Þurfum að sýna börnum að söfn geti verið skemmtileg ­ segir Bryndís Sverrisdóttir, safnkennari við Þjóðminjasafn Íslands "ÁHUGI grunnskólakennara og nemenda þeirra á safnkennslunni í Þjóðminjasafninu eykst stöðugt.

Þurfum að sýna börnum að söfn geti verið skemmtileg ­ segir Bryndís Sverrisdóttir, safnkennari við Þjóðminjasafn Íslands "ÁHUGI grunnskólakennara og nemenda þeirra á safnkennslunni í Þjóðminjasafninu eykst stöðugt. Skólaárið 1987-1988 komu hingað rúmlega sex þúsund nemendur, skoðuðu safnið og leystu úr verkefnum tengdum ýmsum munum þess. Ég hef orðið vör við að börn, sem koma á safnið á vegum skólanna, koma oft aftur til að skoða meira. Þar með er einu aðalmarkmiði safnkennslunnar náð, að gera börnum ljóst að söfn geti verið skemmtileg," sagði Bryndís Sverrisdóttir, safnkennari við Þjóðminjasafn Íslands.

Bryndís er önnur af tveimur safn kennurum í fullu starfi hér á landi. Hún var ráðin til starfans af menntamálaráðuneytinu árið 1983, en hefur starfað við Þjóðminjasafnið frá hausti 1986. Bryndís hefur lokið fil.kand. prófi frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð í þjóðhátta- og fornleifafræði og las auk þess uppeldis- og kennslufræði þar. "Við horf til barna sem safngesta hefur breyst mikið undanfarin ár," sagði hún. "Börnin þóttu ekki alltaf æskilegir gestir því safnverðir óttuðust að þau skemmdu hluti. Uppátæki eins og heimsóknir jólasveinanna fyrir síðustu jól hefði verið óhugsandi í Þjóðminjasafninu fyrir nokkrum árum. Með safnkennslunni hefur jarðvegurinn fyrir slíkt verið undirbúinn. Við viljum sýna börnunum að þau eru velkomin hvenærsem þau vilja og kenna þeim að umgangast safngripi af virðingu og læra að meta menningararf okkar."

Bryndís sendir grunnskólum landsins bréf tvisvar á skólaárinu og gerir þar grein fyrir þeim verkefnum, sem í boði eru fyrir bekkjardeildir, er heimsækja vilja safnið. "Þessi verkefni eru unnin út frá sýningarmunum og oft tengd námsefni barnanna," sagði hún. "Þannig get ég nefnt sem dæmi, að fjórði bekkur grunnskóla lærir um Landnám Íslands. Því hef ég útbúið sérstakt verkefni fyrir þann aldurshóp. Börnin koma á safnið, skoða muni frá landnámstíð og leysa síðan verkefnið, sem felst í spurningum um það sem fyrir augu ber á safninu. Með þessu móti tekst að vekja áhuga barnanna á safnmunum og vonandi verður námsefni þeirra um Landnám Íslands meira lifandi fyrir vikið. Þá eru einnig útbúin verkefni vegna ýmissa sérsýninga, svo sem Víkingasýningarinnar sem nú stendur."

Safnið til fólksins

Bryndís sagði að landsbyggðar börn ættu yfirleitt ekki kost á þvíað skoða forngripi frá landsnámsöld. "Það væri full þörf á því að útbúa góða farandsýningu um land námstímann, með textaspjöldum, myndum, forngripum eða eftirlíkingum af þeim, og myndbandi, sem færi milli byggðasafna eða skóla," sagði hún. "Það væri til dæmis mögulegt að útbúa nokkrar eins farandsýningar og setja þær í aðalsöfnin á hverju svæði. Þaðan gætu sýningarnar farið á milli annarra safna og skóla svæðisins."

Bryndís kvaðst hafa kynnt sér safnkennslu í nágrannalöndunum. "Ég hef fengið ýmsar hugmyndir þaðan, til dæmis frá danska þjóðminjasafninu. Að þess fyrirmynd sýndum við brúðuleikhús fyrir yngstu börnin í Þjóðminjasafninu síðastliðið haust. Bryndís Gunnarsdóttir, kennari og leikbrúðukona, gerði stuttan skuggabrúðuþátt í samvinnu við mig. Eftir leikþáttinn unnu börnin verkefni um ýmsa safngripi, sem kynntir voru í þættinum. Þetta tókst mjög vel og vonandi verður framhald á. Það er hinsvegar undir fjárveitingum komið."

Bryndís kvaðst vilja láta gera myndband af brúðuþættinum, svo hægt væri að nota hann til sýninga í skólum á landsbyggðinni. "Á þann hátt getur fólk nálgast safnið, eða öllu heldur safnið komið til fólksins," sagði Bryndís. "Önnur tilraun í þá átt er safnkassi um ull og tóvinnu, sem ég útbjó nýlega. Þennan kassa geta kennarar fengið lánaðan fyrir bekki sína."

Í kassanum, sem Bryndís minntist á, kennir margra grasa. Þar eru 16 snældur, 4 pör af kömbum, ull, plötulopi, 4 völur og 4 leggir. Þetta mega nemendur nota að vild. Þá fylgir með hefti um ull og tóvinnu, þar sem útskýrt er hvernig áhöld þessi voru notuð. Að auki eru gamlir safnmunir, svo sem prjónastokk ur, nálhús, leppar, vettlingar og spjaldofið band. "Þessi kassi ætti að geta komið að notum í kennslu á ýmsum grunnskólastigum, í samfélagsfræði, mynd- og handmennt, eða jafnvel íslensku," sagði Bryndís. "Vinna með innihald hans gæti til dæmis skýrt orðtök tengd tóvinnu, svo sem "að teygja lopann", "að hafa eitthvað á prjónunum", "að vera stuttur í spuna", að kemba hærurnar" og svo má lengi telja."

Enn er safnkassinn um ull og tóvinnu sá eini sinnar tegundar á Þjóðminjasafninu, en Bryndís hefur hug á að útbúa fleiri. "Ef kennarar og nemendur sýna áhuga á þessum kassa væri hugsanlegt að útbúa annan, til dæmis með ýmsum leikföngum barna áður fyrr og útskýra jafnframt hvernig þau voru notuð."

Óþrjótandi verkefni

Bryndís sagði að verkefnin í safn kennslunni væru óþrjótandi. "Það er hægt að gera margt skemmtilegt, en peningarnir eru af skornum skammti. Húsnæði safnsins og sýningar takmarka líka það sem hægt er að gera hér og það er erfitt að gera sýningarnar lifandi, eins og þær eru núna. Ég er í starfshópi safnsins, sem vinnur að gerð nýrra sýninga og það er mjög gott að fá að vera með frá upphafi til að geta séð til þess að sýningarnar verði nothæfar í kennslu. Það væri líka æskilegt að kennarar væru með í ráðum um sýningarnar og það hvernig þær megi best gagnast skólunum."

Bryndís sagði að kennarar hefðu hingað til lítið gert af því að stinga upp á verkefnum í safninu. "Kenn arar virðast yfirleitt ánægðir með það sem í boði er, en reyna lítið að hafa áhrif á það," sagði hún. "Ég vona að breyting verði á með nýjum þjóðminjalögum, en frumvarp til þeirra var lagt fram á Alþingi í desember síðastliðnum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Bandalag kennarafélaga eigi fulltrúa í Þjóðminjaráði. Þá er einnig kveðið á um að safnið, og raunar öll minjasöfn, skuli kynnt nemendum skóla í samráði við fræðsluyfirvöld. Það væri vissulega mjög jákvætt og ánægjulegt ef aukin samvinna kæmist á," sagði Bryndís Sverrisdóttir, safnkennari.

Morgunblaðið/Emilía

Bryndís Sverrisdóttir, safnkennari, við safnkassa um ull og tóvinnu, sem kennarar geta fengið lánaðan hjá Þjóðminjasafninu og notað við kennslu.

Morgunblaðið/Emilía

Áhugasöm skólabörn leysa verkefni í Þjóðminjasafninu.