ALEKSA Buha, sem tekur við af Radovan Karadzic sem leiðtogi stjórnarflokksins í lýðveldi Bosníu-Serba, hefur verið dyggur bandamaður Karadzic og stutt andstöðu hans við friðarsamningana sem voru undirritaðir í Dayton í Bandaríkjunum í nóvember.
Nýr leiðtogi stjórnarflokks serbneska lýðveldisins í Bosníu Harðlínumaður og

bandamaður Karadzic

Belgrad. Reuter.

ALEKSA Buha, sem tekur við af Radovan Karadzic sem leiðtogi stjórnarflokksins í lýðveldi Bosníu-Serba, hefur verið dyggur bandamaður Karadzic og stutt andstöðu hans við friðarsamningana sem voru undirritaðir í Dayton í Bandaríkjunum í nóvember.

Buha hefur verið utanríkisráðherra serbneska lýðveldisins og varð leiðtogi stjórnarflokksins þegar Slobodan Milosevic, forseti Serbíu, og Richard Holbrooke, sendimaður Bandaríkjastjórnar, knúðu Karadzic til að láta af embætti. Buha og starfandi forseti Bosníu-Serba, Biljana Plavsic, verða við völd fram yfir kosningarnar í Bosníu í september sem múslimar höfðu hótað að hunsa ef Karadzic færi ekki frá.

Stefnan heldur velli

Leiðtogar Vesturlanda eru ánægðir með að tilraunir þeirra til að koma Karadzic frá skuli loks hafa tekist eftir sex mánaða streð en stefna hans heldur þó velli. Plavsic og Buha hafa verið á meðal nánustu samstarfsmanna Karadzic frá því stríðið í Bosníu hófst árið 1992.

Á bak við þau stendur Momcilo Krajisnik, forseti þings Bosníu- Serba, sem var helsti samningamaður Serba í viðræðunum við vestræna milligöngumenn eftir að þeir tóku að hunsa Karadzic. Krajisnik gegndi mikilvægu hlutverki í viðræðunum við Holbrooke um afsögn Karadzic og skrifaði undir afsagnarskjalið.

Krajisnik er talin hafa mun meiri áhrif í Pale, höfuðvígi Bosníu-Serba, en Buha og Plavsic. Hann er talinn skarpasti stjórnmálamaður Bosníu-Serba, er sagður hafa stjórnað stríðsrekstri Serba á bak við tjöldin meðan Karadzic stóð í sviðsljósinu og var gerður ábyrgur fyrir stríðsglæpunum.

Prófessor í þýskri heimspeki

Buha er 56 ára og studdi ávallt Karadzic þrátt fyrir ásakanir um stríðsglæpi og gegndarlausa spillingu og harðvítuga valdabaráttu við herinn og bandamenn ráðamanna í Belgrad.

Sem sendimaður serbneska lýðveldisins, sem naut þá ekki alþjóðlegrar viðurkenningar, sat Buha fjölmargar friðarráðstefnur þar sem Karadzic neitaði að láta landsvæði af hendi til að ná samkomulagi um frið. Lýðveldið hefur nú verið viðurkennt sem hluti af bosníska ríkinu ásamt sambandsríki múslima og Króata.

Buha var prófessor í þýskri heimspeki við Sarajevo-háskóla og á meðal serbneskra þjjóðernissinna sem dreymdi um að stofna serbneskt ríki í Bosníu. Hann var á meðal stofnenda Serbneska lýðræðisflokksins, sem síðar lagði blessun sína yfir svokallaðar "þjóðernishreinsanir" þar sem múslimar og Króatar voru drepnir eða hraktir á brott af landsvæðum sem Serbar náðu á sitt vald í stríðinu.

Buha hafði sömu skoðanir og Karadzic um Sarajevo, sem serbnesku hersveitirnar sátu um í 3 ár þar til umsátrinu var aflétt samkvæmt friðarsamningunum. Þegar Buha fékk ekki að taka þátt í friðarviðræðunum í Dayton í Ohio í nóvember hélt hann aftur til Bosníu og gagnrýndi Milosevic Serbíuforseta harðlega fyrir að samþykkja að hverfi Serba í Sarajevo yrðu undir yfirráðum Bosníustjórnar.

Ómöguleg sambúð

Í skrifum sínum og ræðum hefur Buha lagt ríka áherslu á að Serbar, sem eru í réttrúnarkirkjunni, múslimar og kaþólskir Króatar geti ekki búið saman í einu ríki í Bosníu. Hann lýsir sambúð þessara þjóða í Bosníu sem sögulegu slysi sem Tyrkir eigi sök á. "Segja má að þjóðirnar þrjár ­ Serbar, múslimar og Króatar ­ hafi aðeins getað lifað saman í sátt og samlyndi þegar Bosnía hefur verið hernumin af útlendingum," skrifaði hann.

Ólíkt Karadzic talar Buha ekki ensku og þykir mjög alvarlegur þegar hann kemur fram í sjónvarpi. Hann talar um málstað Serba í flóknum setningum sem minna á fræðiritgerðir hans um þýska heimspekinginn Georg Hegel.

Reuter ALEKSA Buha, sem tekur við sem leiðtogi stjórnarflokks Bosníu- Serba af Radovan Karadzic, ræðir við Biljana Plavsic, starfandi forseta serbneska lýðveldisins í Bosníu. Þau verða við völd fram yfir kosningar í Bosníu í september eftir afsögn Karadzic í gær.