RÍKISSTJÓRNIN samþykkti á fundi sínum í gærmorgun tillögur um ráðstöfun 100 milljóna króna framlags Íslands til uppbyggingar í Bosníu og Hersegóvínu. Lagt er til að fénu verði varið með þrennum hætti, þ.e.
Framlag Íslands til Bosníu 50 millj. til þeirra

sem misstu fætur

RÍKISSTJÓRNIN samþykkti á fundi sínum í gærmorgun tillögur um ráðstöfun 100 milljóna króna framlags Íslands til uppbyggingar í Bosníu og Hersegóvínu. Lagt er til að fénu verði varið með þrennum hætti, þ.e. til þess að aðstoða fórnarlömb styrjaldarinnar sem hafa misst fætur, til kennslu og búnaðar á sviði mæðraverndar og ungbarnaeftirlits og í þriðja lagi til aðstoðar við skipulagningu og framkvæmd þess á tilteknum stöðum í landinu.

Ríkisstjórnin samþykkti að tryggja fimmtíu milljóna króna fjárheimild, sem ráðstafað verður á þessu ári. Um er að ræða helming þess fjár sem Íslendingar láta af hendi rakna og verður því varið til aðstoðar þeim sem misstu fætur í styrjöldinni, bæði í búnað og tækniaðstoð.

Upphæðinni er ráðstafað í samvinnu við Alþjóðabankann og sagði Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra í samtali við Morgunblaðið að með því móti væri tryggt að meira yrði úr framlagi Íslendinga. Ríkisstjórnin samþykkti í mars að 110 milljónum yrði varið til endurreisnar og uppbyggingar, þar af voru tíu milljónir lagðar strax í sjóð bankans til styrktar uppbyggingarstarfinu á fyrsta ársfjórðungi.

Samþykkt var á fundinum í gær að verja 1 milljón svo Blindrafélag Íslands gæti hafið samstarf við systurfélög í Bosníu og Hersegóvínu og sömu upphæð til Stúdentaráðs Háskóla Íslands til söfnunar og flutnings kennslugagna, og Lyfjaverslunar ríkisins og Íslenska heilsufélagsins ehf. vegna athugunar á hagkvæmni dreypilyfjaverksmiðju.