Ólöf Ágústa Jónsdóttir Og skín ei ljúfast ævi þeirri yfir, sem ung á morgni lífsins staðar nemur, og eilíflega, óháð því, sem kemur, í æsku sinnar tignu fegurð lifir. (Tómas Guðmundsson) Síðdegis miðvikudaginn 8. febrúar sl. barst mér sú harmafregn að tilvonandi tengdadóttir mín, Ólöf Ágústa Jónsdóttir, hefði látist af slysförum. Ég tek fráfall hennar nær mér, en orð fá lýst, enda var hún mér einkar kær. Það eru 7 ár síðan ég kynntist Ólöfu fyrst, en þá tókust kynni með henni og syni mínum Jóni Geir. Hún kom sem sólargeisli inn í fjölskyldu mína enda var hún bæði ljúflynd og skemmtileg. Ólöf var harðdugleg og vinnusöm. Hún var ávallt boðin og búin að hjálpa til þegar á þurfti að halda, enda vinsæl og vinamörg. Ólöf var gjafmild og hafði yndi af því að gleðja aðra og alltaf skyldi hún muna eftir afmælisdögum í fjölskyldunni. Hún var syni mínum afar góður félagi í lífinu, lífsförunautur sem gaf fögur fyrirheit um bjarta framtíð. Fyrir utan þá ást og vináttu sem hún ætíð sýndi stóð hún líka fast við bakið á honum í öllum góðum verkum og hafði djúp og jákvæð áhrif á hann. Missirinn við fráfall Ólafar er því mikill fyrir Jón Geir og okkur öll og bið ég góðan Guð að gefa okkur styrk tilþess að standast þessa miklu þolraun.

Nú þegar ég kveð Ólöfu mína hinstu kveðju vil ég þakka henni af alhug alla þá góðvild og tryggð, sem hún sýndi mér og fjölskyldu minni. Minningin um góða stúlku mun lifa í hjörtum okkar um alla framtíð og verða okkur hvatning til betra og fegurra mannlífs. Þannig var Ólöf sjálf. Elsku Hildur, Jón Þór og fjölskylda ég bið góðan Guð að veita ykkur styrk í þungbærri sorg.

Guð blessi minningu Ólafar Ágústu.

Jóna Þorgeirsdóttir