Format fyrir uppskriftir Matur og matgerð
Format fyrir uppskriftir Matur og matgerð

Íslenskt gæðablómkál

Íslenskt blómkál kemur um hásumarið, segir Kristín Gestsdóttir , sem gefur okkur einfaldar uppskriftir að blómkálsréttum.

SUMARIÐ er í algleymingi og nýsprottið íslenskt grænmeti streymir inn frá garðyrkjubændum. Nú getum við glaðst yfir blómkáli sem fyllir grænmetishillur verslana. Við skulum borða mikið af því og fylla okkur af vítamíni. Blómkál er mjög gott með öllu, bæði hrátt og soðið. Það er stuttur sá tími sem íslenskt grænmeti er fáanlegt en það er mun betra en hið útlenda enda ferskara og minna meðhöndlað þegar við fáum það. Það er oft nokkuð dýrt í byrjun en fellur fljótt í verði þegar framboð eykst, en hið innflutta hefur líka verið dýrt undanfarið. Þeir sem rækta kál sjálfir uppgötva að ekki er hægt að borða allt kálið, það sprettur svo fljótt. Þá er um að gera að frysta það. Best til frystingar er kál sem er þétt í sér, en líklegt er að svo sé um kálið núna a.m.k. hér sunnanlands í þeirri einmuna blíðu sem hér hefur ríkt. Þegar blómkál er fryst er best að skipta því í frekar stórar hríslur, leggja í sjóðandi vatn og sjóða í 2­3 mínútur og kæla síðan undir rennandi vatni, láta síðan leka vel af því, setja í plastpoka, sjúga úr loftið með sogröri og binda fyrir. Það er þó fleira en grænmetið sem segir okkur að nú sé hásumar. Fuglarnir hafa komið upp ungum sínum, þrösturinn í þriðja sinn. Hrossagaukur gerði sér hreiður í sinubrúski við litla kálgarðinn minn um 15 m frá eldhúsdyrunum. Fyrst sætti hann sig ekki við okkur íbúana en linnti fljótt látum, þegar hann sá að öllu var óhætt. Dag nokkurn rölti þriggja ára stúlka, sem var í heimsókn, til hans og settist á hækjur sínar við hreiðrið. Hrossagauksmamman færði sig bara út á hreiðurbarminn, leit stolt á telpuna með svip sem sagði: "Þetta eru eggin mín, bráðum koma ungar úr þeim, er ég ekki rík?" Þegar telpan hafði satt forvitni sína og hvarf á braut settist hrossagaukurinn aftur á eggin.

Blómkál með ýsu

500 wg blómkál

1 dl vatn

1/4 tsk salt

500 g ýsuflök

1 msk sítrónusafi (má sleppa)

3/4 tsk salt

nýmalaður pipar

1 msk hreinn rjómaostur

e.t.v. sósujafnari

1. Skolið kálið vel og skiptið í hríslur. Leggið á pönnu, hellið vatninu á pönnuna, stráið salti yfir kálið, setjið hlemm á og sjóðið við hægan hita í 3 mínútur.

2. Hreinsið bein úr ýsuflakinu og roðdragið, skerið í bita og hellið yfir sítrónusafa, stráið á salti og pipar, leggið með kálinu á pönnuna þegar það hefur soðið í 3 mínútur og sjóðið undir hlemmi í um 7 mínútur eða þar til fiskurinn er soðinn.

3. Hallið pönnunni örlítið og hrærið rjómaostinn út í soðið. Einnig má setja sósujafnara út í.

Meðlæti: Soðnar kartöflur eða pasta og salat.

Blómkálspönnukaka með hakki

Um 750 g blómál

1 msk matarolía

1/4 tsk salt

750 g blandað hakk, t.d. nauta- og svínahakk eða það hakk sem ykkur hentar

1 tsk. Season All

1/4-1/2 tsk. salt

1 1/2 dl brauðrasp

2 lítil egg

1. Þvoið blómkálið, skiptið því í litlar hríslur. Setjið matarolíu á pönnu, smyrjið henni um hana, setjið blómkálið á pönnuna, hafið lítinn hita og sjóðið undir hlemmi í 3 mínútur.

2. Hrærið raspið út í eggin, setjið saman við hakkið ásamt Season All og salti. Hrærið vel saman, setjið á disk og þjappið saman ofan á diskinn þannig að þar myndist þétt kaka. Leggið hana varlega ofan á blómkálið, hafið áfram lítinn hita og sjóðið þannig í um 7 mínútur.

3. Bleytið disk, leggið hann ofan á hakkið á pönnunni, snúið pönnunni snögglega við svo að farspönnukakan lendi í heilu lagi á diskinum. Smeygið henni síðan á pönnuna aftur, aukið hitann örlítið og steikið í 10-15 mínútur. Stingið hnífi í pönnukökuna til að gæta að hvort farsið er soðið í gegn.

Meðlæti: Pakkasósa, hella má soðinu sem myndast á pönnunni út í sósuna, soðnar kartöflur eða pasta með Parmesanosti.