Sú tegund alþýðlegrar fræðimennsku, sem kalla mætti "samanburðarfræði", gerist nú fyrirferðarmeiri í umræðu um menningarástand og þjóðarhag hér á landi. Reyndar hafa opinberar stofnanir einnig látið þessi fræði til sín taka. Umfangsmesta verkefni fræðanna er samanburður á lífskjörum Íslendinga og annarra þjóða, einkum Dana.

SAMAN-

BURÐARFRÆÐI

Sú tegund alþýðlegrar fræði mennsku, sem kalla mætti "samanburðarfræði", gerist nú fyrirferðarmeiri í umræðu um menningarástand og þjóðarhag hér á landi. Reyndar hafa opinberar stofnanir einnig látið þessi fræði til sín taka. Umfangsmesta verkefni fræðanna er samanburður á lífskjörum Íslendinga og annarra þjóða, einkum Dana.

Ekki veit ég hversu oft er búið að bera saman lífskjör Íslendinga og Dana hin síðari ár, m.a. með því að leggja til grundvallar reynslusögur ferðamanna og vitnisburði einstaklinga, sem oftar en ekki eru hinar viðteknu rannsóknaraðferðir. Slíkur samanburður hefur verið gerður í lotum um margra ára skeið undir ýmsum heitum af einu eða öðru tilefni. En markmið þessa endurtekna samanburðar er ævinlega eitt og hið sama, að sönnuð verði sú fyrirframskoðun margra íslenskra þjóðfélagsgagnrýnenda, að Íslendingar búi við verri lífskjör, minni jöfnuð og mannréttindi en fólk í öðrum löndum. Íslensk þjóð á að vera, að þeirra áliti, þrautpínd af vonsku samfélagsins, sjálfrar þjóðfélagsgerðarinnar, sem menn segja þá að sé svo miklu betri annars staðar. Stendur þá ekki á öruggum sönnunum og traustum heimildum.

Í þessum fræðum þykir vandlítið að sanna fyrirframskoðanir kröfugerðarmanna í öllum starfsstéttum á Íslandi um góðu kjörin í útlandinu miðað við eymdina á Íslandi. Þessar sannanir eru keyrðar ofan í blaðalesendur, útvarpshlustendur og sjónvarpsáhorfendur, svo þjóðin öll kemst varla hjá því að trúa því sem sagt er, að hér búi þjóð við slíka eymd og áþján að engu sé líkt. Þetta virðist vekja mikinn áhuga á ritstjórnum fjölmiðlanna, enda hefur þeim borist frábært umræðuefni, sem hægt er að teygja úr tímunum saman með hinum fjölbreyttasta birtingarhætti og útleggingum, sem áður en lýkur eru orðnar svo ósamhljóða að það eitt leiðir til þess að endurtaka þarf samanburðinn enn og aftur. Hefur þessi umræðuákafi allur orðið til þess að fólk þorir ekki að trúa eigin dómgreind eða því sem það sér með eigin augum um ástand sinnar eigin þjóðar.

En þrátt fyrir alla viðleitnina til þess að sanna að eymdarkjör séu á Íslandi miðað við önnur lönd verður lítið úr þegar horft er á heildarmyndina. Þetta kemur skýrt í ljós þegar lesin er skýrsla Þjóðhagsstofnunar um þetta efni, lögð fram á Alþingi í vor. Skýrslan fjallar að verulegu leyti um samanburð á lífskjörum á Íslandi og í Danmörku, en kemur víðar við. Eykur það gildi skýrslunnar. Gerð er grein fyrir því að lífskjarasamanburður milli landa sé flókið verk og vandasamt. Allrar varfærni er gætt í dómum um þau atriði sem saman eru borin. Þó er fullyre að skýrslan "sýni meginlínur á Íslandi í samanburði við önnur lönd". Þær "sýna annars vegar að hagsæld hér á landi er á svipuðu stigi og í þeim löndum sem hún er mest og hins vegar að Íslendingar hafa meira fyrir því að afla gæðanna en þær þjóðir sem eru á áþekku hagsældarstigi".

M.ö.o.: Skýrsla Þjóðhagsstofnunar leiðir það í ljós að Íslendingar búa við mikla sýnilega hagsæld. Hins vegar er ýmsum aðstæðum á vinnumarkaði svo háttað hér á landi að fólk þarf að vinna langan dag til þess að ná þeim tekjum sem hin sýnilega hagsæld kostar. Ég fullyrði að þessi niðurstaða er gamalkunn. Langur vinnudagur hefur verið einkenni á íslensku þjóðlífi um langan aldur. Miklu minna er vitað um ástæðu þess að slíkt vinnulag hefur orðið svo rótfast sem raun ber vitni. Ef langt er horft má e.t.v. rekja þetta til eðlis megin atvinnuveganna eins og þeir voru áður fyrr, stórlega háðir náttúruöflum og árstíðum. Hins vegar þarfnast það skýringar að þetta vinnufyrirkomulag hefur haldist, þótt þjóðfélagsgerðin hafi gerbreyst fyrir fjölbreytni atvinnuþróunar, sem sífellt hefur verið að fjarlægjast það landbúnaðar- og fiskveiðisamfélag sem hér var fyrr meir. Á Íslandi er nú í höfuðatriðum sams konar iðnaðar-, þjónustu- og kaupsýslusamfélagsgerð sem í öðrum þróuðum, vestrænum ríkjum. En af einhverjum ástæðum hefur legið utangarðs í þessari atvinnu- og starfsgreinaþróun að skipuleggja vinnutíma og haga kaupgjaldi að hætti þróaðra iðnaðarsamfélaga. Og hvernig stendur á því?

Ekki legg ég í að andmæla þeirri kenningu sem uppi er að framleiðni íslenskra atvinnuvega sé á lágu stigi. Ef svo er, þá snýr það að atvinnurekendum að bæta fyrir þær syndir. Hins vegar er full ástæða til að ætla að launþegahreyfingin hafi sáralítið haft fram að færa um að koma á raunhæfri vinnutímastyttingu, enda fjarri því að búið sé að uppræta þau viðhorf hjá launafólki að eftirvinna sé kjarabót og allt tal um breytingar í því efni sé lævísleg aðferð til launalækkunar. Óttinn við vinnutímastyttingu er svo inngróinn í íslenska launþegastétt, að hann er nánst arfgengur, flyst frá kynslóð til kynslóðar. Þessi ótti er að líkindum samverkandi ástæða fyrir því að löngum vinnutíma er viðhaldið og ekki forsvaranlega að því unnið að hækka dagvinnulaun.

Það er því eitt af viðfangsefnum vinnumarkaðarins að uppræta þessi grónu viðhorf um að eftirvinna sé kjarabót. Forustumenn launþega eiga að gangast við þessari fatheldni umbjóðenda sinna við ímyndað kjaraöryggi í þessu formi kaupgreiðslna, enda ekkert nema þráhyggja. Atvinnurekendum ber ekki síður að leggja þessu lið af fullum heilindum. Þeir þurfa að sanna það fyrir launafólki að þeir vilji stytta vinnutíamann og fullvissa það um að það fái full laun fyrir átta stunda vinnudag. Íslendingar eru dugnaðrfólk til vinnu og eiga að fá að njóta þess með skilvirkari tilhögun vinnunnar.

En ef Íslendingum tekst að lokum að ná því marki annarra velmegunarþjóða, að dagvinnulaun dugi til framfærslu, ætti líka að vera hægt að gera þá kröfu um lífsmátann á Íslandi að hann sé í samræmi við lifnaðarhætti launafólks í þeim löndum sem menn eru sífellt að bera sig saman við. Sannleikurinn er sá að launþegar í öðrum löndum, verkafólk og millistéttarmenn, gera að mörgu leyti allt aðrar kröfur til lifnaðarhátta en gerist hér á landi. Þeir verja tekjum sínum á allt annan veg en mörgum Íslendingi er tamt. Íslendingar (í öllum starfsstéttum) hika ekki við að lifa um efni fram, eins og best sést á skuldastöðu heimilanna, enda eitt afbrigði íslenskrar þráhyggju í lifnaðarháttum, að sæmd liggi við að hafa nóg í kringum sig af efnisgæðum af öllu tagi. Samanburðarfræðin fæst lítið við þessa tegund lífsmáta og kröfugerðar. Skýrsla Þjóðhagsstofnunar, sem fyrr er getið, gefur þó fullt tilefni til þess.

Skýrslan upplýsir m.a. að meðalstærð íbúða er hvergi meiri en á Íslandi. Í Danmörku býr fólk við mikil þrengsli og misjafnan húsakost. Svo er einnig í öðrum Evrópulöndum. Talið er að íslenskar íbúðir séu að meðaltali 50% stærri en í löndum Evrópusambandsins. Bifreiðaeign er miklu meiri á Íslandi en í Danmörku, enda óvíða í heiminum önnur eins bílamergð miðað við höfðatölu sem hér á landi. Hefur oft verið fullyrt að hvegi í veröldinni sé að finna hærri útgjöld vegna heimilisbíla en á Íslandi. Nú má vel vera að finna megi trúlegar skýringar á ofureyðslu Íslendinga í húsnæði og bíla, en yfirleitt hafa slíkar skýringar reynst léleg afsökun og fyrirsláttur. Ætli hitt sé ekki sönnu nær, sem ýmsir siðfræðingar hafa bent á, að Íslendingar séu agalitlir í fjármálum og kunni sér ekki hóf í lifnaðarháttum. Íslendinga skortir ekki dugnað, þeir víla ekki fyrir sér að þræla sér út fyrir efnisgæðin sem þeir girnast, en einbeita sér minna að skynsamlegri vinnutilhögun, t.a.m. hóflegum vinnudegi, og meta lítils hinar klassísku dygðir alþýðufólks, smáborgara og einyrkja að fara vel með aflafé sitt og skulda ekki meira en greiðslugetan þolir.

Hvað sem öðrum samanburði líður má fullyrða að Danir standa Íslendingum framar í jákvæðum smáborgaraskap.INGVAR GÍSLASON