forustu hans og forsjá lengi verið við brugðið, þótt að sjálfsögðu nyti hann góðra samstarfsmanna. Ekki er hér rúm til eða þörf á að rifja upp þessa einstæðu þjóðhátíð, sem haldin var með reisn. Var m.a. boðið heim góðum gestum, þar á meðal Kristjáni konungi Danmerkur og Alexandrínu drottningu. Öll risna ríkisstjórnarinnar fór fram í Ráðherrbú staðnum, heimili Tryggva og Önnu, og þar bar að hafa konungshjónin og aðra tigna gesti til hádegisverðar daginn sem þeir komu, þar sem allt var útbúið þar í eldhúsinu undir stjórn húsfreyjunnar. Einnig 400 manna boð síðdegis, auk þess sem forsætisráðherrahjónin voru gestgjafar annan dag hátíðarinnar á Þingvöllum. Var hátíðin öll með miklum glæsibrag.

Vegna mikilla ferðalaga á þeim árum sem hann stóð í stjórnmálabaráttunni hafði Tryggvi misst heilsuna. Anna kona hans segir frá því í fyrrnefndu viðtali að hann hafi veikst í hinni löngu og ströngu kosningaferð, m.a. á hestum, vorið 1927 af þeim sjúkdómi sem leiddi hann til dauða 8 árum síðar, og tóku sig upp stöðugar þarmablæð ingar. Við þeim sjúkdómi stóðu læknar ráðþrota. Honum var ráðlagt sérstakt mataræði. Öll þau 8 ár sem hann átti ólifuð neytti hann alltaf sömu fæðunnar, tvisvar á dag grjónavellings og soðins fisks án kartaflna, soðins vatns með mjólk og tvíböku á morgnana og sama með sandkökusneið síðdegis. Í opinberum veislum sat hann með tóman disk og brá aldrei út af. Segir Anna hvarfla að sér hvort þetta hafi ekki bara gert illt verra og dregið úr þreki hans. En aldrei orðaði hann veikindi sín né þá miklu byrði sem þeim fylgdi. Og sýnir það kannski betur en margt annað kjark og óbilandi andlegt þrek Tryggva Þórhallssonar. Þegar hann lést 46 árað aldri var Tryggvi bankastjóri Búnaðarbankans, hafði tekið við því starfi 1932.

Heimilið í Laufási

Anna Guðrún, kona Tryggva, dó árið 1987 í hárri elli, 96 ára. Börn þeirra voru sjö, á aldrinum 8 til 21 árs er hann lést. Þau lifa öll, nú flest komin um eða yfir sjötugt. Áður er getið Klemensar, fyrrv. hagstofustjóra og Valgerðar, er var auglýsingastjóri Ríkisútvarpsins og skrifstofustjóri Þjóðleikhússins. Þau búa í Laufási í Reykjavík, þarsem Þórhallur afi þeirra hóf búskap sinn árið 1896. Hin börnin eru Þórhallur, fyrrv. bankastjóri Búnaðarbankans, Agnar er var framkvæmdastjóri búvörudeildar Sambandsins, Þorbjörg er sá um og stjórnaði fjölritunarstofu um árabil, Björn aðstoðarbankastjóri Seðlabankans og Anna Guðrún kennari.

Allt frá því Tryggvi og Anna fluttu til Reykjavíkur aftur 1916 bjuggu þau í Laufási nema árin sem hann var ráðherra. Við stjórnarskiptin 1932 varð Ásgeir Ásgeirsson forsætisráðherra og þau Dóra fluttu í ráðherrabústaðinn en Tryggvi og Anna fengu allt húsið í Laufási. Áður höfðu báðar fjölskyldurnar búið þar í 10 ár saman og ólust börnin uppi og niðri upp eins og systkini. Anna segir í fyrrnefndu viðtali:Tryggvi var frábær heimilisfaðir. Lét sér mjög annt um heimili og börn sín, sinnti þeim eins mikið og tími hans leyfði. Spilaði við þau, fór í leiki með þeim, og ósjaldan jafnvel daglega lék hann á píanóið og lét þau syngja. Þá orti hann um þau - og börn Dóru systur sinnar, sem einnig er fædd og uppalin í Laufási - vísur og heila bragi og var þetta sungið við kunna lagaboða í tíma og ótíma. Þetta voru vísur um ýmis daglega atvik og nú syngja barnabörnin þessar vísur. Hallgrímur Helgason tengdasonur minn raddsetti fyrir fáum árum þessar barnagælur, og þær voru fjölritaðar." Áhrifanna frá ungmennafélagskapnum gætti víða og vitanlega arfur frá heimili Tryggva og uppruna. Tryggvi var trúr þeirri stefnu ungmennfélag anna að neyta aldrei áfengis og aldrei kom áfengi inn á heimilið. Forsætisráðherra hafði risnu fyrir ríkisstjórnina og Tryggvi veitti aldrei áfengi í veislum, heldur ekki þeim sem hann hélt fyrir ríkistjórnina á Alþíngishátíðinni 1930.

Siðaskiptin og ritgerð Tryggva

Laufássystkinin standa nú í tilefni 100 ára afmælis Tryggva Þórhallssonar öll að útgáfu vandaðrar 300 síðna bókar með mörgum myndum. Er þar komið sagnfræði verk frá stjórnmálamanni, sem hefur haft til að bera mikla hæfileika sem fræðimaður og sagnfræðingur. Hefur elsti bróðirinn Klemens stjórnað starfinu og unnið við það upp undir ár, og systkinin annast prófarkalestur og fleira. Ritið fjallar sem fyrr segir um aðdraganda og upptök siðaskiptanna á Íslandi og afstöðu Gissurar biskups Einarssonar til katólsku biskupanna Ögmundar og Jóns annars vegar og til konungsvaldsins hins vegar.

Vorið 1917 voru liðin 400 ár frá því að Lúter hóf baráttu sína og ritaði grein gegn páfakirkju og með því að festa mótmæli sín í 95 liðum á hurð hallarkirkjunnar í Witten berg í Þýzkalandi. Voru siðaskiptin á Íslandi því valin sem efni sam keppnisritgerðar Tryggva, Magnúsar Jónssonar og Ásmundar Guðmundssonar við H.Í. það ár, svo sem fyrr er sagt.

Tryggvi mun hafa gengið að þessari ritgerð m.a. með því hugarfari að rétta hlut Gissurar Einarssonar, Skálholtsbiskups, en á hann hefur verið hallað m.a. fyrir að hafa svikið velgerðarmann sinn Ögmund Pálsson, er var síðasti biskup í Skálholti í katólskum sið. Ritgerð Tryggva er fyrst og fremst sagnfræði, mjög fróðleg um eitt áhugaverðasta skeið Íslandssögunnar. Gagnstætt því sem var t.d. í Þýskalandi, að samfara siðaskiptum var þar mikil andleg endurreisn í bókmenntum og listum samfara valdabaráttu, þá er það skoðun Tryggva að það hafi fyrst og fremst verið valdabarátta og ágangur konungsvalds, sem var kveikjan að siðaskiptunum á Íslandi. Ályktar Tryggvi að hvergi örli á andlegri vakningu eða framförum í fræðslumálum hér á landi, sem undanfara og ástæðu siðaskiptanna. Hann bendir á, að margt hafi verið líkt með siðaskiptunum og kristnitökunni á Íslandi, að umskiptunum hafi verið vægilega framfylgt af vitrum mönnum. Annað hafi verið uppi á teningnum í Noregi, þar sem þeim fylgdu mikil átök og umrót. Líf og starf Gissurar Einarssonar er Tryggva greinilega mjög hugleikið. Þá eru áhugaverð samskipti við þýsku kirkjuna á þessu tímabili. Vekur mikla athygli hve ítarlegar heimildir eru til um þetta tímabil, sem Tryggvi styðst við og dregur ályktanir af til að skýra miklu nánar aðstæður hér heima og erlendis við siðaskiptin.

Tryggvi Þórhallsson, forsætisráðherra og Kristján konungur X á þjóðhátíðinni á Þingvöllum 1930

Ríkisstjórnin 1930, forsætisráðherrann Tryggvi Þórhallsson í miðið, til vinstri Jónas Jónsson frá Hriflu, dóms-, kirkju- og kennslumálaráðherra og til hægri fjármálaráðherrann Einar Árnason frá Eyrarlandi.

Forsætisráðherrahjónin Anna Klemensdóttir og Tryggvi Þórhallsson ganga niður Steinbryggjuna 1930 til að taka á móti dönsku konungshjónunum.