NORSKA sjávarútvegsfyrirtækið Resource Group International, RGI, í eigu þeirra félaganna Kjell Inge Røkke og Björn Rune Gjelsten, hefur verið skráð í kauphöllinni í Ósló og hefur fyrsta hlutafjárútboðið farið fram. Var um að ræða útboð upp á 1,9 milljarða ísl. kr. og var eftirspurnin eftir hlutabréfunum mjög mikil.
Kjell I. Røkke byrjaði

átjan ára með einn bát

Mikil áhugi á hlutabréfum í fyrirtækinu RGI

NORSKA sjávarútvegsfyrirtækið Resource Group International, RGI, í eigu þeirra félaganna Kjell Inge Røkke og Björn Rune Gjelsten, hefur verið skráð í kauphöllinni í Ósló og hefur fyrsta hlutafjárútboðið farið fram. Var um að ræða útboð upp á 1,9 milljarða ísl. kr. og var eftirspurnin eftir hlutabréfunum mjög mikil. Er það rakið til þess, að RGI hefur verið að treysta stöðu sína að undanförnu með uppkaupum á öðrum fyrirtækjum.

RGI stefnir að því að "þróa og reka samhæft og alþjóðlegt sjávarútvegsfyrirtæki" og hefur stöðugt verið að auka umsvif sín í veiðum, vinnslu og skipasmíðum auk ítaka í öðrum rekstri. Meðal nýjustu samninga þeirra Røkke og Gjelsten má nefna, að þeir hafa tekið á kaupleigu alla þrjá verksmiðjutogara fyrirtækisins Oceantrawl í Seattle og keypt upp Birting Fisheries, sem gerði út eitt verksmiðjuskip.

Auk þessa pantaði RGI smíði á fjórum togurum hjá einni af skipasmíðastöðvum fyrirtækisins í Noregi og gert er ráð fyrir smíði á 14 öðrum. Ætlunin er að leigja þessi skip Rússum til veiða í Barentshafi. Fyrirtækið hefur leyfi fyrir þrjú skip í lögsögu Chile og er nú verið að smíða 96,2 metra langt skip, sem á að veiða lýsing í surimi.

Veltan 66 milljarðar

Vöxturinn í RGI hefur verið ævintýralegur, um 70% á ári um nokkurt skeið, en nú er stefnt að því, að hann verði um 25% árlega. Hefur hann aðallega byggst á því að kaupa upp fyrirtæki þegar markaðsstæður eru erfiðar og verðið þess vegna lægra en ella. Á síðasta ári var velta fyrirtæksins um 66 milljarðar ísl. kr., þar af 25,7 milljarðar vegna umsvifa í sjávarútvegi. Að öðru leyti var hún í skipasmíðum, verslun með íþróttavörur, skrifstofubúnað, umbúðir og vefnaðarvöru og vegna fasteignaviðskipta, aðallega í Bandaríkjunum. Starfsmenn RGI eru nú um 3.900.

Kjell Inge Røkke á sjálfur um 70% hlutafjárins í RGI og hann seldi ekki eigin bréf í hlutafjárútboðinu nýlega. Hann byrjaði 18 ára gamall á því að kaupa eitt skip en á nú eða leigir 31 skip á flestum heimshöfum.

Aðeins kjölurinn notaður

1987 stofnaði hann American Seafoods Co., ASC, sem var með aðalstöðvar í Seattle, og á næstu fjórum árum keypti hann fjöldann allan af gömlum skipum. Þeim var síðan siglt Noregs þar sem nýtískuskip voru smíðum utan um kjölinn í gömlu skipunum. Það nægði til að þau væru "bandarísk" eftir sem áður og höfðu því veiðiheimildir vestra. ASC er nú stærsta fyrirtæki í heimi í veiðum og vinnslu á bolfiski.

Norway Seafood var stofnað í desember 1994 og er það eignarhaldsfélag, sem sameinar öll sjávarútvegsumsvif RGI. Keypti það upp Skarfish-samsteypuna og Norlax á síðasta ári og fyrirtækin Foodmark Holding og Melbu Fiskeindustri bættust við á þessu ári.