SVIÐIÐ er Caracalla í Róm. Áhorfendur hafa þurft að fórna ýmsu til að skrapa saman fyrir miðanum, sem kostar um 45.000 ísl. kr. en sagt er að tónlistarmennirnir þrír sem koma fram, þiggi hver um 4,5 milljónir fyrir kvöldið.


HVERJAR ERU SÖNGGYÐJURNAR ÞRJÁR?

SVIÐIÐ er Caracalla í Róm. Áhorfendur hafa þurft að fórna ýmsu til að skrapa saman fyrir miðanum, sem kostar um 45.000 ísl. kr. en sagt er að tónlistarmennirnir þrír sem koma fram, þiggi hver um 4,5 milljónir fyrir kvöldið. Sjón varpsrétturinn hefur verið seldur til 64 landa og búist er við að allt að einn milljarður manna fylgist með þegar Zubin Metha lyftir tónsprotanum og þrjár þekktustu sópransöngkonur heims stíga á svið, þær Jessye Norman, Kiri Te Kanawa og Kathleen Battle.

Þessi hefur ekki orðið raunin en óhætt er að fullyrða að slíkur atburður myndi án efa draga að sér gífurlega athygli. Hvort það er raunhæft að telja að af honum geti orðið er svo annað mál, en fyrir þremur árum lögðu nokkrir bjartsýnismenn drög að svipuðum tónleikum og lýst er að ofan, að sögn markaðsstjóra sígildu deildar Warner-útgáfunnar. Hins vegar tókst ekki að ná samningum við söngkonurnar og því varð ekki af kvenkynsútgáfu af tenórunum þremur, sem hafa slegið svo rækilega í gegn.

Hverjar yrðu fyrir valinu?

Sígildi tónlistarheimurinn iðar jafnan af sögusögnum um að nú sé komið að því að kalla helstu gyðjur sígildrar tónlistar saman. Það hefur ekki tekist og þykir mörgum furða, þar sem útgáfufyrirtækin sem söngvararnir eru á mála hjá, miða að því að fá sem mesta og besta kynningu og hvað yrði betur til þess fallið en slíkir stórtónleikar?

Paul Moseley, markaðsstjóri Decca-útgáfunnar, telur að ein aðalástæða þess að ekki hefur orðið af stórtónleikum sópransöngkvenna sé sú að ekki liggi fyrir hverjar eigi að koma fram á slíkum tónleikum. Ólíkt því sem gerist í tenórheiminum, þar sem enginn vafi sé á því hverjir séu mestir og bestir, þá verði menn að byrja á því að spyrja sig hverjar séu gyðjurnar, dívurnar?

Díva er sú sópransöngkona sem hefur dramatíska og svo sérstæða rödd, að hún þekkist um leið og söngkonan hefur upp raust sína. Þetta er mat Jeremy Caulton, yfirmanns Sony Classics. Hann segir Maríu Callas hafa verið hina einu sönnu sönggyðju þrátt fyrir að hún hafi ekki haft fegurstu söngröddina. Helsti keppinautur hennar, Renata Tebaldi, söng yndislega en rödd hennar heillaði áheyrendur ekki á sama hátt og rödd Callas," segir Caulton.

Það var ekki aðeins röddin sem átti sinn þátt í að skapa frægð Callas, hún hafði einstakt lag á því að sveipa líf sitt ákveðinni dulúð. Einna þekktast var ástarævintýri hennar með gríska skipakónginum Onassis, sem lét hana sigla sinn sjó þegar hann hitti Jackie Kennedy. Hámarki náði dulúðin er Callas lést úr hjartaáfalli aðeins 54 ára gömul. Hin sanna sönggyðja verður að eiga dramatískt lífshlaup og hegða sér eins og hún sé ekki að öllu leyti þessa heims.

Erfiðar söngkonur

Og dívan má gjarnan vera erfið" og kröfuhörð. Callas olli mörgum tónleikahöldurum hugarangri með því að hætta við tónleika á síðustu stundu. Nefna má 19. aldar söngkonuna Nellie Melba, sem hleypti engum inn í búningsklefann sinn þó að hún væri erlendis í langan tíma. Eða Montserrat Caballé, sem útgáfustjóri EMI bað um að fara í megrun. Nei, ég held ég borði bara meira," var svarið. Jessye Norman, sem er ákaflega viðkvæm fyrir öllum athugasemdum um vaxtarlag sitt, hótaði á síðasta ári að fara í mál við Classic CD tímaritið sem hafði birt örlitla klausu um að Norman hefði fest sig í dyrum vegna umfangsins. Þá þykir það hægara sagt en gert að starfa með Kathleen Battle. Þegar hún sagði upp samningi sínum við Metropolitan-óperuna í New York, létu nokkrir söngvarar og hljóðfæraleikarar við húsið prenta boli þar sem á stóð I survived the Battle" (Ég lifði orrustuna/Battle af).

Ekki eru þó allar sópransöngkonur með mikið skap. Kiri Te Kanawa þykir einkar blátt áfram og samvinnuþýð og viljug til að auglýsa hinar ólíklegustu vörur. Hefur hún þess vegna verið kölluð drottning Rolex- úranna og auglýsingaskiltanna.

Sú unga söngkona, sem teljast verður líklegust til að verða sönggyðja á heimsmælikvarða, er rúmenska sópransöngkonan Angela Gheorghiu, sem sló í gegn svo um munaði í hlutverki Violettu í La Traviata í Covent Garden. Þá hefur nýlegt hjónaband hennar og tenórsöngvarans Roberto Alagna, hlotið mikla umfjöllun. Hún er þó enn of ung til að hafa skapað sér traustan sess.

Ýmis ljón í veginum

En hvers vegna er svo erfitt að koma sér saman um það hvaða þrjár sópransöngkonur standa fremstar í flokki, fyrst það er hægt þegar tenórarnir eru annars vegar? Caulton telur ástæðuna vera þá að ítalska tenórröddin sé svo sjaldgæf að eftirsóknin eftir henni sé í hlutfalli við það. Þá hafi það ekki verið nein tilviljun að tenórarnir þrír hafi sungið í fyrsta sinn saman í tengslum við íþróttakappleik. Þegar þeir syngi saman fái fólk á tilfinninguna að þar fari góðir félagar og vinir en það sé ekki uppi á teningunum þegar sópransöngkonur séu annars vegar. Þá sé mun einfaldara að setja saman efnisskrá fyrir tenóra en sópransöngkonur. Þeim standi ekkert Nessun Dorma" til boða.

Og þar sem ítalska tenórröddin sé svo sjaldgæf, þurfi þeir ekki að hafa áhyggjur af því að keppinautar séu sífellt að reyna að ryðja þeim úr vegi. Góðar sópransöngkonur viti hins vegar fullvel að staða þeirra sé ekki eins trygg og tenóranna og að fjöldinn allur af efnilegum söngkonum bíði þess eins og hlaupa í skarðið.

Þrátt fyrir allt sem að framan er talið, er nær fullvíst að einhverjum góðum manni mun fyrr eða síðar takast að kalla saman þrjár sópransöngkonur og setja upp stórtónleika. Það er hins vegar jafnvíst að hann verður hundskammaður fyrir að velja ekki réttu söngkonurnar. Einu gildir hversu margir eru spurðir um það hvaða söngkona stendur fremst í flokki, svörin eru jafnmörg og þeir sem svara.



Byggt á The Sunday Times

Jessye Norman

Kiri Te Kanawa

Kathleen Battle

Menn verða að byrja á því að spyrja sig hverjar séu gyðjurnar, dívurnar?