Blaðamaður ákærður fyrir meiðyrði RÍKISSAKSÓKNARI hefur gefið út ákæru gegn Halli Magnússyni blaðamanni Tímans fyrir ærumeiðandi ummæli í garð séra Þóris Stephensen dómkirkjuprests og staðarhaldara í Viðey í grein sem Hallur ritaði undir nafni í Tímann...

Blaðamaður ákærður fyrir meiðyrði

RÍKISSAKSÓKNARI hefur gefið út ákæru gegn Halli Magnússyni blaðamanni Tímans fyrir ærumeiðandi ummæli í garð séra Þóris Stephensen dómkirkjuprests og staðarhaldara í Viðey í grein sem Hallur ritaði undir nafni í Tímann síðastliðið sumar.

Ákæran hefur verið dómtekin í Sakadómi Reykjavíkur. Krafist er refsingar á grundvelli 108. greinar almennra hegningarlaga, þar sem kveðið er á um allt að þriggja ára fangelsi yfir þeim sem hefur í frammi skammaryrði, aðrar móðganir í orðum eða athöfnum eða ærumeiðandi aðdróttanir við opinberan starfsmann, þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu, eða við hann eða um hann út af því. Einnig er þess krafist í málinu að ákveðin ummæli í grein blaðamannsins verði dæmd ómerk og að hann verði dæmdur til greiðslu bóta og sakarkostnaðar.