RICHARD Holbrooke, sendimaður Bandaríkjastjórnar, sagði í gær að afsögn Radovans Karadzic sem leiðtoga Bosníu-Serba væri mikilvægur áfangasigur sem greiddi fyrir kosningum í Bosníu. Hann kvaðst þó óánægður með að Slobodan Milosevic, forseti Serbíu,
Holbrooke knýr fram afsögn Karadzic sem leiðtoga Bosníu-Serba Mikilvægur áfangasigur

en markmiðinu ekki náð

Belgrad. Reuter.

RICHARD Holbrooke, sendi maður Bandaríkjastjórnar, sagði í gær að afsögn Radovans Karadzic sem leiðtoga Bosníu-Serba væri mikilvægur áfangasigur sem greiddi fyrir kosningum í Bosníu. Hann kvaðst þó óánægður með að Slobodan Milosevic, forseti Serbíu, skyldi ekki hafa fallist á framsal Karadzic til stríðsglæpadómstólsins í Haag eins og kveðið er á um í friðarsamningunum sem undirritaðir voru í Dayton.

Samkomulag náðist um afsögn Karadzic á tíu klukkustunda fundi Holbrooke og Milosevic Serbíuforseta í Belgrad í gær. Afsagnarskjal með undirskrift Milosevic var sent með faxi til Karadzic, sem undirritaði það í Pale, höfuðvígi Bosníu- Serba. Hann samþykkti að afsala sér öllum embættum og völdum þegar í stað, auk þess sem hann lofaði að hætta algjörlega afskiptum af stjórnmálum og koma ekki fram í fjölmiðlum.

Holbrooke sagði við fréttamenn að tilraunir til að brjóta samkomulagið myndu hafa alvarlegar afleiðingar fyrir Serba án þess að útlista þær. Talið er að Serbum verði hótað nýjum refsiaðgerðum af hálfu Sameinuðu þjóðanna verði ekki staðið við samkomulagið um afsögnina.

Ekki var vitað hvort Milosevic hefði fengið loforð um efnahagslegar tilslakanir fyrir þátt sinn í að knýja fram afsögn Karadzic. Stjórnarerindrekar sögðu að samkomulagið gæti reynst mikilvægasti sigurinn sem unnist hefur í Bosníu-málinu frá því að friðarsamningarnir voru undirritaðir í Dayton.

Þessi sigur gæti þó reynst of dýru verði keyptur þegar til lengri tíma er litið. Meðan Karadzic er enn í Pale getur hann hæglega haldið sambandi við bandamenn sína og starfað með þeim á bak við tjöldin. Ef það gerist geta alþjóðlegir milligöngumenn lítið gert við því. Og jafnvel þótt gömlu félagarnir hunsi hann verða þjóðernissinnuðu harðlínumennirnir enn við völd og aðskilnaðarstefna Karadzic heldur velli.

Holbrooke aftur til bjargar

Holbrooke átti stærstan þátt í að knýja fram friðarsamningana í Dayton. Hann hélt síðan til fyrri starfa sinna á Wall Street í New York en Bandaríkjastjórn óskaði eftir liðsinni hans að nýju til að knýja fram afsögn Karadzic og greiða þannig fyrir kosningum í Bosníu, sem eru mikilvægur þáttur í ákvæðum friðarsamninganna. Áður höfðu nokkurra mánaða tilraunir evrópskra milligöngumanna, undir forystu Carls Bildts, ekki borið árangur og aðeins leitt til glundroða.

Leiðtogar fimmveldanna, sem hafa beitt sér fyrir varanlegum friði í Bosníu (Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands, Rússlands og Þýskalands) fögnuðu afsögninni í gær. Malcolm Rifkind, utanríkisráðherra Bretlands, óskaði Holbrooke til hamingju með þennan árangur en talsmaður franska utanríkisráðuneytisins sagði að afsögn Karadzic væri niðurstaða alþjóðlegs þrýstings, "einkum frá fimmveldunum, Carl Bildt og auðvitað Richard Holbrooke sendimanni".

Rússar andvígir handtöku

Bandaríska utanríkisráðuneytið sagði afsögn Karadzic mikilvægt skref í rétta átt en verkinu væri enn ólokið, því knýja þyrfti Serba til að framselja hann til stríðsglæpadómstólsins í Haag. Jevgení Prímakov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði hins vegar óráðlegt að reyna að handsama Karadzic þar sem slíkt gæti stofnað kosningunum í Bosníu í hættu.

Vestrænu ríkin vilja knýja Milosevic til að tryggja framsal Karadzic og Ratko Mladic, yfirmanns hers Bosníu-Serba, en serbneski forsetinn er tregur til þess vegna kosninga í Júgóslavíu, sambandsríki Serbíu og Svartfjallalands, síðar á árinu. Margir íbúa Serba líta á Karadzic og Mladic sem þjóðhetjur, sem hafi ekki framið stríðsglæpi, heldur bjargað fólki sínu frá þjóðarmorði.

Vesturlönd óttast að NATO-liðið verði fyrir mannfalli í bardögum við lífverði Karadzic ef reynt yrði að handsama hann og að hann yrði sjálfur að píslarvotti ef hann félli. Milosevic myndi taka enn meiri áhættu með því að senda lögreglusveitir sínar til höfuðs Karadzic því það getur orðið til þess að Serbar vegi Serba.

Flokkurinn kjörgengur

Robert Frowick, bandarískur stjórnarerindreki sem hefur yfirumsjón með skipulagningu kosninganna í Bosníu, sagði að afsögn Karadzic merkti að flokkur hans, Serbneski lýðræðisflokkurinn, gæti tekið þátt í kosningunum. Hann varaði Karadzic þó við því að hann yrði að sanna á næstu dögum að hann hygðist standa við loforð sín um að hætta afskiptum af stjórnmálum. Ef hann gerði það ekki yrði flokknum meinuð þátttaka í kosningunum 14. september.

Reuter RICHARD Holbrooke, sendimaður Bandaríkjastjórnar, á blaðamannafundi í Belgrad í gær þar sem hann tilkynnti að Radovan Karadzic hefði fallist á að segja af sér sem leiðtogi Bosníu-Serba.Reuter RADOVAN Karadzic talar í gervihnattasíma við Jimmy Carter, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Myndin var tekin 13. september í fyrra.