KEFLVÍKINGAR taka á móti danska liðinu FC Kaupmannahöfn í síðasta leik sínum í Intertoto-keppninni í knattspyrnu í Keflavík í dag. Kaupmannahafnarliðið er um þessar mundir á toppi 3. riðils keppninnar ásamt "Íslendingafélaginu" Örebro frá Svíþjóð en Keflvíkingar verma hins vegar botnsætið með einungis eitt stig eftir jafntefli gegn slóvenska liðinu Maribor Branik á dögunum.
"Ætlum að stríða þeim dönsku" KEFLVÍKINGAR taka á móti danska liðinu FC Kaupmannahöfn í síðasta leik sínum í Intertoto-keppninni í knattspyrnu í Keflavík í dag. Kaupmannahafnarliðið er um þessar mundir á toppi 3. riðils keppninnar ásamt "Íslendingafélaginu" Örebro frá Svíþjóð en Keflvíkingar verma hins vegar botnsætið með einungis eitt stig eftir jafntefli gegn slóvenska liðinu Maribor Branik á dögunum.

Kjartan Másson, þjálfari Keflvíkinga, er þó hvergi smeykur fyrir leikinn og hefur fulla trú á að sínir menn muni ná að velgja Dönunum undir uggum. "Ég sá þessa dönsku stráka á æfingu um daginn og þetta er án efa mjög gott lið en samt sem áður er enginn kvíði í mér og við munum leika til sigurs. Ég á von á hörkuviðureign því þetta er mjög þýðingarmikill leikur fyrir þá en við ætlum fyrst og fremst að hafa gaman af leiknum og reyna eftir fremsta megni að stríða þeim dönsku," sagði Kjartan.