ÞAÐ hefur verið sagt um Íslendinga að þeir séu svo fullir af þjóðerniskennd að jafnvel Þjóðverjar gætu skammast sín í samanburðinum. Sú sem þetta skrifar hefur svo sannarlega upplifað samkennd íslensku þjóðarinnar þegar þjóðarstoltið hefur krafist þess,
Íslenskt,

já takk!

Hvað er eðlilegra en að bjóða gestum, hvort sem þeir eru Íslendingar eða útlendingar, upp á alíslenskan mat og gera það fullur stolts? Áslaug Snorradóttir og Þórdís Gunnarsdóttir fóru með fulla innkaupakörfu af íslenskum mat til Úlfars Eysteinssonar matreiðslumeistara og báðu hann að útfæra ákveðnar hugmyndir sem þær hafði dreymt um að sjá í íslenskri hráefnanotkun.

ÞAÐ hefur verið sagt um Íslendinga að þeir séu svo fullir af þjóðerniskennd að jafnvel Þjóðverjar gætu skammast sín í samanburðinum. Sú sem þetta skrifar hefur svo sannarlega upplifað samkennd íslensku þjóðarinnar þegar þjóðarstoltið hefur krafist þess, samstöðu hennar á raunastundum og þjóðernishyggjuna sem er svo einkennandi fyrir íbúa þessarar litlu eyju, sem sumir hverjir halda að sé nafli alheimsins. En hversu djúpt ristir þessi þjóðerniskennd? Hvað með rætur okkar og uppruna? Er ekki farið að grafa undan þessum íslensku gildum með þeim kynslóðum sem nú eru undir fertugu og yngri en það? Hvernig hagar meginþorri Íslendinga sér þegar hann er ekki í daglegu amstri? Förum á flug og tökum ímyndað dæmi.

Matur fyrir sjálfstæða Íslendinga

Laugardagur í einhverjum stórmarkaðinum. Verslunin er troðfull út úr dyrum af svöngum Íslendingum í fæðuöflun. Í stað veiðarfæra hinna framandi þjóða eru stálslegnar innkaupagrindurnar í hlutverki þess sem matinn að sér lokkar. Í stríði við græðgisfrumur heilans hjakka minnis- og mötunarfrumurnar í sífellu: "Íslenskt, já takk", "Matur fyrir sjálfstæða Íslendinga", "Íslendingar borða ..." og svo framvegis. Aumingja sá sem hefur umbúðirnar um heilann lendir í mikilli togstreitu og samviskubiti þegar hann fyllir innkaupagrindina sína af innfluttum pítsum, frosnum amerískum súkkulaðikökum, ítölskum pastapökkum, bresku kexmeti og fleiru útlendu. Í hæfilegu blandi við íslenskar afurðir. Það verður víst að hafa einhverja samúð með bændunum og þá erum við komin aftur að samkennd þjóðarinnar.

En hvað er það íslenskasta af öllu? Hvað kemur meðal annars upp í hugann? Jú, hreint loft, hrein náttúra, friður, fallegt fólk, skrítinn gamall matur ... Stöldrum nú aðeins við. Hvað gerðist í sambandi við þessar skrítnu og gömlu matarvenjur? Hvers vegna hefur neysla þessara matartegunda svo til stöðvast nema á þorranum? Af hverju leynist ekki sviðahaus eða pungar í poka á meðal hins góðgætisins í innkaupagrindinni? Hver var grunnurinn að hinum víðfræga hraustleika og heilbrigði víkinganna sem Íslendingar búa að enn í dag? Það skyldi þó aldrei vera fæðuval forfeðra okkar?

Víst eru fáeinar kynslóðir enn á lífi sem verða sér úti um þetta sér- íslenska sælgæti allan ársins hring og finnst ekkert annað koma í þess stað. Kynslóðir sem ólust upp við íslenskan innmat ásamt fleiru sem dregið var í bú. Í seinni tíð hefur verið hamrað á óhollustu þessarar fæðu og í dag fussar fólk og sveiar ef slátur og annar innmatur er á boðstólum. Nema á þorrablótunum, þá þykir nefnilega tilheyra að klappa þjóðerniskenndinni og fá sér hákarl og lundabagga með tilheyrandi smjatti og grettum.

Mætti ekki lyfta þessum þjóðarréttum á hærra plan og gera að eftirsóttum veislumat á ný? Undirrituð ásamt ljósmyndara smyglaði sér inn bakdyramegin í eldhúsið hjá matreiðslumeistaranum Úlfari Eysteinssyni sem er eigandi veitingahússins Hjá Úlfari og þremur frökkum. Við höfðum meðferðis fullan poka af sviðahausum, selshreifum, hrútspungum og öðru hnossgæti og báðum Úlfar og tvo aðra indæla kokka að útfæra með okkur ákveðnar hugmyndir sem okkur hafði dreymt um að sjá í íslenskri hráefnanotkun, svo og bæta við eigin hugmyndum og leika af fingrum fram. Í fyrstu héldu starfsmenn Úlfars að sprell væri í gangi en þegar maturinn fór að taka á sig nýjar myndir og kitla bragðlaukana á nýjan og framandi hátt óx þeim ásmegin og urðu skapandi með okkur. Enda hvað er svo sem eðlilegra en að bjóða gestum, hvort sem þeir eru Íslendingar eða útlendingar, upp á alíslenskan mat og gera það fullur stolts? Íslendingar virðast ekki þora að bjóða upp á þjóðarréttina og gera þá meira spennandi. Það ætti að vera sómi allra gestgjafa að bjóða gestum og gangandi upp á fallegt íslenskt sumarhlaðborð á góðu sumarkvöldi í seiðandi ilmi íslenskra bjarka.

Úlfar er enginn nýgræðingur í íslenskri matargerð og hefur verið frumkvöðull í meðferð þess sjávarfangs sem íslenskir sjómenn hafa borið á land um langa hríð. Hann hefur verið óhræddur við að bjóða upp á alls kyns furðufiska sem og íslenskan innmat. Úlfar segir að matreiðslan yrði tilbreytingarsnauð ef hann gæfi ekki hugmyndafluginu lausan tauminn annað slagið því staðreyndin væri sú að 95% gesta sinna vildu hefðbundinn fisk og aðeins um fimm af hundraði væru til í að smakka eitthvað framandi.

TIGNARLEGUR, forboðinn og framandi. Kaldur sviðahaus með villtum berjum og avocado-mousse-fyllingu.

ERÓTÍSK, kitlandi og dulúðug. Sviðasulta með ferskum rauðbeðum og graslauk.

ÁÞREIFANLEGA kröftugir. Súkkulaðihúðaðir hrútspungar með brómberjasósu, jarðarberjum og rjóma.

ÓÞÆGILEGA leitandi. Soðnir selshreifar með...?

TVÍSTÍGANDI og ringlandi fegurð. Lundabaggar með cous-cous pólentu og tómatlegnum sardínum.