Á ÚLFLJÓTSVATNI var allt að verða klárt fyrir Landsmót skáta þegar Morgunblaðsfólk leit þar við í gærmorgun. Smiðir voru að leggja síðustu hönd á tíu metra háan klifur- og sigturn, þann eina sinnar tegundar á Íslandi. Krakkar úr Vinnuskóla Reykjavíkur voru í óða önn að slá, raka og lagfæra stíga, og vatns- og rafmagnslagnir voru komnar á sinn stað.
Von á 5.000 manns á landsmót skáta 1996 sem er að hefjast á Úlfljótsvatni Í fótspor víkinga

Á ÚLFLJÓTSVATNI var allt að verða klárt fyrir Landsmót skáta þegar Morgunblaðsfólk leit þar við í gærmorgun. Smiðir voru að leggja síðustu hönd á tíu metra háan klifur- og sigturn, þann eina sinnar tegundar á Íslandi. Krakkar úr Vinnuskóla Reykjavíkur voru í óða önn að slá, raka og lagfæra stíga, og vatns- og rafmagnslagnir voru komnar á sinn stað. Undirbúningur mótsins hefur staðið yfir lengi og mikill fjöldi fólks komið að honum, flestir í sjálfboðavinnu.

Þó að mótið verði ekki formlega sett fyrr en annað kvöld, koma flestir skátarnir í dag og slá upp tjaldbúðum sínum. Fyrstu rúturnar koma um kl. 11 og síðan munu þær tínast á staðinn á hálftímafresti ­ til að forðast umferðaröngþveiti.

Á morgun koma svo enn fleiri og áfram verður haldið með tjaldbúðirnar, auk þess sem mótsgestum gefst kostur á að velja milli fjölmargra dagskráratriða til að skrá sig í. Þetta verður í fyrsta sinn sem tölvubúnaður er notaður við skráningar á landsmóti og mun það að sögn Víkings Eiríkssonar mótsstjóra auðvelda mjög alla yfirsýn.

Þannig sé til dæmis hægt að fylgjast með því að allir taki þátt í einhverri dagskrá.

Dagskráin er fjölbreytt og ættu allir skátar, stórir sem smáir, að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Víkingalíf, vatnasafarí, fjallamaraþon, fíkniefnafræðsla, flekasmíði, hellaskoðun, hofbygging, hjálparsveitakynning, gróðursetning, sundferðir, silungsveiði ­ þannig mætti lengi telja.

Séð verður fyrir því að skátarnir hafi nóg að bíta og brenna og munu fimmtán manns verða í fullu starfi allan tímann við matarúthlutun. Öllum mat er skipt niður í flokkseiningar fyrir átta manna flokka og fer innihald matarskammtanna nokkuð eftir því í hvaða verkefnum flokkurinn er hverju sinni. Flokkur sem er á leið í gönguferð fær samlokur og í þær má t.d. bæta villtum kryddjurtum sem á vegi manna verða á fjöllum. Þeir sem eru á matreiðslunámskeiði fá t.d. lambakjöt til að grilla eða moðsjóða. Fyrir þá sem taka þátt í vatnasafaríi að morgni er séð fyrir heitri máltíð í hádegi til að hlýja mannskapnum eftir volk í vatninu. Skátum gefst einnig möguleiki á að veiða sér til matar, nánar tiltekið lax sem komið verður með í kerjum á mótssvæðið. Hann verður veiddur með berum höndum og matreiddur að hætti víkinga.

Hápunktur mótsins verður á miðvikudaginn, en þá er Óðinsdagur samkvæmt tímatali víkinganna. Dagurinn verður tileinkaður alþjóðlegu skátastarfi og munu erlendir skátar kynna sín þjóðlönd og skátastarfið þar og íslensku skátarnir kynna sína heimabyggð og sérkenni hennar. Forseti Íslands, frú Vigdís Finnbogadóttir, kemur í opinbera heimsókn síðdegis og spjallar við skáta. Einnig verður í gangi fjölbreytt íþróttadagskrá, landnámsleikur og ýmsar uppákomur. Tveir íslenskir víkingar etja kappi við tvo af sterkustu mönnum heims og um kvöldið verður slegið upp víkingadansleik.

Útvarpsstöðin Bergmál verður starfrækt alla mótsdagana og er henni ætlað að vera eins konar bergmál af því sem fram fer á mótinu, að sögn Guðmundar Jónssonar, útvarpsstjóra, sem hefur komið sér fyrir í litlum skúr með öllum nauðsynlegustu tækjum til útvarpsrekstrar. Megintilgangur útvarpsstöðvarinnar er að miðla upplýsingum til mótsgesta.

Einnig verður gefið út mótsblað á hverjum degi og auk þess verða starfandi 23 fréttaritarar sem senda héraðsfréttablöðum í sinni heimabyggð fréttir af landsmótinu.

Morgunblaðið/RAX GUÐMUNDUR Jónsson, útvarpsstjóri Bergmáls, og Víking Eiríksson, mótsstjóri, uppi í klifurturninum. Úlfljótsvatn í baksýn.

MÓTSHLIÐIÐ er nú komið á sinn stað og minnir á heim víkinganna.

ÞORSTEINN Pétursson, betur þekktur undir nafninu Steini Pé, félagsforingi skátafélagsins Klakks á Akureyri, kom hjólandi yfir Kjöl og varð fyrstur til að tjalda á Úlfljótsvatni.

HANN er hvorki meira né minna en tíu metra hár, þessi glæsilegi klifur- og sigturn.