Ólöf Sæunn Magnúsdóttir Ólöf Sæunn Magnúsdóttir, vinkona okkar, er dáin. Skyndilega og fyrirvaralaust hefur hún lagt upp í ferðina miklu yfir landamæri lífs og dauða. Stundum eru staðreyndir lífsins okkur óskiljanlegar. Þá er það líka ómetanlegt að eiga dýrmætar minningar um góðan vin.

Spurningar um tilgang lífsins, almættið og tilvist okkar mannanna leita oft á hugann í hinu daglega lífi. Oftar en ekki verður fátt um svör. Sjaldan verða þó spurningar af þessu tagi áleitnari eða svörin fátæklegri en þegar ungt fólk í blóma lífsins er frá okkur tekið með skyndilegum og óútskýranlegum hætti. Við spyrjum okkur í sífellu hvers vegna? En við vitum það jafnframt, að við erum aðeins fær um að spyrja og að svör þekkjum við engin.

Okkur er það einfaldlega um megn að skilja tilganginn eða réttlætið sem í því getur falist að vinkona okkar, ung stúlka full af lífskrafti og lífsgleði, skuli þurfaað hlíta hinu hinsta kalli svona fljótt, svona alltof fljótt.

Í Víðistaðaskóla lágu fyrst saman leiðir okkar Ólafar Sæunnar. Þar deildum við saman lífi og leik, námi og umróti æskuára. Þar áttum við saman bæði súrar og sætar samverustundir, spunnum saman þráð lífs og vona, nutum þess að veratil og dreyma framtíðardrauma. Þá myndaðist sú samkennd og þau vináttutengsl sem enst hafa okkur allt fram á þennan dag. Þessi vinahópur sem þarna myndaðist hefur verið góður og traustur, hverju okkar ómetanlega mikils virði. Og Ólöf Sæunn var ein af okkur, ein af þessum góða, glaða og trausta vinahópi.

Fregnin um andlát Ólafar var þvísem reiðarslag fyrir okkur vinkonurnar. Ein úr hópnum var skyndilega horfin á braut og skildi eftir skarð sem aldrei verður fyllt. Ein myndin eftir aðra kemur í hugann, minningarnar lifa, lýsa og verma, þegar tilveran er svo erfið, dimm og köld. Við vinkonurnar höfum ætíð haldið góðu sambandi og hist reglulega, þótt samverustundunum hafi í seinni tíð farið fækkandi.

Við minnumst þess er við vorum saman síðastliðið gamlárskvöld, hversu lífið var þá bjart, hversu stundin var þá hlý og notaleg. Efst er okkur þó í huga hversu glöð og hamingjusöm Ólöf var þetta kvöld. Hún hafði þá nýlega opnað hárgreiðslustofu á Seltjarnarnesi, sem hún rak sjálf. Hún var snjöll hárgreiðslukona og fann sig vel í sínu starfi. Stofan fór því vel af stað og virtist lofa góðu. Þá var ekki síður hitt hamingju- og gleðigjafi, að hún og unnusti hennar Kiddi, voru nýbúin að opinbera trúlofun sína og lífið og framtíðin virtist brosa við þeim.

En skjótt skipast veður í lofti. Maðurinn með ljáinn hefur gengið um garð og Ólöf er ekki lengur á meðal okkar. Við munum hana Ólöfu eins og hún var, ákveðin og lífsglöð, bjartsýn en þó raunsæ, dugleg og einbeitt. Hún var ætíð hress og stefndi markvisst að þvísem hún ætlaði sér.

Dugnaðurinn var henni drjúgt veganesti og við vinkonurnar höfðum margt af henni að læra. Við fundum það oft, að hún var á margan hátt þroskaðri en við, lífsreynd ari kannski, og það var gott að eiga hana að. Hún hafði svo margt að gefa öðrum.

Ólöf varð fyrir þeirri sáru lífsreynsluu að missa föður sinnfyrir þremur árum. Þá sást kannski best hvað í henni bjó, kjarkur hennar, þrek og hjartahlýja, ásamt hæfileikanum til að gefa öðrum styrk og yl. Hún var svo stór og svo sönn í sorg sinni. Slíkt gleymist ekki samferðafólkinu. Slíkar minningar vekja trú á lífið og hamingjuna.

Nú skilja leiðir. Við kveðjum með þessum orðum vinkonu okkar, þökkum henni fyrir allt sem við áttum saman hér í þessu lífi og óskum henni góðrar ferðar yfir í eilífðina.

Við samhryggjumst móður hennar og systkinum, unnusta hennar, vinum og vandamönnum. Við sendum þeim okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum þess að góður Guð styrki þau í sinni miklu sorg.

Hanna Birna, Unnur,

Benedikta og Berglind.