Deilur afganskra frelsishreyfinga: Háttsettur skæruliðaforingi ræðst á stjórnmálaleiðtogana Segir þá hugsa meira um eigin frama en hagsmuni landsmanna Peshawar. Islamabad. Kabúl. Reuter.

Deilur afganskra frelsishreyfinga: Háttsettur skæruliðaforingi ræðst á stjórnmálaleiðtogana Segir þá hugsa meira um eigin frama en hagsmuni landsmanna Peshawar. Islamabad. Kabúl. Reuter.

EINN af helstu foringjum afganskra skæruliða á vígvellinum, Abdul Haq, segir að þjáningar landsmanna geti dregist enn á langinn vegna deilna stjórnmálaleiðtoga hinna ýmsu hreyfinga er barist hafa gegn Sovétmönnum og Kabúlstjórninni. Sakar hann þá um eigin hagsmunasýki og gefur í skyn að foringjar á vígvellinum muni taka málin í sínar hendur ef pólitísku leiðtogunum takist ekki að komast að niðurstöðu á sérstakri ráðstefnu hreyfinganna, shura.

Ætlunin er að halda ráðstefnuna í Peshawar í Pakistan. Vegna deilna um fjölda fulltrúa hverrar hreyfingar á ráðstefnunni hefur henni verið frestað og óvíst hvenær fundir geta hafist. Opinber talsmaður ráðstefnunnar, Abdurrab Rasul Sayyaf, sem er úr hópi bókstafstrúarmanna, sagði í gær að ráðstefnan myndi hefjast í dag, þriðjudag, en fulltrúar hófsamra hreyfinga efuðu á hinn bóginn að sú tímaáætlun stæðist. Markmiðið með ráðstefnunni erm.a. að koma á laggirnar bráðabirgðastjórn er taki við völdum í Afganistan.

Að sögn Haqs gætu skæruliðar tekið Kabúl á nokkrum vikum ef hreyfingarnar ná samkomulagi en ella gæti Kabúlstjórnin varist mánuðum saman. Hann sagði í viðtali við fréttamenn Reuters-fréttastof unnar að foringjar skæruliða á vígvellinum hefðu unnið sitt verkog sigrað óvinina og nú væri komið að stjórnmálaleiðtogunum að ljúka sínum störfum. "Vandamálið með stjórnmálamenn er að þeir eru alltaf önnum kafnir við að auðga sjálfa sig og stuðla að eigin frægð og frama," sagði Haq, sem hefur 15 sinnum særst í viðureignum sínum við sovéska herliðið er nú er á förum úr landinu. "Eftir svo mikla bardaga og fórnir getum við herforingjar ekki setið í makindum og horft á meðan þjóðinni blæðir út vegna þess að stjórnmálamenn geta ekki náð samkomulagi," bætti hann við.

Haq sagðist ekki vilja gera allsherjarárás á Kabúl. Þess í stað vildi hann bíða eftir því að stjórnin hryndi af sjálfu sér. Allsherjarárás myndi hafa blóðbað í för með sér og skæruliðar hefðu barist til að frelsa fólk en ekki drepa það. Sjálfur hefur Haq unnið að því að skipuleggja starf óbreyttra borgara í Kabúl og sagðist hann vilja treysta öryggi borgarinnar "innan frá" með slíkum samtökum borgara er tækju við þegar leppstjórn Najibullah hryndi.

Fréttaritari Ritzau-fréttastof unnar hefur eftir heimildarmönnum í Kabúl að fjölskyldur efnaðra stuðningsmanna Kabúlstjórnarinn ar hafi þegar verið fluttar til borgarinnar Mazar-i Sharif. Hún er höfuðstaður í auðugasta héraði landsins, Balkh, og um 60 km frá sovésku landamærunum. Orðrómur hefur verið á kreiki um að leppstjórn Najibullah hyggist gefa Kabúl upp á bátinn og reyna að koma sér upp óvinnandi vígi í Mazar-iSharif en stjórnvöld hafa vísað öllu slíku tali á bug. Kabúlstjórnin hefur lengi haft töglin og hagldirnar á þessum slóðum. Í borginni er fátt um hermenn og stríðstól sjaldséð. Hermenn þar segjast ekki muna hvenær þeir síðast börðust við skæruliða. Herstöðvar, m.a. herflugvöllur, eru þó við borgina og skammt sunnan við hana er vitað um skæruliðaflokka. Einn hermannanna segir móður sína fara með langferðabíl einu sinni í viku suður á bóginn til að heimsækja annan son sinn sem berst með skæruliðum.

Reuter

Afganskar konur fyrir utan skóla í Kabúl þar sem Hjálparstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) dreifði matvælum í gær. Mikill skortur er á matvælum í borginni og eldsneytisskortur hefur einnig reynst mörgum þungur í skauti þar sem óvenju kalt hefur verið á þessum slóðum.