VÍKING hf. á Akureyri hefur gengið frá umboðssamningi við svissneska fyrirtækið Viking Trading, en fyrirtækið er í eigu fyrirtækis í Liechtenstein. Samningur þessi er að sögn Baldvins Valdimarssonar, framkvæmdastjóra Víking hf., gerður í kjölfar vaxandi útflutnings á Víking bjór til Sviss.


Víking hf. flytur

út bjór til Sviss

VÍKING hf. á Akureyri hefur gengið frá umboðssamningi við svissneska fyrirtækið Viking Trading, en fyrirtækið er í eigu fyrirtækis í Liechtenstein. Samningur þessi er að sögn Baldvins Valdimarssonar, framkvæmdastjóra Víking hf., gerður í kjölfar vaxandi útflutnings á Víking bjór til Sviss.

"Þetta fyrirtæki byrjaði að eiga við okkur viðskipti í litlum mæli nú í vor, en síðan hefur þetta aukist mikið á skömmum tíma og þegar svo var komið að þeir voru farnir að panta hjá okkur verulegt magn leituðu þeir eftir því að gera við okkur umboðssamning," segir Baldvin.

Útflutningur í gámavís

Baldvin segir að í upphafi hafi aðeins verið um fáein bretti að ræða í senn en nú sé svo komið að sendingarnar séu í gámavís einu sinni í mánuði. Hann vill þó ekki gefa upp nákvæmlega hversu mikið magn sé um að ræða. Hins vegar stefni í að þessi útflutningur skipti verulegu máli í rekstri fyrirtækisins. Þá hafi nú verið gengið frá raðpöntunum sem muni hafa enn frekari aukningu í för með sér.

Baldvin segir að varla líði sá dagur að fyrirtækið fái ekki einhverjar fyrirspurnir um hugsanlegan útflutning. Hins vegar hafi þurft að velja mjög á milli hvaða fyrirspurnum sé svarað, enda felist í þeim mikil vinna sem oft á tíðum leiði ekki til neins.

Fram til þessa hafi útflutningur oftast strandað á lítilli framleiðslugetu verksmiðjunnar. "Það má segja að þessi verksmiðja sé of stór fyrir innanlandsmarkað en of lítil fyrir erlenda markaði.

Við höfum því helst reynt að finna einhverja aðila sem eru smærri í sniðum og það var það sem vakti athygli okkar á þessum aðilum. Okkur fannst það ef til vill dálítið langsótt að flytja íslenskan bjór alla leið út til Sviss og við bjuggumst ekki við miklu í upphafi en síðan hefur þetta undið upp á sig hreint ótrúlega."