"NEYSLA lífrænt ræktaðrar matvöru hefur tekið gífurlegan kipp í Bandaríkjunum að undanförnu, ekki síst eftir að mögulegt varð að kaupa hana innan um aðra neysluvöru í stórmörkuðum þar sem fólk verslar yfirleitt", segir Jonathan Corcoran markaðsráðgjafi en hann var hér á landi í síðustu viku með námsstefnu um lífræna fæðumarkaðinn og miðlaði af reynslu sinni frá Bandaríkjunum.
Lífrænt ræktaðar matvörur í stórmarkaði

"NEYSLA lífrænt ræktaðrar matvöru hefur tekið gífurlegan kipp í Bandaríkjunum að undanförnu, ekki síst eftir að mögulegt varð að kaupa hana innan um aðra neysluvöru í stórmörkuðum þar sem fólk verslar yfirleitt", segir Jonathan Corcoran markaðsráðgjafi en hann var hér á landi í síðustu viku með námsstefnu um lífræna fæðumarkaðinn og miðlaði af reynslu sinni frá Bandaríkjunum. Hann hefur verið upplýsingastjóri Earth's Best Babyfood um skeið en það er stærsta fyrirtæki sinnar tegundar í Bandaríkjunumn sem framleiðir eingöngu vottaðan, lífrænan barnamat. Auk þess hefur hann haldið ótal fyrirlestra um málefni lífrænnar framleiðslu.

Lífræn mjólk og pasta

Í Bandaríkjunum er nú hægt að kaupa í helstu stórmörkuðum lífræna mjólk, snakk, pasta, tómatsósur, súkkulaði, hnetusmjör, kjöt og svo framvegis og er þessum vörum komið fyrir við hliðina á þeim sem ekki eru sérstaklega merktar sem lífrænar.

Lífrænt ræktaðar matvörur eru að meðaltali 10-30% dýrari en aðrar og hafa lækkað með aukinni samkeppni. Er nú svo komið að stórmarkaðir sækjast eftir lífrænt ræktaðri vöru því kaupmenn bera meira úr býtum fyrir að selja hana en venjulega.

Lífræni fæðumarkaðurinn hefur vaxið mjög hratt í Bandaríkjunum og velti árið 1995 2,7 miljörðum bandaríkjadollara. Spáð er að árið 2000 verði ársveltan 6,7 miljarðar bandaríkjadollara.

"Með aukinni eftirspurn hafa fleiri bændur kosið að hefja lífræna ræktun og samkeppnin ásamt auknu framboði hefur leitt af sér lækkað verð.

Matreiðslumenn hampa lífrænu hráefni

Jonathan segir að tekist hafi að koma góðu orðspori á lífræna ræktun og segir að nú viti allir að bestu tómatarnir séu lífrænt ræktaðir og fínustu veitingahús noti eingöngu lífrænt ræktað hráefni. Hann segir að matreiðslumeistarar hafi haldið lífrænt ræktaðri matvöru á lofti. "Virtir matreiðslumenn hafa lagt mikið kapp á að nota lífrænt ræktað hráefni í matreiðslu og í leiðinni auglýst gæði vörunnar. "Lykilatriði er engu að síður dreifing og markaðssetning þar sem vörunni er komið fyrir í hillum stórmarkaða. Með því að geta gengið að lífrænt ræktuðu vörunni í venjulegu búðinni sinni, fyrsta flokks gæðum og borga fyrir hana sanngjarnt verð er hún orðin samkeppnisfær við vöruna við hliðina sem er aðeins ódýrari.

Unnar lífrænar vörur

Hann segir að nú sé svo komið að ýmsir framleiðendur sem selja unnar vörur, tómatmauk, barnamat og annan pakka-, eða dósamat leggi áherslu á að nota einungis lífrænt ræktað hráefni í framleiðsluna og auglýsi það. "Það fyrirtæki sem ég hef unnið fyrir í Bandaríkjunum, Earths best babyfood framleiðir barnamat og er eitt stærsta sinnar tegundar. Það notar einungis lífrænt og vottað hráefni í framleiðslu sína. Nýlega skipti Earths Best babyfood um eigendur og fyrirtækið Heinz keypti það. Forsvarsmenn þess fyrirtækis sýna lífrænni ræktun mikinn áhuga sem er gott dæmi um vinsældir þessarar framleiðslu í Bandaríkjunum.

- Er hinn almenni Bandaríkjamaður vel upplýstur um til dæmis muninn á lífrænt ræktuðu grænmeti og þessu venjulega?

"Til að byrja með var einungis lítill hópur sem mótmælti efnanotkun hjá bændum og verslaði í sérverslunum sem buðu lífrænt ræktað hráefni til matargerðar svona líkt og Yggdrasill gerir hér á landi. þetta var lítill en kröftugur hópur fólks.

Það má segja að fyrir alvöru hafi umræða byrjað um lífræna ræktun í kjölfar umfjöllunar fjölmiðla um efni sem notað var við eplaframleiðslu og reyndist vera hættulegt ungum börnum. Fólk fór að hafa áhyggjur og bændur sem rækta lífrænt tóku við sér og voru duglegir við að koma almennri fræðslu á framfæri um ræktunina og upplýsa um skaðsemi ýmissa efna sem notuð eru enn í dag.

Jarðvegurinn þarf að vera í lagi

"Það eru ýmis vandamál sem fylgja almennri notkun sterkra efna eða svokallaðra plágueyða. Með sífelldri notkun þeirra verða skordýrin ónæm og önnur skjóta upp kollinum þegar vissum tegundum skordýra er útrýmt. Þegar lífskeðjan er slitin með plágueyði rísa upp önnur vandamál í staðinn. Jarðvegurinn er undirstaða ræktunarinnar og sé hann ekki í lagi fer margt úr skorðum í framhaldinu.

Þeir bændur sem eru með lífræna ræktun þurfa vottun fyrir framleiðslu sína og þá veit neytandinn hvaða reglum sá bóndi fylgir sem er með vottunina. Fyrir það er fólk að borga þessi auka 10%, vitneskju um hvar varan er framleidd og hvaða efni voru notuð við framleiðsluna. Sá sem kaupir þessa venjulegu vöru sem ekki er lífrænt ræktuð veit oft ekki frá hvaða framleiðanda hún kemur né hvað notað var við framleiðsluna.

Gæðaeftirlit er mikið í Bandaríkjunum með lífrænni ræktun og við erum að fá í gegn núna samræmdar vottunarreglur fyrir öll Bandaríkin.

Lífrænt íslenskt lambakjöt

- Hvaða möguleika hafa Íslendingar á markaðssetningu lífrænt ræktaðrar vöru erlendis?

- Þeir eru margir og einmitt núna er rétti tíminn. Það eru allar dyr að opnast með tilliti til lífrænnar framleiðslu. Það má til dæmis hugsa sér að markaðsstja íslenska lambakjötið með þessum hætti og síðan er þörf fyrir ýmsa tilbúna rétti sem eru með þessum lífræna stimpli svo dæmi séu tekin."

Hann segir að í Danmörku stefni lífrænt ræktuð vara að því að verða 10-20% af neyslu og aukningin er mikil milli ára. "Danir bæði framleiða sjálfir og kaupa frá öðrum löndum lífræna vöru.

Núna er tvímælalaust rétti tíminn til að fræða almenning hér á landi um lífræna ræktun. Sú vara þarf að vera sjáanleg þar sem fólk verslar almennt, hún þarf að vera bragðgóð og fyrsta flokks. Þá eru allir vegir færir.

Jonathan Corcoran