VINSTRI menn hafa nú misst glæpinn, eða öllu heldur, glæpnum var beinlínis stolið af þeim. Eyjólfur hresstist nefnilega aldrei. Hann dó. Syrgjendurnir leita nú nýrra patentlausna dyrum og dyngjum, en finna fátt sem fútt er í. Það er viss eftirsjá í Eyjólfi. Meðan hann tórði var auðveldara að fylgjast með þeim sem önnuðust hann.
Nei-þýðir-já-lögmálið

... eftir sjónum breiðum

Rússa-Grýlan er dauð, segir Vilhjálmur Eyþórsson í þessari síðustu grein sinni af fjórum, en Grýlubörnin lifa áfram.

VINSTRI menn hafa nú misst glæpinn, eða öllu heldur, glæpnum var beinlínis stolið af þeim. Eyjólfur hresstist nefnilega aldrei. Hann dó. Syrgjendurnir leita nú nýrra patentlausna dyrum og dyngjum, en finna fátt sem fútt er í.

Það er viss eftirsjá í Eyjólfi. Meðan hann tórði var auðveldara að fylgjast með þeim sem önnuðust hann. Í Þjóðviljanum, sem andaðist skömmu eftir fráfall Eyjólfs, mátti t.d. ávallt ráða í hvað vinstra fólk bar helst fyrir brjósti þá stundina. Til dæmis komst blaðið yfir það í liðlega hálfrar aldar sögu sinni að styðja flestalla þá ógnarbílda, sem herjuðu á mannfólkið á tímabilinu. Má minna á afdráttarlausan stuðning Þjóðviljans við Hitler og hernað hans árin 1939­41, sem varð til þess að Bandamenn stöðvuðu útgáfu blaðsins og fangelsuðu aðstandendur þess. Ekki þarf að tíunda lofgerðirnar óteljandi um hina harðsvíruðu alræðisherra kommúnistalandanna, en auk þeirra lenti hver sá, sem barðist gegn hagsmunum vestrænna lýðræðisþjóða, sjálfkrafa í náðinni. Má þar nefna Khomeini og hans menn, og undir lokin átti Saddam Hussein athvarf á síðum blaðsins, þ.e. ef rúm gafst fyrir "friðarbaráttunni", sem fékk æ meira rúm ásamt "mannréttindabaráttunni".

Einnig birtust gjarnan í blaðinu auglýsingar um fundi samtaka sem tengdust áhugamálum áhangenda þess, svo sem hinum ýmsu "vináttufélögum", sem íslenskir menn stofnsettu við erlendar alræðisstjórnir. Þá mátti finna í Þjóðviljanum, eins og við var að búast í höfuðmálgagni "mannréttindabaráttunnar", tilkynningar um fundi Amnesty. Vakti sérstaka athygli mína að stundum stóð sama fólkið að þeim og auglýsingum "vináttufélaganna".

Ekkert skorti heldur á um "friðarbaráttuna" sem rekin var samhliða stuðningi við "þjóðfrelsisbaráttuna" (þ.e. hernað kommúnista). M.a. fengu "Menningar- og friðarsamtök kvenna" pláss, ásamt öðrum "friðarsamtökum" sem ekki voru jafn afdráttarlaust rekin á vegum Sovétríkjanna (að því er sýndist, a.m.k).

Friðaruppeldi og föðurlandsást

Það er freistandi að álykta að summa lastanna og dyggðanna verði alltaf hin sama. Því meiri dyggðir, þeim mun meiri lestir. Allir kannast við kristna vandlætara og siðapostula sem hafa verið sekir um ýmiss konar glæpi. Dæmi má finna um fólk sem orðið hefur þjóðkunnt fyrir baráttu sína gegn fíkniefnavandanum, en síðan dæmt fyrir eiturlyfjasmygl.

Þetta má skýra með nei-þýðir-já- lögmálinu sem segir að menn fordæmi það ávallt harðast í orði, sem þeir styðji afdráttarlausast á borði. Miklu fleiri dæmi má finna en þau, sem ég hef þegar nefnt:

Í stríðslok kom upp í Þýskalandi hreyfing um "friðaruppeldi" og var fóstra Ulrike Meinhof, sem seinna var heimskunn í tengslum við hryðjuverk, þar framarlega í flokki. Má því segja, að Baader-Meinhof- samtökin hafi þannig verið skilgetið afkvæmi "friðaruppeldis".

Ég missti reyndar trúna á "friðarbaráttunni" fyrir margt löngu, um líkt leyti og ólíkum hópum friðarsinna lenti saman á "heimsfriðarmóti" í Japan og tugir manna féllu í valinn.

Í "verkamannalýðveldum", t.d. á Kúbu, er hver sá, sem reynir að stofna til verkfalla eða berjast fyrir hag verkamanna tafarlaust fangelsaður. Þetta er gert með þeim rökum að "verkamenn" hafi völdin og sé verkalýðsbarátta því "gegn hagsmunum verkalýðsins".

Það leiðir því af sjálfu sér að vinstri menn, vinir Castros og annarra slíkra, hafa alltaf talið sig vera alveg sérstaka fulltrúa og kraftbirtingu verkalýðs og verkalýðsbaráttu hér á jörðu.

Íslenskir verkalýðsleiðtogar sóttu því t.d. þing opinberra "verkalýðsfélaga" alræðisríkjanna á Kúbu fyrir nokkrum árum, einmitt um það leyti, sem "hægri sinnaðir" (andkommúnískir) verkamenn í Samstöðu voru að berjast fyrir lífi sínu í Póllandi. Þingið samþykkti að sjálfsögðu ýmsar ályktanir, sem fordæmdu "kúgun verkamanna" víðs vegar á Vesturlöndum.

Einn stjórnmálaflokkur, sem hefur heitið ýmsum nöfnum, telur sig alveg sérsakan og útvalinn andstæðing erlendra stórvelda. Liðsmenn hans hafa því í gegnum tíðina vandlætast afar mikið og m.a.mjög sakað andstæðinga sína um "landsölu" og jafnvel "landráð".

Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að nú er fullsannað og skjalfest í Moskvu, að einmitt þessi flokkur þáði samtímis mikla fjárstyrki og var um áratugaskeið beinlínis stjórnað úr ráðuneytum erlends stórveldis.

Af illum verkum...

Nú, að Rússa-Grýlu liðinni, er í sjálfu sér ágætt að þurfa ekki lengur að sitja undir því að vera kallaður "fasisti" fyrir þær sakir einar að benda á staðreyndir um ástandið í sæluríkjum. Þeim staðreyndum mótmælir enginn lengur.

Mér fannst miklu verra fyrr á árum að vita af málsvörum alræðis og kúgunar meðal áhrifamanna hvarvetna í þjóðfélaginu, ekki aðeins í stjórnmálum, heldur einnig og ekki síst í lista- og menningarlífi þjóðarinnar.

Hitt fannst mér þá og finnst enn allra verst, og reyndar óþolandi, að sitja undir tali þess sama fólks um "lýðræðið", "tjáningarfrelsið", "lítilmagnann" og "mannréttindin".

Havel Tékklandsforseta var örugglega ekki kunnugt um, þegar hann var hér á ferð fyrir nokkrum árum, í hvaða félagsskap hann var. Mér fannst beinlínis viðbjóðslegt að fylgjast með því að þeir sem flöðruðu allra mest upp um forsetann voru einmitt þeir áhrifamenn í stjórnmálum, listum og menningarlífi sem af mestu alefli höfðu stutt kvalara hans fáum árum áður meðan hann var andófsmaður og fangi.

Þetta fólk kann ekki að skammast sín.

Rússagrýla er dauð. En Grýlubörnin lifa og munu halda áfram að geta af sér afkvæmi, því skýringar á háttalagi þeirra er fremur að leita á grundvelli sálfræði en stjórnmála. Vinstrimennskunni verður varla útrýmt, fremur en sýndarmennskunni, vandlætingunni eða óskhyggjunni. Hún mun skjóta upp kollinum í einhverri mynd, undir einhverju nafni. Blekkingin er fallegri en raunveruleikinn, og menn munu halda áfram, enn sem fyrr, að berjast af miklu meiri sannfæringu fyrir lyginni heldur en sannleikanum.

Því munu íhaldsmenn seint öðlast þann töfraljóma, sem umlykur málsvara blekkingarinnar. Við það verður að búa.

Barnið í ævintýri Andersens hefur örugglega fengið skömm í hattinn. Svo var a.m.k. um okkur sem reyndum að benda fólki á úr hvaða efni nýju fötin væru sem skraddararnir Marx og Lenin höfðu sniðið á keisarana í Kreml. Boðberar válegra tíðinda verða aldrei vinsælir, og fólk er alltaf reiðubúnara til að trúa lyginni heldur en sannleikanum.

Kíkóti skildi hvarvetna eftir sig slóða eyðileggingar. Það gera vinstri menn, stuðningsmenn, jábræður og umþegjendur Gúlagsins, líka. Fulltrúar og arftakar Rýssa- Grýlu eru ekki meinlausir, sjónumhryggir riddarar. Auðvelt er samt að þekkja þá: Þeir tönnlast nefnilega í síbylju á fallegum orðum.

Nafni minn frá Skáholti orðaði nei-þýðir-já-lögmálið dálítið öðru vísi en ég, nefnilega svona:

Af illum gjörðum sínum þekkjast þeir,

sem þykjast geta frelsað heiminn.

Það er vissulega rétt að auðveldlega má þekkja þá af illum gjörðum þeirra.

En það er jafn auðvelt að að þekkja illvirkjana af fögrum orðum sínum.

Höfundur er ritstjóri

Vilhjálmur

Eyþórsson