Bretland: Aðgerðir vegna sýkinga í matvælum St. Andrews. Frá Guðmundi Heiðari Frímannssyni, fréttaritara Morgunblaðsins. FYRIRHUGAÐ er að setja ný lög til að koma í veg fyrir mengun í matvælum.

Bretland: Aðgerðir vegna sýkinga í matvælum St. Andrews. Frá Guðmundi Heiðari Frímannssyni, fréttaritara Morgunblaðsins.

FYRIRHUGAÐ er að setja ný lög til að koma í veg fyrir mengun í matvælum. Stjórnvöld hafa varað barnshafandi konur við að borða mjúka osta vegna baktería, sem fundist hafa í þeim.

Í síðustu viku kom út opinber skýrsla, sem áætlaði, að salmonellusýkingar í Bretlandi á ári hverju væru um tvær milljónir. Eftir það var ljóst, að yfirvöld yrðu að grípa til ráðstafana til að draga úr ótta almennings vegna sýkinga í matvælum.

Á laugardag var gefin út viðvörun vegna hættu á, að svokölluð listeríu baktería væri í mjúkum ostum einsog brie-, camenbert- og mygluostum. Hún getur valdið fósturláti hjá þunguðum konum. Sérstaklega er mikil hætta á, að bakterían leynist í þessari gerð osta, séu þeir unnir úr ógerilsneyddri mjólk. Gefið var í skyn, að bannað yrði að selja og vinna úr ógerilsneyddri mjólk, en það var síðan dregið til baka.

Margir ráðherrar telja nú, að þær staðhæfingar Edwinu Currie, fyrrum heilbrigðisráðherra, í desembermánuði, að mest af eggjaframleiðslunni í Bretlandi væri sýkt af salmonellu, hafi reynst á rökum reistar og viðvaranir hennar verið réttmætar.

Frakkar hafa brugðist hart við þessum yfirlýsingum, vegna þess að þeir óttast, að þær komið niður á sölu á frönskum ostum í Bretlandi. Á hverju ári selja Frakkar um 16.800 lestir af mjúkum osti í Bretlandi. Hann er unninn úr ógerilsneyddri mjólk. Þeir telja enga hættu stafa af þessum ostum. John MacGregor ráðfærði sig við franskan starfsbróður sinn um þetta mál á fundi í Br¨ussel í gær.

Reuter