Réttarhöldin yfir Oliver North: Málamiðlun í deilum saksóknara og stjórnar Hulunni verður ekki lyft af viðkvæmum ríkisleyndarmálum Washington. Reuter.

Réttarhöldin yfir Oliver North: Málamiðlun í deilum saksóknara og stjórnar Hulunni verður ekki lyft af viðkvæmum ríkisleyndarmálum Washington. Reuter.

SÉRSTAKUR saksóknari í Íran-kontramálinu og fulltrúar Bandaríkjastjórnar hafa náð samkomulagi um meðhöndlun ákveðinna ríkisleyndarmála sem stjórnin vill ekki að verði rædd opinberlega í réttarhöldunum gegn Oliver North, fyrrum starfsmanni Þjóðaröryggisráðs Bandaríkjaforsta. Telur stjórn George Bush að slík umræða geti ógnað öryggi ríkisins en lögfræðingar Norths hafa krafist aðgangs að umfangsmiklum upplýsingum til að færa sönnur á að North hafi hagað sér í samræmi við óskir æðstu yfirboðara sinna, þ. á m. Ronalds Reagans, fyrrum forseta, og George Bush, þáverandi varaforseta.

William Rehnquist, forseti hæstaréttar Bandaríkjanna, frestaði um hríð réttarhöldunum gegn North meðan hæstiréttur kannaði kröfur ríkisstjórnarinnar.

Ekki hefur verið skýrt frá samkomulagi sérstaks saksóknara í málinu, Lawrence Walsh, og ríkisstjórnarinnar í smáatriðum. Talið er að þar sé að verulegu leyti komið til móts við óskir dómsmálaráðuneytisins og leyniþjónustunnar þess efnis að ekki verði skyndilega létt hulunni af ýmsum viðkvæmum leyndarmálum. Ónefndir heimildarmenn töldu hins vegar ólíklegt að Gerhard Gesell, dómari í málinu, myndi fallast á samkomulag deiluaðilanna en hann hefur margoft sagt að réttur Norths til að verja sig sé æðri áhyggjum leyniþjónustunnar vegna mögulegra uppljóstrana.

Reuter

Oliver North