Ólöf Ágústa Jónsdóttir - Minning Fædd 5. nóvember 1968 Dáin 8. febrúar 1989. Kallið er komið, komin er nú stundin, vinaskilnaðar viðkvæm stund. Vinirnir kveðja vininn sinn látna, er sefur hér hinn síðasta blund.

Margs er að minnast,

margt er að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Ástkær vinkona okkar, Ólöf, er dáin. Fyrstu viðbrögðin voru reiði og vantrú. Sú sorg sem við finnum til verður seint tjáð með orðum eða söknuðurinn eftir brosinu hennar og glaðlyndri framkomu. Allar þekktum við Ólöfu frá barnæsku og höfum því margs að minnast. En fyrsta minningin er þegar yngsti bróðir hennar fæddist og hún bauð okkur stolt heim til að sýna okkur nýja meðliminn í fjölskyldunni.

Í gagnfræðaskóla héldum við alltaf hópinn. Stundum tvær og tvær, stundum þrjár og þrjár saman. En alltaf töluðum við um okkur sex vinkonurnar.

Á þessum árum kynntist Ólöf unnusta sínum. Þau tengdust sterkum böndum og hafa átt margar og góðar samverustundir.

Þegar gagnfræðaskólanum lauk fóru sumar af okkur í skóla og aðrar út á vinnumarkaðinn. Ólöf fór í Verslunarskóla Íslands og síðar í Fjölbrautaskólann í Garðabæ þarsem hún stefndi að stúdentsprófi í vor. Hún kynnist nýju fólki, eignaðist aðra vini, en aldrei rauf hún sambandið við okkur. Oft hittumst við um helgar til að skrafa saman og skemmta okkur eða hringdum og spurðumst frétta. Alltaf varhægt að leita huggunar hjá Ólöfu og hún hafði sérstakt lag á því að dreifa huga manns ef eitthvað varað.

Samband Ólafar og móður hennar var aðdáunarvert. Þær voru ekki síðri vinkonur en móðir og dóttir. Þetta mátti vel sjá af því hversu óvenjulega fullorðinsleg Ólöf var. Allar hennar athafnir einkenndust af raunsæi og skynsemi og hún lokaði aldrei augunum fyrir raunveruleikanum eins og svo mörgum hættir til að gera. En þetta kom ekki í veg fyrir sterka kímnigáfu, lífsgleði og hæfileika til að sjá björtu hliðarnar á lífinu.

Á undanförnum mánuðum styrktist samband okkar stallsystranna og þróaðist í það sem við vissum að yrði ævilöng vinátta. Alltaf vorum við velkomnar á heimili Ólafar og foreldrar hennar ávallt tilbúin til að hlusta á okkur og gefa góð ráð ef þeirra var þörf.

Það er erfitt að trúa því að Ólöf sé okkur horfin úr þessu lífi. Stórt skarð er höggvið í vinahópinn og verður ekki fyllt. En við vitum að hún mun ávallt vera meðal okkar og við viljum trúa því að einhverntíma og einhvers staðar munum við hitta hana á ný.

Elsku Jón Þór, Hildur, Svavar, Arnþór, Ómar Andri og Jón Geir. Engin orð eru nægjanlega sterk en við biðjum af öllu hjarta að Guð almáttugur styrki ykkur í þessari miklu sorg.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V.Briem)

Ásta Birna, Brynja, Ellisif, Jóna og Sigga.