ÁHEYRENDUR á öllum aldri nutu tónleika Davids Bowies í Laugardalshöllinni í gærkvöldi. Bowie lék mörg lög af nýjustu plötu sinni, Outside, við góðar undirtektir en áheyrendur fögnuðu þó sérstaklega eldri lögum hans sem þekktari eru.
Poppsöngvaranum David Bowie vel fagnað á tónleikum Troðfull Laugardalshöll

ÁHEYRENDUR á öllum aldri nutu tónleika Davids Bowies í Laugardalshöllinni í gærkvöldi. Bowie lék mörg lög af nýjustu plötu sinni, Outside, við góðar undirtektir en áheyrendur fögnuðu þó sérstaklega eldri lögum hans sem þekktari eru. Bowie steig á svið í silfurlitum frakka rétt um klukkan níu eftir að hljómsveit hans hafði leikið inngangsstef af Outside og ætlaði allt vitlaust að verða meðal áheyrenda þegar hann tók lagið. Hann flutti síðan þrjú af sínum þekktustu lögum, Look Back in Anger, Scary Monsters og Diamond Dogs. Að því loknu bauð hann íslenska áheyrendur velkomna og lýsti ánægju sinni með að vera á Íslandi. Þá tóku við tvö lög af Outside, Heart's Filthy Lesson og titillagið. Meðan upphafstónar þess voru leiknir svipti Bowie sig frakkanum og í ljós komu svört skyrta og leðurbuxur.

Lítil umgjörð einkenndi sviðsbúnað Bowies en áherslan var á ljósadýrð. Píanóleikur Mikes Garsons setti svip sinn á tónlistina en að öðru leyti var hljóðfæraleikur jafn. Allir stóðu upp og klöppuðu Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út þegar Bowie tók lagið Under Pressure, sem hann gerði frægt ásamt Freddie Mercury og hljómsveitinni Queen, og í kjölfar þess eitt frægasta lag sitt, Heros. Þá reis fólk úr sætum og hver einasti maður klappaði. Að laginu loknu sagði hann að tónleikarnir hefðu verið frábærir og hvarf af sviðinu. Eftir kröftugt uppklapp kom Bowie á sviðið ásamt hljómsveit sinni og léku þeir nokkur lög, þ.á m. White Lights, White Heat, sem hljómsveitin Velvet Underground gerði frægt. Eftir þrjú lög yfirgaf hann sviðið og ljósin í salnum voru kveikt. Þrátt fyrir mikið klapp fékkst hann ekki aftur á sviðið.

Húsið var troðfullt og þurftu margir að sitja frammi. Áheyrendur voru á öllum aldri. Þriggja ára hnáta var til dæmis með afa sínum og ömmu á tónleikunum. Að þeim loknum streymdi fólk út og myndaðist mikið umferðaröngþveiti í Laugardalnum.

Morgunblaðið/Golli