Skúmstungur INNAN við Sandafell er mikill slakki í landið og falla þar um tvær ár er nefnast Fremri- og Innri-Skúmstungnaá. Slakkinn nefnist Skúmstungur en bungumynduð tunga, grösugt land og þurrlent, gengur upp á milli ánna og nefnist Skúmstungnaheiði.

Á AFRÉTTI

GNÚPVERJA

Komin er út Árbók Ferðafélags Íslands 1996 og heitir hún OFAN HREPPAFJALLA. Höfundur hennar er Ágúst Guðmundsson jarðfræðingur og kunnur ferðagarpur. Meginefni bókarinnar er um afrétti Gnúpverja, Hrunamanna og Flóamanna. Efni bókarinnar er þó mun víðtækara, t.d. um Hofsjökul, Búrfellsvirkjun og heimalönd efstu jarða. Hér er gripið niður í kafla um Gnúpverjaafrétt. Skúmstungur

INNAN við Sandafell er mikill slakki í landið og falla þar um tvær ár er nefnast Fremri- og Innri-Skúmstungnaá. Slakkinn nefnist Skúmstungur en bungumynduð tunga, grösugt land og þurrlent, gengur upp á milli ánna og nefnist Skúmstungnaheiði. Óljós munnmæli herma að í Skúmst ungum hafi í fyrndinni dvalið einsetumaður. Brynjúlfur Jónsson telur hugsanlegt að bær hafi staðið í Skúmstungum á bökkum Þjórsár á þjóðveldisöld og hafi Þjórsá brotið rústirnar. Nú liggur Sultartangalónið yfir þeim stað og vatnar nokkuð upp í árósana. Þar er hinn ágætasti áningarstaður, og er útsýni hið fegursta suður yfir Þjórsá til Heklu. Hér sat Finnur Jónsson haustið 1934, krókloppinn, og málaði landslag á striga með þeirri næmni að fáir leika eftir.

Fremri-Skúmstungnaá er vatnslítil en örskammt vestan við vegslóðina fellur hún í fallegu stuðlabergsgili. Áin kemur úr Kistuveri, en henni bætist talsvert vatn úr Fossheiði og Skúmstungnaheiði. Ofarlega við Fremri- Skúmstungnaá, upp undir Fossheiði, er lítil volg laug niðri í grunnu árgilinu. Áin rennur í gili skammt ofan við veginn inn afréttinn og er þar mjög flögótt berg og laglegt hellutak.

Báðar eru Skúmstungnaárnar vatnslitlar í venjulegri tíð en Innri- Skúmstungnaá er þó öllu vatnsmeiri en hin fremri. Þær vaxa fljótt í rigningum, og þar eð þær eru mjög strangar neðan til eru þær hinn versti farartálmi, einkum á vorin þegar fé er rekið á fjall. Báðar árnar hafa verið brúaðar skammt ofan ósa til að auðvelda fjárflutninga. Vegurinn inn Gnúpverjaafrétt fer upp með vestri bakka árinnar meðfram miklu gili er hún rennur í. Í gilveggjunum eru þykk lög úr brúnum sandsteini. Víða meðfram gilbarminum standa reisulegar vörður Sprengisandsvegar.

Fitjaskógar

Innan við Skúmstungnaár og meðfram Sultartangalóni heitir hlíðin Fitjaskógar. Syðst í hlíðinni fram undir Skúmstungnaá innri eru tóftir gangnamannakofa er hét Skógakofi og er nú af lagður. Þetta var gamall hellukofi og þakið úr stórum hellum sem nú eru fallnar niður. Hann var með palli og rúmaði allan mannskapinn í eftirleit, átta manns. Í þessum kofa svaf Kristinn Jónsson 1. október 1898 er hann gekk í villu sinni suður yfir Sprengisand.

Austan Fitjaskóga rann Þjórsá fyrrum um sandeyrar í grunnum dal á milli Fitjaskóga og Búðarháls. Snemma á nútíma hefur sá dalur verið a.m.k. 100 m dýpri en nú en Tungnaárhraun lokuðu mynni dalsins og framburður Þjórsár fyllti upp dalkvosina innan þeirra. Efsta hraunið (hið sama og þrengdi sér niður Gjána) rann inn í miðjan dalinn og hefur hraunjaðarinn fundist þar undir sandeyrunum með jarðrannsóknum. Á eyrunum voru vöð á Þjórsá sem sjaldan voru notuð af ferðalöngum þótt þau væru líklega oft þokkaleg yfirferðar. Fyrrum mun hafa verið algengt að Gnúpverjar í eftirleit brygðu sér austur yfir Þjórsá undan Fitjaskógum til þess að huga að eftirlegukindum á afrétti Holtamanna. Í lægri hlíðum Fitjaskóga er útbreitt líparítsvæði langan veg meðfram ánni innundir Þröngubása. Ekki sér samt samfellt í líparítið vegna þykkrar jökulruðningskápu utan á hlíðinni. Vel er þarna gróið og gras mikið. Þar segir Brynjúlfur Jónsson undir lok nítjándu aldar að verið hafi skógur fram á næstliðinn mannsaldur. Engan skóg er þar að finna nú.

Þar sem dalur Þjórsár þrengist á milli Fitjaskóga og Búðarháls rennur áin í allþröngum farvegi milli móbergskleggja og nefnist þar Þröngubásar. Er þá skammt að Gljúfraá sem rennur í smáfossum stall af stalli niður alldjúpt gil.

Sultartangalón var myndað með Sultartangastíflu sem lokið var við haustið 1983. Er um að ræða 6100 m langa jarðvegs- og grjótstíflu, rúmmálsmesta mannvirki sem gert hefur verið hér á landi. Vesturendi stíflunnar leggst að Sandafelli og eru botnrásir og lokubúnaður í djúpum skurði sem sprengdur var í sveig inn í hlíðarfót Sandafells. Þaðan liggur stíflan til austurs yfir Tungnaárhraun, yfir Tungnaá við hið gamla Tangavað og að suðurhorni Búðarháls. Þar eru yfirfallsmannvirki stíflunnar. Sultartangalón er um 19 km2 að flatarmáli og teygir sig inn á milli Fitjaskóga og Búðarháls, inn undir Þröngubása. Hæsta vatnsborð í lóninu er í 297 m y. s. og þar er hægt að miðla 50 gígalítrum vatns. Hálendisbrúnin fyrir ofan Fitjaskóga heitir Hjallar, og innst og fremst á þeim heita Hjallahorn, innra og fremra. Er þar stöllótt ofan við tiltölulega samfellda brekku Fitjaskóga. Þegar kemur vestur fyrir brúnirnar eru ver, ekki alveg samfelld en kallast einu nafni Hjallaver. Suðvestast eða fremst í verum þessum er Starkaðsver.

Norðvestast á hálendi þessu, nærri innra Hjallahorni, er löng en lág alda sem heitir Langalda. Vegslóðin frá Skúmstungum inn afréttinn fylgir vesturbakka Innri-Skúmstungnaár allangan spöl uns farið er yfir ána á grýttu og oft ströngu vaði. Upptök árinnar eru í Öræfaklaufinni austan Lambafells. Örskammt neðan við vaðið rennur í hana smáá að austan, hún heitir að sögn Gísla Gestssonar Öræfataglakvísl. Á landabréfum hefur hún verið merkt Hjallaverskvísl. Á nýlegum vegpresti og nýlegu örnefnakorti af afréttinum er hún nefnd Seitla og má kalla það skáldanafn. Eiríkur Einarsson frá Hæli sem á marga vísuna í þessari bók var hér á ferð í göngum haustið 1941. Hann gaf læknum nafnið Seitla en líklega hefur hann þó þekkt eldra heitið.

Starkaðsver og Hjallar

Þegar farið er slóðina norður frá vaðinu á Innri-Skúmstungnaá er mýrlendi austan slóðar er nefnist Starkaðsver og í sunnanverðu verinu er Starkaðssteinn allstór með vörðubroti á kolli. Sagt er að maður á Norðurlandi sem Starkaður hét hafi átt unnustu á Skriðufelli í Gnúpverjahreppi, sumir segja á Stóra- Núpi. Er þau skildu haust nokkurt lagði hún mjög að unnusta sínum að hann kæmi suður að jólum að finna hana. Lagði hann af stað að norðan er leið að jólum. Dreymdi stúlkuna nótt eina upp úr áramótum að þetta var kveðið á glugga hennar:

Frost og fjúk er fast á búk

frosinn mergur í beinum.

Það finnst á mér sem fornkveðið er

að fátt segir af einum.Angur og mein fyrir auðarrein

oft hafa skatnar þegið.

Starkaðs bein und stórum stein

um stundu hafa legið.

Um vorið fannst lík Starkaðar hjá steininum en Sprengisandsvegur var örskammt frá.

Fleiri hafa ort um Starkaðsstein og fara hér tvö vísuerindi eftir Eirík frá Hæli:

Um hinn dimma, stóra stein

stakan úti í veri

segjum fátt, en sorgin ein

sé þar vitnisberi.Sveinar þeysa í suðurátt

sandar að baki rjúka

aðrir hafa aldrei mátt

áfanganum ljúka.

Nokkru norðan við Starkaðsver liggur vegslóðin um allgróinn heiðarás er nefnist Langalda. Slóðin fer þar í gegnum tvo jökulgarða sem eru nokkuð áberandi þegar komið er að þeim. Til austurs sér vel yfir Búðarháls en til vesturs eru tvö fell mest áberandi. Það nyrðra er Lambafell, gróðursnautt og allbratt móbergsfell, er rís rúmlega 100 m yfir umhverfið. Litlu sunnar rís Kista, stöllóttur ás með tveimur áberandi hraunbríkum. Nokkru framar er Fossheiði, flatari og lægri, en miklu meiri um sig og talsvert gróin. Lambafell og Kistu er hægt að aldurssetja því þau eru mynduð á segulvikinu Jaramilló fyrir um 900 þúsund árum og gengur jafnaldra bergplata í gegnum fjöllin austur í Fitjaskóga og suður í Sandafell.

Fossárver og Fossá

Fossá kemur upp í dreifðum lindum í dalverpi, næstum hringmynduðu, innan við Lambafell og úr drögum hennar er örskammt inn að Helgavatni. Norðvestan við Helgavatn er stórgrýttur ás er nefnist Helgavatnshnúkur. Fossá sveigir vestur fyrir Lambafell í gegnum dal einn alldjúpan sem heitir Austur-Bugar. Þar kemur í hana Bugakvísl úr norðri. Við ána er rýr grasfit, Skeiðamannafit, og stendur gangnamannahús Skeiðamanna þar. Sem fyrr getur skilur Fossá á milli afrétta Gnúpverja og Flóa- og Skeiðamanna.

Á móts við Kistu tekur Fossá stefnu til útsuðurs og rennur fyrir norðan Fossheiði uns hún beygir aftur til suðuráttar austan við Fossölduver þar sem hún breiðir úr sér á ysjóttum sandeyrum. Þaðan þrengir að henni aftur er hún rennur suður úr skarðinu á milli Fossheiðar og Fossöldu og steypist í sínum háa fossi niður í Fossárdal.

Gljúfraá og Gljúfurleit

Við innra Hjallahorn leggur slóðin lykkju til vesturs yfir Blautukvísl og er þá komið í Gljúfurleit. Áfram er haldið austan undir brattri en lágreistri, stakstæðri öldu er nefnist Fremri-Hnappalda og er þá skammt að annarri smákvísl, Gljúfraá eða Gljúfurá eins og hún nú er oftast nefnd. Blautakvísl og Gljúfraá koma úr votlendum grunnum skálum beggja vegna Hnappöldu. Er þar þéttur sandsteinn í berggrunni og situr vatn mjög á honum svo að landið þarna er oftast blautt yfir að líta. Upptök Gljúfraár heita Fremra- Hnappölduver og rennur hún suður og austur úr grunnu skarði á milli Fremri-Hnappöldu og Lönguhlíðar sem er næsti ás fyrir innan. Kvíslarnar sameinast litlu austan við slóðina í brekkubrúninni þar sem Blautakvísl kemur fram úr myndarlegu beinu sprungugili og rennur í Gljúfraá. Neðan við ármótin rennur áin víðast í alldjúpu gljúfri í einlægum fossum og flúðum.

Í þrengri merkingu nær Gljúfurleitin aðeins frá Gljúfraá að Geldingaá, enda er þessi hluti Gljúfurleitar með öðrum svip en þegar kemur inn fyrir Geldingaá. Skammt austan við vegslóðina í tungunni á milli Blautukvíslar og Gljúfraár stendur mikið leitarmannahús í eigu Gnúpverja á suðurbakka Gljúfraár. Það var byggt árið 1978 og leysti af hólmi eldri torfkofa sem stóð undir efstu hjallabríkinni skammt innan Gljúfraár. Frá ómunatíð hafði gangnamannakofinn í Gljúfurleit staðið nokkru innar á Tranti á fremri bakka Geldingaár, skammt frá djúpu gili. Haustið 1929 lentu leitarmenn þar í hrakningum með hesta sem höfðu verið bundnir á streng hjá kofanum. Var þá kofinn af lagður og nýr kofi byggður á hættuminni stað við Gljúfraá árið eftir. Sá kofi dugði til 1956 að hann var rifinn vegna vatnsuppgangs. Þá var byggður síðasti kofinn úr torfi og grjóti á Gnúpverjaafrétti og reft yfir með bárujárni og torfi. Hann var notaður í 22 ár uns núverandi kofi leysti hann af hólmi. Steinar Pálsson hefur lýst því (í Árnesingi 1990) hvernig þessi síðasti torfkofi var byggður og segir eldri kofa hafa verið gerða á svipaðan hátt.

Kvaddur eftirleitarkofinn

Setrið góða lét ég laust

leit þó oft til baka

var sem hvorki vor né haust

vildu á klónni slaka.Sjálfan mig ég síðast spyr

sérðu kofann þarna?

Fækka spor um fallnar dyr

fyrri alda barna.Gesti þína gamla sel

gamla kláðavörðinn

geymi í heiðri, geymi vel

guð og fósturjörðin.Horfir allt í heimaátt

hægt er af staðnum riðið

fer að dreifast smátt og smátt

smalamanna liðið.

Eiríkur Einarsson frá Hæli. Við Geldingaá

Sprengisandsvegur (hestaslóðin) liggur skammt frá yngsta gangnamannakofanum inn yfir Gljúfraá og inn hjalla sem reyndar er talinn vera fyrir ofan Gljúfurleitina. Hann er þó raunverulega efsti hjallinn í hlíðinni og ofan við hann heitir Langahlíð. Litlu vestar er lítið en bratt fell, Fremri-Hnappalda. Næst Gljúfraá er hlíðin stöllótt og fremur um að ræða dalkinn en teljandi gljúfur að ánni. Þar eru fjórir meginstallar en verða aðeins tveir er innar dregur. Haustið 1970 var verið að rannsaka aðstæður til virkjunar Þjórsár frá Norðlingaöldu fram í farveg árinnar í Gljúfurleit. Voru boraðar tvær djúpar kjarnaholur, fyrst á suðurbakka Geldingaár og svo nokkru sunnar, skammt frá Sprengisandsvegi, um tvo km innan Gljúfraár. Þarna á litlum hjalla voru settar niður vinnubúðir og byggt yfir bortækin. Seinlega gekk að bora og hallaði mjög að jólum er fullur sigur vannst. Var þar mikið umleikis þetta haust þótt lítil ummerki sjáist nú. Uppi á brúninni er löng, flöt alda úr grágrýti er nefnist Langahlíð. Frá Lönguhlíð liggur tiltölulega sléttur basaltfláki langt til vesturs, víða klofinn af grunnum beinum sprungugiljum. Liggur vegslóðin um Lönguhlíð endilanga á milli Gljúfraár og Geldingaár og er þar víða gott hellutak.

Þegar kemur inn yfir Lönguhlíð verður fyrir lítil á og innan hennar rís lítil stakstæð alda, Innri-Hnappalda. Vestan undir henni er graslendið Innra-Hnappölduver og eru þar upptök Geldingaár. Nokkurt vatn bætist henni úr lækjum neðar en aldrei verður hún samt meira en stór lækur. Áin fellur í tæplega 40 m háum slæðufossi niður hliðina á beinu gili er fylgir sprungu er liggur N-S frá brekkubrúninni ofan við Þjórsá. Fossinn er mjög laglegur að sjá, sérstaklega fyrripart sumars eða í rigningatíð þegar vatnið breiðir úr sér um flatt bergið.

Niður með Geldingaá í Gljúfurleit eru aðeins tveir grashjallar og framan í efri hjallanum, rétt sunnan við fossinn í Geldingaá þar sem heitir á Tranti, stendur forni leitarmannakofinn sem áður var minnst á. Innan við ána og neðan við fossinn gengur fram brattur tangi og í honum er snoturt stuðlaberg með löngum súlum. Inn með tanganum rennur Þjórsá og tæplega 1 km innan við ósa Geldingaár steypist Þjórsá fram af berghafti í um 28 m háum fossi er nefnist Gljúfurleitarfoss. Er fossberinn stuðlað basaltlag sem lítið vantar á að sé grafið niður í gegn en undir er auðgræfara setbergslag úr sandsteini og völubergi. Fossinn er þverskorinn, óvenju jafn og formfagur. Einhverntíma kemur að því að áin nái að grafa sig niður úr basaltlaginu og má búast við að fossinn breytist þá hraðar.

Innan við Geldingaá er tiltölulega jafn halli fram á brún gljúfursins að Þjórsá en bratt þaðan niður að ánni. Innan Hnappöldu innri liggur slóðin um grýtta lækjarfarvegi sem eru næsta þurrir í þurrkatíð. Liggja farvegirnir til draga Hölknár sunnan við Öræfahnúk. Þar eru fjögur lítil stöðuvötn og þegar rigningar eru eða leysingar fá þau afrennsli til Hölknár en annars eru þau afrennslislaus. Graslítið er umhverfis vötnin en neðar með Hölkná er grösugt og gott sauðland. Hölkná eflist mjög úr lækjadrögum við Hölknártungu. Áin fellur niður vesturhliðina á beinu gili sem gengur eftir sprungu í berginu skáhallt inn í brúnina ofan við Þjórsá. Vatnið breiðir mikið úr sér yfir slétt setbergslag í um 40 m háum fossi. Hölkná er ekki vatnsmikil en fossinn þykir þó vera með fegurstu slæðufossum hérlendis. Er umhverfi hans og myndunaraðstæður um flest líkar slæðufossinum í Geldingaá.

Dynkur

Innan við Hölkná þrengist mjög gil Þjórsár. Ef brún gilsins er fylgt til norðurs er farið framhjá nokkrum sprungugiljum er skerast til norðurs inn í norðausturstefnu gilbrúnarinnar. Ganga þá litlir múlar fram innan við gilin. Um þrjá km innan við Hölkná er mikill stöllóttur foss í ánni, samtals 35-36 m hár. Nefnist hann Dynkur vestan ár en Búðarhálsfoss að austan. Sýnir þetta ljóslega hve vel Þjórsá skilur að afrétti Gnúpverja og Holtamanna að sitt nafnið er á fossinum hvorum megin. Meðalrennsli Þjórsár á þessum slóðum er tæplega 100 m3/sek. en í vorflóðum er vatnsmagnið margfalt. Þegar líður á haustið verður fossinn ósköp vatnslítill og missir mesta ljómann. Síritandi vatnshæðarmælir og mælikláfur voru settir upp við Þjórsá skammt innan við Geldingaá árið 1988. Mælingarnar eru gerðar austanfrá, í Búðarhálsi, svo að mælingamenn verða ekki á vegi okkar um Gljúfurleit.

Við Dynk eru tvö basaltlög í gljúfurbrúnum og hefur áin líklega verið lengi að grafa sig niður úr þeim. Segulstefna laganna bendir til að aldur þeirra sé um 900 þúsund ár. Eru þessi berglög notadrjúg til þess að rekja bergbyggingu á efra vatnasvæði Þjórsár. Hefur fossþrepið í Dynki lengi hvílt á basaltinu en undir er auðgræfara móberg og eru fossarnir nú að grafa það. Móberg af þessum aldri er algengt í Gljúfurleit og gefur til kynna ásamt setbergslögunum að fyrir milljón árum hafi afar vatnsmiklar ár runnið á þessum slóðum. Strax ofan við Dynk grynnkar gil árinnar og verður að grunnu daldragi. Helst svo allt inn að Sóleyjarhöfða þar sem sandar og aurar taka við.Höfundur er jarðfræðingur.

DYNKUR í Þjórsá, talinn aflmesti foss árinnar.

ÞRÖNGUBÁSAR, þar sem Þjórsá rennur út úr þrengslunum milli Búðarháls og Gljúfurleitar og fer að breiða úr sér við innri enda Sultartangalóns.GLJÚFURLEITARFOSS í Þjórsá er 28 metra hár og afar formfagur.

STARKATSSTEINN í Starkaðsveri.

FOSS í Hölkná breiðir úr sér yfir sléttan bergvegginn.

Ljósmyndir: Ágúst Guðmundsson. VIÐ INNRI-Skúmstungnaá í Skúmstungum. Horft yfir Sultartangalón til Heklu.