Áróra S. Ásgeirsdóttir hjúkrunarfræðingur Fregnin barst okkur snemma á sunnudagsmorgni 5. þ.m. Hollsystir okkar Áróra Sjöfn Ásgeirsdóttir varð bráðkvödd þá um nóttina. Margar minningar hrannast upp þegar horft er til baka til skólaáranna. Það var glaðlegur hópur sem hittist í fyrsta sinn í Hjúkrunarskóla Íslands sólríkan ágústdag 1960. Við vorum allar ungar og óöruggar, en þá strax kom í ljós sá eiginleiki, sem fylgdi Áróru alla tíð. Hún laðaði fólk að sér með sinni glaðlegu framkomu og frískleika.

Árin í Hjúkrunarskólanum voru skemmtileg og eftirminnileg. Þó svoað heimavistin væri lokuð náði hópurinn vel saman og okkur leiddist aldrei því margt var þar brallað, og átti Áróra ekki síst þátt í því.

Í hjúkrunarstarfinu nutu sín vel eiginleikar hennar, glaðlyndi og hlýleiki einkenndu viðmót hennar gagnvart sjúklingum og samstarfsfólki.

Lengst af starfaði Áróra á Landspítalanum, en einnig á öðrum sjúkrahúsum, þ. á m. nokkur ár í Danmörku.

Allan nematímann og æ síðan voru foreldrar Áróru, þau Lára og Ásgeir, sérstaklega elskuleg viðokkur og hafa fylgst með hópnum fram á þennan dag. Mikill vinskapur myndaðist milli Áróru og einnar úr hópnum, Elísabetar, sem var utan af landi og leiddi hann til þessað hún varð sem ein af fjölskyldunni í Ásgarði.

Við gleymum aldrei útskriftar boðinu, sem Guðmundur og Lilly, móðursystir Áróru, héldu okkur að námi loknu.

Við söknum góðrar vinkonu og sendum ásamt fjölskyldum okkar innilegar samúðarkveðjur til Helga, barnanna, Láru, Ásgeirs og annarra ástvina.

Hollsystur