Myrkir músíkdagar Tónlist Jón Ásgeirsson Fyrir nokkrum árum stofnaði Tónskáldafélag Íslands undir forustu Atla Heimis Sveinssonar til tónlistarhátíðar á þorra og nefndi tiltækið Myrka músíkdaga.

Myrkir músíkdagar Tónlist Jón Ásgeirsson Fyrir nokkrum árum stofnaði Tónskáldafélag Íslands undir forustu Atla Heimis Sveinssonar til tónlistarhátíðar á þorra og nefndi tiltækið Myrka músíkdaga. Þetta þótti takast hið besta og hefur æ síðan verið á starfsdagskrá félagsins, þó misjafnlega hafi tekist til, aðallega vegna fjárskorts. Núverandi formaður TÍ, Hjálmar H. Ragnarsson, hefur nú hafið merki músikdaganna á loft, með 6 tónleikaröð og voru þeir fyrstu haldnir í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar. Þar voru flutt fjögur verk, sem ekki hafa heyrst hér álandi en öll samin að tilhlutan norrænu tónlistarskólanna og flutt í Gautaborg fyrir nærri tveimur árum.

Tvö verkanna eru samin fyrir einsöng með sellóundirleik og voru flytjendur Signý Sæmundsdóttir og Inga Rós Ingólfsdóttir. Fyrra verkið Psychomachia eftir Þorstein Hauksson er samið við texta eftir miðaldaskáldið Prud entius. Þar sem tónferlið er hægferðugt falla selló og söngrödd nokkuð vel saman en er æsist leikurinn vantar röddina meiri hljóm stuðning, og t.d. í átakaköflunum mætti vel hugsa sér að jafnvel hljómsveit hæfði betur en eitt selló. Verkið er á köflum mjög lagrænt og fyrsti kaflinn sérstaklega fallegur.

Seinna verkið fyrir söngrödd og selló, er eftir Önnu Jastrzebska, sem er pólsk en búsett í Noregi. Verkið nefnist "Úr undirdjúpunum" en í kvæðinu, eftir Ásu-Maríu Nesse, er fjallað um hróp þess sem vill ganga uppréttur sem manneskja, þrátt fyrir hæðilega einsemd og ábyrgð, sem hverjum er gert að bera og eiga sér þó enga aðra endastöð en biðina eftir dauðanum. Þetta er grá kaldur texti og miskunnarlaus en því miður var hann of mikið tættur til að skila sér og tónverkið ekki það áhugavert að það bætti upp tætingslegar endurtekningar. Flutningurinn var í heild þokkalegur og söngur Signýjar á köflum glæsilega útfærður.

Kristinn Sigmundsson og Guðríður S. Sigurðardóttir fluttu tvö verk, en það fyrra er eftir Valdimir Agopov, rússneskt tónskáld er starfar í Finnlandi. Verkið nefnist Stund fórnarinnar og er helgað minningunni um Andrej Tarkovskí. Textinn er eftir Edith Södergran og Arsenij Tarkovskí (föður Andrejs) og tengist bæði formrænt og í texta, starfi þessa sérstæða kvikmyndaskálds. Verkið er ágætlega samið en þó, einsog svo mörg nútímaverk, er túlkun textans ofgert. Hér er hann þó ekki slitinn úr samhengi.

Seinna verkið er eftir Karólínu Eiríksdóttur við Ljóðnámuland eftir Sigurð Pálsson. Í verkinu má víða heyra fallegt samspil píanós og söngraddar, en þar sem texti Sigurðar er mikið byggður á tilvísandi stakorðum, eins konar upphrópunum, verður söngmálið á köflum nokkuð slitrótt, bæði hvað varðar tónstöðu og hendingaskipan. Kristinn söng bæði verkin á sannfærandi máta. Eftir tektar verðast á þessum tónleikum var þó fallega mótaður undirleikur Guðríðar S. Sigurðardóttur. Hér er á ferðinni góður samleiks maður fyrir sólista og í kammertónlist og ekki síður sem einleikari, svo sem dæmt verður af þeim fáu tækifærum sem hún hefur þegar fengið til að sanna sig sem einleikara.