Bjórinn höfðar mest til yngra fólksins MEIRIHLUTI aðspurðra í Gallupkönnun, 61,7 prósent, gera ráðfyrir að neyta bjórs eftir 1. mars næstkomandi, er bjór verður lögleg söluvara í útsölum ÁTVR. Yngri svarendur eru áhugasamari um bjórinn en hinir eldri.

Bjórinn höfðar mest til yngra fólksins

MEIRIHLUTI aðspurðra í Gallupkönnun, 61,7 prósent, gera ráðfyrir að neyta bjórs eftir 1. mars næstkomandi, er bjór verður lögleg söluvara í útsölum ÁTVR. Yngri svarendur eru áhugasamari um bjórinn en hinir eldri. 33,9 prósent svarenda ætla sér ekki að drekka bjór, en 4,4 prósent eru óákveðin.

Ef litið er nánar á aldurshópa skiptinguna, þá eru það hin 25 til 34 ára sem ætla sér mesta bjórneyslu, en alls svöruðu 69,5 prósent úr þeirra hópi spurningunni játandi, en 67,3 prósent 35 til 44 ára ætla sér að drekka bjór. Í 15 til 24 ára hópnum eru væntanlegir bjórneytendur 61,6 prósent. Það er ekki fyrr en komið er í elsta flokkinn, 60 ára og eldri, að hlutföllin breytast, þar ætla 36,1 prósent að drekka bjór, en 54,2 prósent ekki.

Karlar virðast spenntari fyrir bjórnum en konur, 69,9 prósent karla ætla að drekka bjór, en 54 prósent aðspurðra kvenna. Bjórinn nýtur mestrar hylli á höfuðborgarsvæðinu, en þar ætla 65,5 prósent að neyta hans samkvæmt könnuninni, en til samanburðar má nefna, að í dreifbýlinu ætla 54,2 prósent að neyta bjórs. Er fólk var spurt um það magn sem það reiknaði með að drekka taldi 51 prósent eina til tvær dósir á viku líklega, en óvissuhópurinn var í öðru sæti, 31,5 prósent töldu sig ekki geta svarað með vissu. Aðeins 4,1 prósent reiknuðu með því að drekka 7 dósir eða fleiri í viku hverri.