Hindemith: Sónata Op. 25 nr. 3; Atli Heimir Sveinsson: Dal Regno del Silenzio; Britten: Svíta Op. 72 [nr. 1]. Stefán Örn Arnarson, selló. Listasafni Sigurjóns Ólafssonar, þriðjudaginn 16. júlí kl. 20:30.


KRAFTUR Í KÖGGLUM

TÓNLIST

Sigurjónssafn

EINLEIKSTÓNLEIKAR

Hindemith: Sónata Op. 25 nr. 3; Atli Heimir Sveinsson: Dal Regno del Silenzio; Britten: Svíta Op. 72 [nr. 1]. Stefán Örn Arnarson, selló. Listasafni Sigurjóns Ólafssonar, þriðjudaginn 16. júlí kl. 20:30.

AÐ SÖGN einleikarans, þegar hann kynnti dagskrána munnlega á vel sóttum tónleikum sínum í Sigurjónssafni á þriðjudagskvöldið var, mun Sónata Pauls Hindemiths fyrir selló án undirleiks vera frá árinu 1923. Hann hefði getað bætt við, að verkið er frá tímamótum á ferli hins unga Hindemiths, þar sem aukin tónsköpunarleg formfesta í anda nýbarokks átti eftir að leysa leitandi stílblönduskeið alþjóðlegs expressjónisma og síðrómantíkur af hólmi. Þannig eru sum framsæknustu og ágengustu verk tónskáldsins, er í öndverðu þótti hafa strákslega gaman af að ganga fram af fólki, runnin frá þessum fyrri helmingi 3. áratugar. Hindemith hafði þá þegar skapað sér nafn sem fremsta tónskáld Weimarlýðveldisins með leikhúsmúsík (þ.á m. þremur einþáttungsóperum), en þó aðallega með kammerverkum eins og tveimur fiðlusónötum sínum, víólusónötunni og strengjakvartettunum þremur. Í samanburði við seinni verk var hljómanotkun hans í þá daga hlutfallslega hrá, jafnvel ruddaleg, eins og víða mátti heyra í einleikssónötunni Op. 25 nr. 3. Stefán Örn Arnarson er nýkominn heim frá framhaldsnámi hjá Erlingi Blöndal Bengtssyni í Michiganfylki í Bandaríkjunum og hefur þegar tryggt sér leiðarastólinn í knéfiðludeild Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands á Akureyri. Í Hindemithverkinu kom fljótt fram sterkur og hljómmikill tónn sellistans, sem gaf, ásamt óvenjugóðri hendingarmótun hjá jafn ungum manni, vísbendingu um bjarta framtíð í íslenzku tónlistarlífi, þó svo að tækni hans virðist enn eiga töluverða slípun eftir, áður en fullkomið öryggi, þ.m.t. í inntónun, getur farið að telja áheyrendum trú um að jafnvel svæsnustu fingurbrjótar séu kálfskinn eitt. Upp á þetta sjóaða öryggi vildi stundum vanta í Hindemith; einna minnst þó í hinum kankvísa 2. (Mä ig schnell) og hinum angurvært syngjandi 3. þætti (Langsam). Ágengur lokaþátturinn (einnig "Mä ig schnell") sýndi, svo ekki varð um villzt, að Stefán átti bæði skap og krafta í kögglum. Undirrituðum þótti hvað mest til túlkunar Stefáns Arnar koma í hinu dulúðuga verki Atla Heimis Sveinssonar, "Dal Regno del Silenzio" [úr Ríki þagnar], þar sem samspil hins (oftast) hæggenga bogasöngs á lágum nótum og langra þagna naut sín til fullnustu, ekki sízt sakir markvissrar yfirvegunar og næms tímaskyns. Tókst Stefáni Erni þar að halda uppi spennu eftirvæntingar allt til enda. Það er undarleg tilviljun, að hin stórbrotna en fremur sjaldheyrða svíta Benjamins Brittens skuli verða á vegi manns með aðeins viku millibili, en hún sat eftir í undirvitundinni eftir ógleymanlegan flutning Bryndísar Höllu Gylfadóttur á Sumartónleikum í Skálholti fyrir skemmstu. Var sú tilviljun ekki beinlínis vatn á myllu Stefáns Arnar, né heldur naut hann góðs af örlátri akústík Skálholtskirkju, en þó tókst honum víða vel upp í þessu kröfuharða verki; e.t.v. bezt í V. þætti (Bordone), , þar sem fyrrgreind yfirvegun ásamt jöfnu og úthaldsmiklu bogastroki kom að góðu haldi.

Undirtektir áheyrenda voru ríkulegar, og flutti Stefán Örn að lokum utan dagskrár Sarabönduna úr 1. sellósvítu Bachs í G-dúr af kyrrlátri natni. Ríkarður Ö. Pálsson Stefán Örn Arnarson