Kynningarfundur um Þjóðbókasafn: Eigum eignarskattsaukann inni til að flytja inn í árslok 1992 segir Svavar Gestsson menntamálaráðherra "ÞÓTT ÞEIR fjármunir sem innheimtir voru með sérstökum eignaskattsauka vegna þessarar byggingar hafi ekki allir farið í...

Kynningarfundur um Þjóðbókasafn: Eigum eignarskattsaukann inni til að flytja inn í árslok 1992 segir Svavar Gestsson menntamálaráðherra "ÞÓTT ÞEIR fjármunir sem innheimtir voru með sérstökum eignaskattsauka vegna þessarar byggingar hafi ekki allir farið í hana á undanförnum árum, þá lítum við í menntamálaráðuneytinu þannig á að við eigum þá inni, til þessarar byggingar," sagði Svavar Gestsson menntamálaráðherra í ávarpi á kynningarfundi sem haldinn var á föstudaginn um Þjóðbókasafn í Þjóðarbókhlöðunni.

Svavar rifjaði upp aðdraganda byggingarinnar allt aftur til ársins 1957, þegar Gylfi Þ. Gíslason þáverandi menntamálaráðherra skipaði nefnd um sameiningu Háskólabókasafns og Landsbókasafns. 14 árum síðar samþykkti Borgarráð Reykjavíkur lóð undir byggingu Þjóðarbókhlöðunnar sem hýsa á safnið. Það var síðan fyrir forgöngu Sverris Hermannssonar menntamálaráðherra, að ákvörðun var tekin um sérstakan eignaskatt sem renna skyldi til byggingarinnar. "Það má segja að sú ákvörðun hafi í raun og veru hleypt þessum verkum af stað af nokkrum myndarskap á nýjan leik," sagði Svavar.

Hann vék síðan að inneign vegna eignaskattsins. "Við erum út af fyrir sig reiðubúin til þess að ræða við fjármálaráðuneytið um hvernig hagað verður vaxtatöku af þessari inneign okkar og í samræmi við vaxtastefnu ríkisstjórnarinnar munum við ekki hafa miklar kröfur uppi í þeim efnum, en við teljum það ljóst að þessir fjármunir eru þarna, til þessara framkvæmda." Svavar sagði síðan að í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar sé kveðið á um að byggingu Þjóðarbókhlöðunnar verði lokið í árslok 1992.

Í samtali við Morgunblaðið sagði Svavar að vissulega ætlaði hannað beita sér fyrir því að við þetta ákvæði verði staðið og að hann tryði því að Þjóðbókasafn gæti tekið til starfa í Þjóðarbókhlöðunni á tilsettum tíma.

Páll Skúlason prófessor sagði í ávarpi við upphaf fundarins að nú væri orðið tímabært að "menn beini huganum að þessu mikilvæga starfi sem hér á að verða"

Sveinbjörn Björnsson prófessor flutti erindi um viðreisn Háskólabókasafns. Hann sagði það ekki hafa getað þjónað hlutverki sínu um skeið vegna fátæktar og húsnæðisskorts. Bragarbót var á því gerð í maí 1986, þegar samþykkt var í Háskólaráði að beina auknum fjármunum til safnsins. "Það eru ekki aðeins háskólanemar sem þurfa að nota safnið, heldur einnig starfandi háskólamenn í atvinnulífinu, sem þurfa á endurmenntun aðhalda," sagði Sveinbjörn.

Fundurinn var haldinn á vegum stjórnar Háskólabókasafns í samvinnu við Landsbókasafn og byggingarnefnd Þjóðarbókhlöðu. Til fundarins var meðal annarra boðið Menntamálaráðherra, forsetum Alþingis, formönnum og varaformönnum fjárveitinga- og mennta málanefnda Alþingis, rektor Háskólans, auk fréttamanna.