"HEIÐINGJAR eru heiðnir, af því að þeir dýrka skurðgoð, sem gerð eru af manna höndum. En í kristnum löndum fann ég þó verri heiðni. Þar dýrka menn sjálfa sig."Sadhu Sundar shing. Trúarbrögð og vísindi Allir geta verið sammála um það, að ekki er til samfélag án einhverra trúarbragða.
Trúin, vísindin og maðurinn

Gunnari K. Þórðarsyni:

"HEIÐINGJAR eru heiðnir, af því að þeir dýrka skurðgoð, sem gerð eru af manna höndum. En í kristnum löndum fann ég þó verri heiðni. Þar dýrka menn sjálfa sig." Sadhu Sundar shing.

Trúarbrögð og vísindi

Allir geta verið sammála um það, að ekki er til samfélag án einhverra trúarbragða. Í gegnum aldirnar hafa trúarbrögðin mótað siði og venjur allra þjóða, og hafa veitt þeim eins konar siðferðilegt aðhald. Því hafa lög, reglur og siðaboð mótast af þeim og eru samfélögin eins og dauft og óskýrt bergmál hinna ströngu og "fullkomnu" boða trúarbragðanna.

Hinn frægi heimspekingur Friedrich Nietzsche sagði: "Guð er dauður. Við höfum drepið hann." Getur verið að með brjálæðislegri framþróun í vísindum og stóraukinni velmegun hér á Vesturlöndum, hafi mannfólkið misst þörfina fyrir trúarbrögð? Við getum hægt á öldrunarferlinu, við getum haldið lífinu í annars löngu dánu fólki um óákveðinn tíma. Við getum meira að segja ráðið hvers konar fóstur við viljum láta dafna í kviði móður. Í staðinn fyrir að segja, í upphafi skapaði Guð himin og jörð, segja vísindamenn, í upphafi var RNA og RNA var hjá Guði. Sálfræðingar og félagsfræðingar grafa undan trúarbrögðunum og útskýra lífið og tilveruna út frá uppeldis- og erfðafræðilegum þáttum og eru þessi fræði að verða útbreiddustu trúarbrögð Vesturlanda. Ef t.d. einhver gefur einhverjum á kjaftinn, ef einhver gengur asnalega eða ef einhver fer að sleikja ljósastaur í miðjum samræðum, þá er sagt, já, hann er alveg eins og pabbi sinn, eða þá, hann var alinn upp svona, drengurinn.

Hver er grunnur vísindanna?

Ég hef heyrt félagsfræðing ganga svo langt og það í kennslutíma í fjölbrautarskóla, að kenna og halda því fram, að mennirnir hafi skapað Guð. Reyndar tók hann það fram, að hann væri ekki þar með að segja að Guð væri ekki til, en auðvitað getur það ekki verið á báða vegu. Annað hvort skapaði Guð manninn, maðurinn Guð, eða hvorugur báða . . . Hér er ég ekki að segja að vestræn vísindi séu einskis nýt. Alls ekki. En mennirnir eru svo uppteknir af því að sigra heiminn og koma sér í guðatölu, að þeir hafa gleymt hvað kemur fyrst og hvað kemur seinast. Þeir hafa gleymt á hvaða hornsteini þeir byggja sín fræði, en án grunnsins er byggingin reist aðeins til þess að hún hrynji aftur niður.

Þessi grunnur, þessi hornsteinn er grundvallarlífsviðhorf og heimspeki einstaklinga og þjóða. Þessi innsýn í lífið hefur þróast með manninum frá frumbernsku mannkynsins. Þessi innsýn er trúin. Hún þroskast og lagar sig að aðstæðum og hefur þann tilgang að útskýra lífið og tilveruna og gefa manninum hugmynd um það sem ekki er hægt að sanna með neinum rökum eða fræðum. Trúin gefur manninum sannleikann svo umbúðalaust, að hann skilur hann oft ekki, eins og maðurinn sem sér ekki skóginn fyrir trjánum. Maðurinn hefur því gripið til þeirra ráða að útskýra lífið og lögmál þess eftir sínu eigin höfði. En hversu lengi sem hann leitar að sannleikanum með því að mæla stokka og steina, þá er hann þó svo langt frá honum, að það tekur engu tali. Sannleikurinn hefur miklu meira með tilfinningu að gera en hugsun. Þegar þú sannfærist þá verður til tilfinning löngu á undan hugsuninni og sannfæringin er þinn sannleikur og ekkert annað, fyrr en þú ert búinn að skilja nýjar dýptir í trúnni. Spurðu vísindamann um leyndardóma lífsins og spurninga sem skipta í raun máli og athugaðu hvers konar svar þú færð. Spurðu spurninga sem allir eru hættir að spyrja nema yngstu börnin og einhverjir eilífðar-hippar. Hvað er Guð? Hvað er dauði? Hvað er ást og hatur? Heimurinn kemur fyrir börnin umbúðalaus og sannur og þess vegna sjá þau nægilega glöggt til að spyrja bestu spurninganna og það eina sem við segjum þeim, ef við svörum þeim á annað borð, er "þú veist það þegar þú verður eldri" svo deyja hinir eldri, skilja hin yngri eftir engu vísari og næsta kynslóð tekur við.

Hugurinn, trúin og vísindin

Hinn takmarkaði hugur mannsins skynjar aðeins það sem er honum næst og ef hjartað hans er ekki á réttum stað hefur hann ekkert til að miða við nema það sem hann sér og heyrir. Ég er t.d. viss um að meirihluti Íslendinga telur sig vera heiðarlegan og sannan, en það eru þeir fæstir. Því það eina sem þeir miða við er þeirra eigin siðferðis- og réttlætiskennd. Þeir trúa því ekki á neitt betra en sig sjálfan og afsaka þeir illgjörðir sínar fyrir Guði og mönnum með því að einhvern tíma áður hafi verið brotið á þeim.

Eins og ég hef sagt áður er ég ekki að fordæma vísindin, heldur miklu frekar hugarfarið á bak við þau. Vísindin, fróðleikurinn og velferðin væri ekki til staðar nema fyrir gjafmildi Guðs, en framfarirnar geta verið okkur hættulegar ef við byggjum þær ekki á góðum og traustum grunni. Þær eru okkur hættulegar ef við hættum ekki að trúa á og dýrka okkur sjálf og sköpunarverk okkar. Þær eru hættulegar ef við höfum ekki hjarta okkar og trú á betri stað, í betri heimi en við búum í.

GUNNAR K. ÞÓRÐARSON,

Múlavegi 15, Seyðisfirði.