Ungt fólk og könnun á neyslu áfengis: Margir vitni að akstri eða áflogum ölvaðra FIMMTI hver svarandi á aldrinum 15 til 24 ára í Gallup-könnun á ölvunarhegðun Íslendinga var einu sinni eða oftar í bíl með ökumanni undir áhrifum áfengis á síðustu tólf...

Ungt fólk og könnun á neyslu áfengis: Margir vitni að akstri eða áflogum ölvaðra

FIMMTI hver svarandi á aldrinum 15 til 24 ára í Gallup-könnun á ölvunarhegðun Íslendinga var einu sinni eða oftar í bíl með ökumanni undir áhrifum áfengis á síðustu tólf mánuðum. Rúmlega helmingur umræddra ökumanna var innan 25 ára aldurs og alls 78,2 prósent þeirra voru 35 ára eða yngri. Gallup-könnunin var gerð fyrir Heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið og nefnd um átak í áfengisvörnum. Mikið var einnig um að aðspurðir hefðu orðið vitni að ryskingum eða áflogum sem rekja mátti beint til áfengisneyslu.

Spurningunni um hvort menn hefðu orðið vitni að slagsmálum sem tengdust áfengisneyslu beint svöruðu alls 26,2 prósent aðspurðra játandi, en 72,9 prósent neituðu. 0,9 prósent voru óvissir. Lítill munur er á kynjum í þessu sambandi, svo og búsetu, en mikill munur var þó í aldursflokkadreifingunni. Á aldrinum 15 til 24 ára höfðu 51,8 prósent orðið vitni að slagsmálum af nefndu tagi og innan 25 til 34 ára aldurshópsins höfðu 26,4 prósent til viðbótar orðið vitni að þess lags áflogum. Síðan stigminnkar talan, en þó höfðu 21,1 prósent 35 til 44 ára ástæðu til að svara játandi.

Sjá ennfremur bls. 18.