30. júní 1996 | Sunnudagsblað | 635 orð

Hvað er mannréttindasáttmálinn?

VARÐVEISLA mannréttinda er hornsteinn Evrópuráðsins sem var stofnað 1949 í viðleitni til að auka samstöðu V-Evrópuríkja og koma í veg fyrir að styrjöld gæti brotist út á milli þeirra á ný. Ísland gekk í Evrópuráðið 7. mars 1950, og var þrettánda í röð aðildarríkjanna, sem nú eru 39 talsins.
Hvað er

mannréttinda-

sáttmálinn?

VARÐVEISLA mannréttinda er hornsteinn Evrópuráðsins sem var stofnað 1949 í viðleitni til að auka samstöðu V-Evrópuríkja og koma í veg fyrir að styrjöld gæti brotist út á milli þeirra á ný. Ísland gekk í Evrópuráðið 7. mars 1950, og var þrettánda í röð aðildarríkjanna, sem nú eru 39 talsins.

Mannréttindasáttmáli Evrópu er heiti þess samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis sem ráðherranefnd Evrópuráðsins samþykkti í 4. nóvember 1950 og öðlaðist gildi 3. september 1953 þegar fullgildingarskjöl 10 aðildarríkja höfðu verið afhent Evrópuráðinu.

Frá því að mannréttindasáttmálinn var samþykktur hafa verið gerðir við hann 11 viðaukar. Sumir auka við þau réttindi sem sáttmálinn verndar, aðrir lúta að skipulags- og réttarfarsatriðum. Ísland tilheyrir þeim minnihluta aðildarríkja sem fullgilt hafa alla viðaukana án fyrirvara.

Sáttmálinn tryggir einstaklingum sem dveljast í aðildarríkjunum - ekki aðeins borgurum þeirra - réttindi til að haga lífi sínu, skoðunum og athöfnum að eigin vild án þess að eiga á hættu afskipti eða íhlutun ríkisins. Réttindin skulu tryggð án manngreinarálits af nokkru tagi.

Meðal þeirra réttinda manna, sem vernduð eru af Mannréttindasáttmála Evrópu, eru:

Réttur til lífs og bann við dauðarefsingu.

Bann við pyntingum og ómannúðlegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu.

Bann við þrældómi og nauðungarvinnu.

Réttur til frelsis og mannhelgi.

Réttur handtekins manns til vitneskju um ástæður handtöku og hvaða sökum hann er borinn.

Réttur handtekins manns og gæslufanga til að koma fyrir dómara innan hæfilegs tíma og til að bera frelsisskerðinguna undir dómstól og til skaðabóta.

Réttur sakbornings til að teljast saklaus uns sekt er sönnuð og til réttlátrar og opinberrar meðferðar máls fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli innan hæfilegs tíma og til að leita endurskoðunar dóms.

Sakborningur á m.a. rétt tafarlausri vitneskju um eðli og orsök kæru og á að fá tíma og aðstöðu til varnar, sem hann getur haldið upp sjálfur eða með aðstoð verjanda að eigin vali og er sú aðstoð honum að kostnaðarlausu ef þörf krefur.

Lagt er bann við afturvirkni refsilaga.

Eignarréttur er friðhelgur.

Tryggður er réttur til að greiða leynilega atkvæði í frjálsum kosningum.

Friðhelgi einkalífs, fjölskyldu, heimilis og bréfaskipta er tryggt.

Einnig hugsanafrelsi, samviskufrelsi og trúfrelsi, félagafrelsi, fundafrelsi, ferðafrelsi og réttur til að velja sér dvalarstað.

Bannað er að svipta menn frelsi vanefni þeir samningsbundna skyldu.

Tjáningarfrelsi, þar með talið skoðana- upplýsinga- og hugmyndafrelsi. Takmarkanir á réttindum á borð við tjáningar- og félagafrelsi eru því aðeins teknar gildar af Mannréttindanefnd og -dómstóli að stjórnvöld í aðildarríkjum sýni fram á hverju sinni að slíkar takmarkanir séu nauðsynlegar í lýðræðisríkjum.

Jafnrétti hjóna, réttur til að stofna til hjúskapar og fjölskyldu.

Réttur til menntunar og til að tryggja börnum fræðslu í samræmi við trúar- og lífsskoðanir foreldra.

Lagt er bann við að ríki vísi eigin borgurum úr landi og útlendingum er tryggð ákveðin réttarstaða gagnvart brottvísun úr landi.

Þau ríki sem gerast aðilar að mannréttindasáttmálanum skuldbinda sig til að haga löggjöf, stjórnsýslu og dómsýslu sinni þannig að þessi réttindi séu virt.

Í dómi mannréttindadómstóls er eingöngu kveðið á um hvort aðildarríki hafi brotið sáttmálann og sé þess krafist getur dómstóllinn dæmt einstaklingi bætur.

Dómur mannréttindadómstólsins hnekkir þannig ekki dómi sem hefur fengist í viðkomandi aðildarríki.

Stofnanir Evrópuráðsins eru ekki áfrýjunarstig í máli sem taka dómsúrlausnir til endurskoðunar heldur er þeim ætlað að leysa úr því hvort aðildarríki hafi brotið þjóðréttarskuldbindingu um að tryggja viðkomandi mannréttindi.

Ráðherranefnd Evrópuráðsins hefur eftirlit með því að dómum sé framfylgt.

M.a. byggt á greinargerð með frumvarpi til laga um mannréttindasáttmála Evrópu.

HUGTAKIÐ mannréttindi spannar vítt svið, og tekur til grófra brota stjórnvalda gegn frelsi manna jafnt og þess, sem e.t.v. má kalla forvarnarstarf í mannréttindamálum, að við meðferð mála einstaklinga hjá stjórnvöldum og dómstólum sé hlutlægni ekki aðeins gætt í raun og veru heldur verði hlutlægnin ekki dregin í efa með skynsamlegum rökum. Mannréttindasáttmáli Evrópu miðast við lýðræði og það er gert að skilyrði fyrir takmörkunum réttinda á borð við félaga- og tjáningarfrelsi að slíkar takmarkanir séu nauðsynlegar í lýðræðisríki.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.