Áróra S. Ásgeirsdóttir Áróra Ásgeirsdóttir lést í svefni á heimili sínu í Hveragerði aðfaranótt sunnudags 5. febrúar. Ég kynntist Áróru er hún var barn með foreldrum sínum, ömmu sinni og móðursystur, verðandi eiginkonu minni, á Þórsgötu 17.

Áróra var prýðilega greind kona, listræn og ýmsum öðrum kostum búin. Hún hafði gott og frumlegt skopskyn. Hlátur hennar var bjartur og smitandi. Þegar aðstæður leyfðu var oft glaðværð í hennar ranni. Hún var um margt óvenjuleg, nokkuð einþykk.

Á lífsferli manna eru oft brim og boðar. Vegurinn er ekki einn, hinn rétti og sjálfsagði. Lækurinn á sér eðlilegan farveg. Þar sem fyrirstaðan er minnst, er hans rétti vegur, en fyrir manninn liggja vegir til allra átta, en ýmsar ástæður ráða, er maður tekur stefnu, öðrum duldar.

Það var gott að koma á heimili þeirra hjóna, Áróru og Helga Grétars í Hveragerði, þar sem þaubjuggu ásamt dóttur hennar, Þórhildi. Fjölskylda mín kveður nú Áróru og við horfum til himins með Helga, börnum hennar og nánum aðstandendum.

Bros Áróru blífur þrátt fyrir allt.

Guðmundur W. Vilhjálmsson