NÝJA TESTAMENTI ODDS Bókmenntir Sigurjón Björnsson Hið Nya Testament Oddur Gottskálksson útlagði á norrænu. Prentað í Hróarskeldu árið 1540. Ný útgáfa með inngangi eftir Sigurbjörn Einarsson, Guðrúnu Kvaran, Gunnlaug Ingólfsson og Jón Aðalstein Jónsson.

NÝJA TESTAMENTI ODDS Bókmenntir Sigurjón Björnsson Hið Nya Testament Oddur Gottskálksson útlagði á norrænu. Prentað í Hróarskeldu árið 1540.

Ný útgáfa með inngangi eftir Sigurbjörn Einarsson, Guðrúnu Kvaran, Gunnlaug Ingólfsson og Jón Aðalstein Jónsson.

Lögberg. Sverrir Kristinsson.

Reykjavík 1988. XLII + 570 bls.

Flestir sem komnir eru til vits og ára hafa heyrt getið þýðingar Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu. En fáir hafa séð þá bók, því að hún hefur ekki verið prentuð aftur sem sjálfstætt rit fyrr en nú, tæpum 450 árum eftir frumútgáfu.

Þá er ýmsum eftirminnilegri mörgu öðru úr Íslandssögulær dómi frásögnin af því er Oddur sat í fjósinu í Skálholti og þýddi Nýja testamentið. Hinn skapheiti biskup Ögmundur Pálsson hefði líklega ekki tekið því með þögninni hefði hann vitað hvað skjólstæðingur hans hafði fyrir stafni.

Oddur Gottskálksson, sonur Gottskálks Nikulássonar Hólabiskups, var ungur maður þegar hann hóf þetta stórvirki sitt. Ekki er að vísu alveg ljóst hvenær hann var fæddur, en vísustu menn telja að það hafi verið nálægt 1515. Þýðinguna mun hann hafa byrjað 1536. Oddur ólst að mestu upp í Noregi. Í því landi, Danmörku og síðast í Þýskalandi hlaut hann hina ágætustu menntun. Vafalaust hefur hann bundist hinum nýja sið á Þýskalandsárum sínum. Engu aðsíður varð hann handgenginn Ögmundi Pálssyni biskupi, varð ritari hans og skjólstæðingur. Í Skálholti batt hann vináttu við Gissur Einarsson, annan siðskipting og eftirmann Ögmundar á biskupsstóli. Hafa þeir vafalaust haft nána samvinnu um þýðinguna, eins og raunin var um aðrar biblíuþýðing ar. Oddur Gottskálksson tók aldrei prestsvígslu. Mestallan aldur sinn fékkst hann við þýðingar trúarlegra texta, en á síðustu árunum var hann lögmaður norðan og vestan og sat þá á Reynistað í Skagafirði. Oddur andaðist með sviplegum hætti vorið 1556 á leið til Alþingis. Hann hefur því ekki orðið nema rúmlega fertugur að aldri, sé fæðingarárið 1515 nærri réttu lagi.

Oddur var sagður maður hæglátur og friðsamur. Hann átti aldrei í neinum deilum og sóttist lítt eftir mannvirðingum. Virðist hann helst hafa kosið kyrrlátt starf fræðimannsins og var hinn mesti iðjumaður.

Nýja testamenti Odds markar vissulega tímamót og kann að hafa haft veruleg áhrif á þróun íslenskrar tungu. Það er að öllum líkindum fyrsta bók sem prentuð hefur verið á íslensku. Önnur eldri hefur a.m.k. ekki varðveist. Íslenskir siðskiptamenn gátu því boðað fagnaðarerindið á móðurmáli sínu frá upphafi vega og á öllu betra ritmáli en þá var tíðkanlegt. Þýðing Odds varð í raun fyrirmynd að þýðingum trúarlegra texta. Hún gekk nær óbreytt inní biblíu Guðbrands Þorlákssonar. Lesi maður saman hina íslensku Nýja testamentisþýðingu frá 1981 og þýðingu Odds þarf ekki lengi að skoða til að sannfærast um að Oddur á meira en lítið í þeirri þýðingu.

Vitaskuld kemur nútíma lesanda margt framandlega fyrir sjónir í þessari þýðingu. Hvernig mætti annað vera? En eins og aðrir hafa betur sagt verða menn að setja sig í spor Odds og stíga niður til samtíma hans til þess að geta lagt á sanngjarnt mat. Hvernig var ritmáli háttað á hans tíð? Menn eru víst nokkuð sammála um að hann hafi ekki haft til mikilla fyrirmynda að sækja. Hver voru hjálpargögn hans og þeir erlendu textar sem hann þýddi eftir? Hjálpargögn voru vitaskuld engin, hvorki orðabækur, mál fræðirit né skýringarrit við Nýjatestamentið. Oddur mun einkum hafa þýtt eftir þýskri þýðingu Lúters frá um 1530, en að öðru leyti stuðst við hina latnesku þýðingu frá 4. öld (Vulgata) og víst að einhverju leyti við latneska þýðingu Erasmusar frá Rotterdam. Grísku mun Oddur ekki hafa kunnað og því ekki getað lesið Nýja testamentið á frummálinu eða stuðst neitt við það. Þetta þættu mönnum bágbornar aðstæður nú á dögum, svo ekki sé minnst á að þurfa að basla við slík ristörf í laumi úti í fjósi. Þá er og þess að geta að þetta er löngu áður en menn fóru að fást við handritakannanir og glíma við þýðingarvandamál í því samhengi. Þegar á þetta er litið hefði mátt búast við allmiklum þýðingar skekkjum og misskilningi. Hvorttveggja er að sjálfsögðu að finna og sætir litlum tíðindum. Hitt er öllu furðulegra hversu lítil brögð eru að slíkum missmíðum.

Þegar vitað er að Oddur ólst að verulegu leyti upp utanlands og var nýkominn frá löngu námi ytra hefði mátt búast við að hannværi illa í stakk búinn til að skila þessu verki sómasamlega af hendi. Voru ekki aðrir til þess færari? Ekki hafa menn getað bent á neina af samtímamönnum hans. Og víst er um það að menn hafa framar öðru undrast hversu gott vald Oddur hafði á íslensku máli, hversu orðaforði hans var mikill, tungutak fagurt og stíll svipmikill þegar best lét.

Þegar miðað er við aðstæður og árangur er mönnum löngu ljóst orðið að Oddur Gottskálksson vann undravert stórvirki með Nýjatestamentisþýðingu sinni. Enn þann dag í dag lesa menn hana sér til yndis, þó ekki væri nema sakir málsins eins. Þó að það sé að vísu fornlegt hefur það til að bera einhvern þann styrk og festu og listrænan keim sem heldur athyglinni vakandi, jafnvel betur en nýrri og e.t.v. kórréttari texti.

Það var mikið og gott menning arverk að gefa út Nýja testamenti Odds á nýjan leik, einkanlega þarsem svo vel hefur verið að útgáfunni staðið. Sigurbjörn Einarsson ritar ágætagóðan inngang um Odd, þýðingu hans, mikilvægi hennar fyrir trúarlíf og íslenska tungu. Í lok þeirrar greinar er skrá um það helsta sem um efnið hefur verið ritað. Þá er einnig annar inngangur eftir þremenningana sem bjuggu ritið til útgáfu. Er það einnig mjög greinargott og fræðandi. Sýnishorn, ljósprentuð, eru úr frumútgáfu ásamt prentun sama texta með nútímastafsetningu. Sjálfur texti Nýja testamentisins er færður til nútíma stafsetningar, prentaður fremur stóru (10/12) og skýru letri með breiðum spássíum. Hverju riti (að undanteknum guð spjöllunum) fylgir stuttur formáli þýðanda, auk lengri formála hans á undan þýðingunni. Eftirmáli þýðanda er í bókarlok.

Sérstök ástæða er til að geta mjög fallegrar og velgerðrar myndar á kápu sem Jón Reykdal gerði eftir mynd í Íslensku teiknibókinni AM 673 4to.

Þessi Nýja testamentisútgáfa Odds Gottskálkssonar er merkur menningarviðburður nú eins og í öndverðu. Bókin verðskuldar vissulega að verða boðin velkomin á sem flest heimili landsins og verða lesin.