28. júní 1996 | Minningargreinar | 295 orð

Jónas Þórarinn Ásgeirsson

Jónas Þórarinn Ásgeirsson Jónas Ásgeirsson var einn úr hópi vaskra skíðamanna frá Siglufirði, sem settu mest mark sitt á skíðaíþróttina í upphafi. Árið 1938 fer nafn Jónasar að birtast í afreksskrá skíðamanna, en það ár vinnur hann til verðlauna bæði í svigi og skíðastökki, en Jónas var afar fjölhæfur íþróttamaður.

Árið 1939 vinnur Jónas í fyrsta sinn hinn svokallaða "skíðakóngstitil", sem var æðsta tign skíðakeppenda þess tíma. Þennan titil vann Jónas oftast allra, þar til hann hætti keppni. Jónas var einn af keppendum Íslands á fyrstu vetrarólympíuleikum sem Íslendingar tóku þátt í, árið 1948 í St. Moritz. Árið áður keppti Jónas í skíðastökki á Holmenkollen í Noregi, ásamt félaga sínum Jóni Þorsteinssyni frá Siglufirði. Þetta var frumraun íslenskra skíðamanna í keppni á erlendri grund.

Siglufjörður fyrirstríðsára var þekktastur fyrir síld og frækna skíðamenn. Jónas tók þátt í hvorutveggja.

Lengstan tíma ævi sinnar starfaði Jónas við verslun og sölustörf. Hann rak verslun á Siglufirði árum saman, við góðan orðstír. Jónas hóf störf hjá Ford-umboðinu Sveini Egilssyni sem sölumaður bifreiða árið 1969. Sölumennska var í blóðinu hjá Jónasi. Þeir sem með honum störfuðu og ekki síst viðskiptavinir kunnu að meta þá gleði og þann anda er fylgdi með í kaupunum. Það var engin lognmolla í kringum Jónas. Hversdagsleg viðskipti urðu að stórkostlegum vangaveltum um lausn heimsmálanna.

Allir viðskiptavinir Jónasar fundu fyrir hjálpsemi hans og góðum vilja en leiðarljós hans var að allir skildu hafa sitt, og fyrir það var hann reiðubúinn að leggja allt í sölurnar. Það leiddist engum í návist Jónasar. Hann var frábær sögumaður með leiftrandi sýn, er gat komið öllum til að kætast. Hinn venjulegi viðskiptamaður fékk venjulega lausn lífsgátunnar í kaupbæti.

Að leiðarlokum þakka ég 20 ára samstarf sem aldrei féll skuggi á og um leið votta ég eftirlifandi ástvinum innilegustu samúð.

Þórir Jónsson.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.