FRÚ VIGDÍS Finnbogadóttir, forseti Íslands, sagði í viðtalsþætti í Ríkissjónvarpinu á sunnudagskvöld að hún hefði íhugað að segja af sér vegna staðfestingar samningsins um Evrópskt efnahagssvæði í janúar árið 1993. Forseti sagði jafnframt að hefði verið haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um málið hefði hún ekki snúizt um samninginn, heldur um það hvort fólk stæði með henni eða ríkisstjórninni.
Frú Vigdís Finnbogadóttir í sjónvarpsviðtali Íhugaði að segja

af sér vegna

EES-málsins

FRÚ VIGDÍS Finnbogadóttir, forseti Íslands, sagði í viðtalsþætti í Ríkissjónvarpinu á sunnudagskvöld að hún hefði íhugað að segja af sér vegna staðfestingar samningsins um Evrópskt efnahagssvæði í janúar árið 1993. Forseti sagði jafnframt að hefði verið haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um málið hefði hún ekki snúizt um samninginn, heldur um það hvort fólk stæði með henni eða ríkisstjórninni.

Er EES-samningurinn var til meðferðar á Alþingi voru forseta sendir undirskriftalistar, þar sem skorað var á hana að beita 26. grein stjórnarskrárinnar og neita að undirrita lögin um gildistöku samningsins, en þá hefði farið fram þjóðaratkvæðagreiðsla um lögin. Forseti varð ekki við þessum áskorunum, en lagði fram sérstaka yfirlýsingu um leið og hún undirritaði lögin á ríkisráðsfundi. Í yfirlýsingunni vísaði forseti meðal annars til áskorana þessara, en sagði að enginn forseti hefði gripið fram fyrir hendurnar á lýðræðislega kjörnu Alþingi, sem tæki ákvarðanir sínar með lögmætum hætti.

Olli vinum vonbrigðum

Vigdís var í sjónvarpsþættinum á sunnudagskvöld spurð hvað hefði verið henni erfiðast að takast á við í embætti forseta, tengt stjórnmálunum. Svar forseta var svohljóðandi:

"Ég veit að okkur er báðum efst í huga eða ofarlega í huga EES-málið, það er alveg ljóst. Ég tók það mjög nærri mér og var lengi að komast yfir það, sannast að segja. Þá geisuðu stormar í víddum hugans, vegna þess að það gekk svo að mér. Ég fann það svo oft að ég hafði kannski valdið þeim, sem mér þótti undur vænt um, vonbrigðum með því að taka þá afstöðu að neita ekki að skrifa undir. En það var nú ekki hlaupið í þá afstöðu. Það var legið undir feldi eins og gert var fyrir þúsund árum á Þingvöllum."

Hefði endað með afsögnum hér og þar

Aðspurð hvað hefði gerzt, hefði hún neitað að undirrita EES- samninginn, sagði Vigdís: "Það er aldrei hægt að segja hvað hefði gerzt, af því að það gerðist ekki. En það eru náttúrlega til margar útgáfur af því og þær eru allar mjög dramatískar. Hér hefði orðið mjög, mjög erfitt ástand, sem hefði endað með afsögnum hér og þar. Ég hugleiddi mjög á þessu tímabili að segja bara hreinlega af mér. En mér fannst það ekki sýna þann styrk, sem ég raunverulega á inni í mér. Ég átti að geta horfzt í augu við að gera þetta svona og ég hef gert það.

Það hjálpaði mér að ég hugsaði svo mikið um æskuna. Það hjálpaði mér meðal annars að hefðum við ekki samþykkt þennan EES- samning, sem ég var engan veginn fullkomlega sátt við og heldur ekki ósátt, ég var að reyna að beita hlutleysi, hefðum við getað útilokað okkur frá háskólastofnunum, vísindastofnunum og lærdómsstofnunum og stofnunum, sem byggja upp framtíð æsku okkar - að ungir stúdentar, allir sem eru að læra til hugar og handar, komist inn í. Í þessu bandalagi öllu er útilokunarstefna. Þeir, sem eru ekki inni, eru úti, eins og þar stendur. Og þetta hjálpaði mér.

En það er mjög erfitt að horfast í augu við það þegar mikill fjöldi beinir orðum sínum til manns og óskar eftir því að maður beiti sér í máli.

Síðan held ég að það hefði aldrei verið kosið nákvæmlega um samninginn. Það hefði annaðhvort verið kosið um að standa með mér eða ríkisstjórninni."

VIGDÍS Finnbogadóttir