Ólöf Sæunn Magnúsdóttir Það er sársaukafullt að setjast niður og skrifa kveðjuorð til ungrar stúlku, sem hrifin er á brott fyrirvaralaust. Manni finnst þetta svo miskunnarlaust. Allir eru harmi slegnir. Minningarnar leita fram. Fyrir um 35 árum kynntist ég móður hennar, Einínu Einarsdóttur og fjölskyldu hennar, er þau fluttu í næsta hús. Mikill samgangur var á milli heimila okkar. Lífið og tilveran gekk hratt fyrir sig í leik og starfi.

Ung að árum kynntist Einína skólabróður mínum, miklum gæðadreng, Magnúsi Jónssyni. Þau gengu í hjónaband og eignuðust 4 börn.

Fyrst fæddist lítil perla þann 26. nóvember 1966 og hlaut hún nöfnin Ólöf Sæunn, voru það nöfn móðurömmu hennar og langömmu í móðurætt. Ólöf litla var sannkölluð prinsessa, bráðfalleg og yndislegt barn, enda voru þau stolt Magnús og Einína er þau sýndu okkur hana. Næst kom önnur prinsessa tveim árum seinna eða 1968. Hún hlaut nafnið Brynhildur Rósa. Síðan fæddist Helena 1972 og þá sagðiMagnús stoltur að nú ætti hann fjórar fallegar prinsessur, að þetta væri eins og í kvennabúri, það hefðu það ekki allir svona gott. En 1978 fæddist litli prinsinn Magnús og var hann þeim mikill gleðigjafi. Örlögin höguðu því þannig að við Einína og Magnús urðum nágrannar aftur 1975. Mikill samgangur var á milli heimilanna og fylgdumst við meðbörnunum vaxa og þroskast, okkar börn og þeirra börn urðu vinir. Magnús byggði fallegt heimili yfir sína fjölskyldu, ekkert var of gott fyrir þau. En lífið gekk ekki eins og í sögu þar sem endirinn er jákvæður. Einína vinkona mín er búin að ganga í gegnum miklar hörmungar. Fyrst missir hún pabba sinn, Einar Pétursson, langt um aldur fram, nokkrum árum seinna mömmu sína, Guðbjörgu Sæunni, mjög snögglega. En þá komu Rósa og Jón, foreldrar Magnúsar, og breiddu sig yfir hana, mikið gæða fólk. En þetta var ekki búið. Jón tengdafaðir hennar lést snögglega fyrir nokkrum árum, og svo Magnús fyrir rúmum þremur árum eftir erfið veikindi, sem allir vonuðu að þegar rofaði til eftir erfiðar aðgerðir að hann hefði betur, en sú varð ekki raunun. Hann var aðeins 38 ára er hann lést. Þetta var mikið áfall fyrir Einínu og börnin, en þau stóðu saman sem einn.

Ólöf Sæunn, þessi yndislega stúlka, lærði hárgreiðslu. Henni sóttist námið vel, enda erft dugnaðinn og kraftinn frá fjölskyldu beggja.

Hún var mjög þroskuð strax sem barn, og þegar maður talaði við hana var hún alltaf svo jákvæð gagnvart öllu og öllum, alltaf stutt í brosið og hlýjuna frá henni. Húnvar móður sinni mikill styrkur í veikindum pabba síns, systkinum sínum góð systir. Eftir allt sem á þau hafði verið lagt í gegnum árin, skyldi lífið ganga áfram. Móðirhennar studdi hana í námi og starfi. Hún var hamingjusöm ung stúlka, komin með meistarabréf í hárgreiðslu. Hún ákvað að opna sína eigin stofu, reyndar svolítið nervus, en það var óþarfi. Viðskiptavinirnir fylgdu henni eftir á nýja staðinn og nýir komu í hópinn. Stofan Hjá Ólöfu var komin til að vera. Ég hafði alltaf svolítið gaman af þvíað sonur minn elsti var ekki á þvíað hleypa hverjum sem er í hárið á sér, Ólöf var vinur hans, og ég þóttist nú vita þegar hann kom heim hver hafði farið í gegnum hárið hans. Svo ég sagði: Svaka ert þú fínn, hvar varst þú? Ja, ég kom við hjá henni Ólöfu. Eins var með dótturina, hún var að fara í perm anett og enginn gat sett það í eins vel og Ólöf. Því var þannig farið með Ólöfu að hún vann traust allra.

Um jólin trúlofaðist hún Kidda sínum, elskulegum dreng, mikil var hamingjan, allt svo spennandi, þau voru að fá lánsloforðið og næsta viðfangsefni var að fara að spá í íbúð. Hún geislaði af hamingju yfirþví hvað allt virtist ætla að rætast hjá þeim unga parinu.

Hún fór út með vinkonu sinni og skólafélaga sem hún hafði ekki hitt í nokkurn tíma. Það var farið til að gleðjast yfir öllu þessu.

En skjótt skipast veður í lofti.

Næsta morgun er þessi fallega stúlka öll. Þetta er okkur öllum sem stöndum eftir óskiljanlegt, spurningar hrannast upp, hún var allra manna hraustust, aldrei kennt sér meins. Svo gefur hjartað sig, þvílíkt reiðarslag sem lagt er á eina fjölskyldu. Maður situr eftir reiður og dapur, og spyr sjálfan sig af hverju hún sem var svo full af orku og gleði, tilbúin að takast á við lífið með Kidda sínum.

En manni verður svarafátt. Mikill harmur er nú kveðinn að unnust anum unga, móðursystkinum, ættingjum og vinum, allar framtíðarvonir ungrar stúlku brostnar, þvílíkt reiðarslag. Kæru vinir mínir, við endum þessa kveðju með orðum Spámannsins:

Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá aftur hug þinn, og þú munt sjá, að þú grætur vegna þess, sem var gleði þín.

Við vitum að Ólöf fær góða heimkomu að handan, þeir verða margir sem taka á móti henni.

Elsku Einína, Kiddi, Binna, Helena, Magnús og fjölskylda, megi góður Guð blessa ykkur minningu um góða stúlku.

Ragnheiður Matthíasdóttir og fjölskylda