Ólöf Sæunn Magnúsdóttir Svo leggur þú á höfin blá og breið á burt frá mér og óskalöndum þínum, og stjarna hver, sem lýsir þína leið, er lítill gneisti, er hrökk af strengjum mínum. Þú skilur eftir minningar hjá mér um marga gleðistund frá liðnum árum,

og alltaf mun ég fagna og þjást með þér,

og þú skalt vera mín í söng og tárum.

(D. Stef.)

Þetta fallega ljóð kemur fram í hugann í dag er við kveðjum hana Ólöfu í hinsta sinn.

Það er stundum sagt að gleðin og sorgin séu systur sem verða að dveljast hjá okkur á víxl.

Sorgin, þessi undarlega tilfinning sem særir svo djúpu sári og skilur eftir svo mikið tóm, knýr fram svo margar spurningar, sem aldrei verður svarað. Nú er það aðeins guð og tíminn, þessi líðandi stund sem kemur og fer, sem hellir huggun í sorgarsárin.

Ólöf var heitbundin syni okkar, og bróður, Kristjáni Magnússyni, og þegar hún fluttist inn á heimili okkar fundum við strax fyrir þeirri birtu og þeim hlýhug sem fylgdi henni.

Hún var ekki aðeins glæsileg að ytra útliti, heldur hafði hún einstakt innræti. Þar fór saman einstök kurteisi, ástúð og umhyggja og heiðarleiki.

Þessir mannkostir hennar gerðu það að verkum að hún ávann sér hylli og tryggð allra sem hún kynnist í starfi svo og í leik.

Þó svo að æviár hennar yrðu ekki mörg, hafði hún þó áorkað mörgu með samviskusemi og dugnaði.

Hún hafði lokið námi í hárgreiðslu og starfaði við iðn sína.

Ólöf var sérstæður persónuleiki og þegar hún hafð hlotið meistararéttindi í iðn sinni stofnsetti hún eigin hárgreiðslustofu sl. haust, sem bar nafn hennar og stóð á Seltjarnarnesi.

Ólöf og Kiddi áttu sér draum. Hugur þeirra stefndi á að eignast sína eigin íbúð, og það var ánægjulegt að fylgjast með skynsamlegum áætlunum þeirra.

Það var mikið gleðiefni fyrir okkur sem stóðum þeim næst að taka eftir hversu samrýnd þau voru, og virtu hvort annað mikils. Í þessusambandi þeirra fór saman ást og umhyggja sem var til fyrirmyndar.

Ólöf hafði sjálf kynnst sorginni fyrir fáum árum, því ástríkur faðir hennar, Magnús Jónsson byggingarmeistari, andaðist eftir erfiða sjúkdómslegu 2. október 1985.

Á fermingardaginn valdi Ólöf sér gimstein úr Ritningunni: "Ég er ljós heimsins, hver sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkrinu, heldur hafa ljós lífsins."

Guð gefi að það ljós megi lýsa henni veginn til að öðlast föðurlega umhyggju handan við móðuna miklu.

Hennar elskulegu móður Einínu Einarsdóttur, systrunum Brynhildi og Helenu, Magnúsi bróður hennar, svo og Kristjáni syni okkar og bróður og öðrum ástvinum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur. Þá eru og kveðjur frá ömmu Njálu og ömmu Lóu.

Að lokum þökkum við Ólöfu fyrir þau djúpu og fögru spor sem hún skilur eftir í hjörtum okkar og hug.

Blessuð sé minning hennar.

Stefán Hjaltested og Margrét Pálsdóttir, Ragnar, Arnar, Lísa Björg og Stefanía.