SKRIF um verðmyndun grænmetis undanfarna mánuði, meðal annars í leiðurum tveggja stærstu dagblaða þjóðarinnar, byggjast í grundvallaratriðum á misskilningi að því er varðar vetrarræktun á gúrkum. Ekki er hægt að komast hjá því að leiðrétta þau. Hér á Laugalandi í Borgarfirði hafa gúrkur verið ræktaðar allt árið síðstastliðin fjögur ár, yfir veturinn með hjálp sérstakrar raflýsingar.

Vetrarræktun

á gúrkum Blaðaskrif um verðmyndun grænmetis hafa, að mati Þórhalls Bjarnasonar , byggst á misskilningi og röngum upplýsingum. SKRIF um verðmyndun grænmetis undanfarna mánuði, meðal annars í leiðurum tveggja stærstu dagblaða þjóðarinnar, byggjast í grundvallaratriðum á misskilningi að því er varðar vetrarræktun á gúrkum. Ekki er hægt að komast hjá því að leiðrétta þau. Hér á Laugalandi í Borgarfirði hafa gúrkur verið ræktaðar allt árið síðstastliðin fjögur ár, yfir veturinn með hjálp sérstakrar raflýsingar. Vetrarræktunin er í beinni samkeppni við innfluttar gúrkur, aðallega spænskar og hollenskar. Innfluttu gúrkurnar bera ekki "ofurtolla" frá 1. nóvember til 15. mars, þær bera enga tolla eða gjöld og eru ekki háðar neinum magntakmörkunum. Þær íslensku bera hins vegar ýmis sjóðagjöld. Sú skoðun sem fram kemur í leiðara Morgunblaðsins 12. júlí að þessi framleiðsla kunni að orka tvímælis fyrir neytendur byggist að því er virðist á röngum upplýsingum um þetta atriði og er að mínu mati algerlega út í hött. Gæðamálin skipa mestu máli þegar rætt er um vetrarræktaðar gúrkur. Þar stendur íslenska framleiðslan framar hinni erlendu, meðal annars vegna nálægðar við markaðinn. Kaupendur hafa frjálst val og yfir veturinn eru innfluttu og íslensku gúrkurnar víða hlið við hlið í verslunum. Neytendur kunna að meta íslensku framleiðsluna, það hefur reynslan sýnt. Það er dýrt að rækta gúrkur við rafmagnsljós, rétt er það, en það hefur sýnt sig að neytendur vilja í mörgum tilvikum greiða heldur hærra verð fyrir betri vöru. Rétt er að taka fram að frumkvöðlar vetrarræktunar á gúrkum hér á landi hafa stuðst við norskar tilraunaniðurstöður og hefur ekki verið lagt í kostnað við tilraunir á þessu sviði hér. Ég tel að sú ánægjulega nýjung í íslensku atvinnulífi sem felst í ræktun á gúrkum og jafnvel öðru grænmeti yfir vetrartímann haldi áfram og þróist enn frekar enda er hún til hagsbóta fyrir neytendur eins og framleiðendur og þjóðarbúið í heild. Erlend samkeppni skákar ekki þessari ræktun, heldur miklu frekar innlend samkeppni í kjölfar offramleiðslu eða hugsanlega aukinn innlendur kostnaður, til dæmis við rafmagnskaup. Ég hvet til umræðu um garðyrkju og landbúnað en bendi á að hún þarf að vera grundvölluð á réttum upplýsingum og skoðanir studdar skynsamlegum rökum. Annars kemur hún ekki að gagni. Höfundur er garðyrkjubóndi á Laugalandi í Borgarfirði.

Þórhallur Bjarnason