SPÆNSKA borgarastyrjöldin gleymist seint, sögulega séð endurspeglaði hún pólitísk átök 19. aldar og fyrrihluta þessarar, í landi þar sem borgaraleg bylting átti sér aldrei stað. Þar tókust á margskonar öfl.

VOPNAÐAR

KONUR

Vinsælasta myndin á Spáni í vor var Libertarias

eða Frjálshyggjur eftir Vicente Aranda. ÞORRI

JÓHANNSSON sá myndina sem fjallar um þann einstaka tíma í sögunni við upphaf borgarastyrjaldar er verkalýðsfélagið CNT réð ferðinni og konur flykktust á vígstöðvarnar. SPÆNSKA borgarastyrjöldin gleymist seint, sögulega séð endurspeglaði hún pólitísk átök 19. aldar og fyrrihluta þessarar, í landi þar sem borgaraleg bylting átti sér aldrei stað. Þar tókust á margskonar öfl. Undir merkjum þjóðernissinna voru Falangistaflokkurinn, hin valdamikla kirkja, stór hluti hersins, kaþólskir og þjóðlegir íhaldsmenn, eignamenn, landeigendur og iðnrekendur, aðallinn og margir konungssinnar. það var bandalag hagsmunanna, gömlu forréttindanna og kirkjulegra gilda. Lýðveldismegin var heldur sundurleit hreyfing, stærstu og áhrifamestu verkalýðsfélögin, CNT er voru anarko-syndakilistar með tvær milljónir félaga, UGT verkalýðshreyfing sósíalista, PCE sovétsinnaði kommúnistaflokkurinn er var lítill í byrjun stríðsins og POUM er var andstalinískur kommúnistaflokkur með trotskyiskar tilhneigingar. Lýðveldisflokkurinn sem í var róttækt miðstéttarfólk, Lýðveldiseiningin og Sósíalistaflokkurinn auk fjölda óháðra menntamanna og borgara, FAI bandalag iberiskra anarkista er voru róttækari armur CNT, katalónskir og baskneskir þjóðernissinnar. Styrjöldin var því lokaorrustan milli frjálslyndra framfarasinna og kirkju, íhaldssamra konungssinna og landeigenda í átökum sem höfðu staðið frá byrjun nítjándu aldar í einu vanþróaðasta landi V-Evrópu.

17. júlí voru liðin 60 ár síðan uppreisn Francos hófst í Marokkó og hratt af stað borgarastyrjöldinni og því farið að rifja upp fjölmargar ástæður fyrir ósigrinum. Þótt svo langt sé um liðið eru sárin ennþá djúp og margir eiga ættingja sem voru myrtir af andstæðingunum, fasismi er ekki hafður í flimtingum á Spáni.

Í fyrra var sýnd á Íslandi spænsk/enska myndin "Land og frelsi" eftir Ken Loach sem fjallar um örlög spænsku byltingarinnar út frá sjónarmiði Breta sem fer til Spánar og berst með POUM við hlið anarkosyndikalista. Hún minnir nokkuð á bókina "Homage to Catalonia" eftir George Orwell en hann barðist með POUM, særðist og slapp naumlega úr landi undan lögreglu stalinista er samtökin voru upprætt, sökuð um fasisma og margir meðlimir skotnir samkvæmt fyrirmælum frá Moskvu. Sú bók er líklega þekktasta lýsingin á ástandinu í Barcelona þar sem flestir voru í vinnugöllum og vígstöðunum í "spænsku byltingunni" þar sem öllum opinberum fyrirtækjum, verksmiðjum o.fl. var komið í hendur verkafólks enda ríkisstjórnin valdalaus þar sem herinn var leystur upp á þeim svæðum sem valdaránið mistókst.

Nýfengið frelsi

Þá var hlutverk kvenna ekki síðra og félags þeirra innan anarkistasamtakanna "Frjálsar konur". Ætlun þeirra var ekki eingöngu að vinna í verksmiðjunum í stað karlanna eða elda ofan í þá, heldur flykktust þær á vígstöðvarnar með vopn í hendi til að berjast í fremstu víglínu. Þær vildu verja hið nýfengna frelsi sitt og útópíudrauma anarkista sem virtust vera að því komnir að rætast. Þetta þykir merkilegt í ljósi stöðu kvenna á Spáni þá, sem batnaði ekki með sigri Francos. En uppreisn hans byggðist m.a. á því að verja hin hefðbundnu fjölskyldugildi. Fyrstu lögin sem Francostjórnin setti 1938 var að afnema skilnaðarlög lýðveldisstjórnarinnar, heimild til borgaralegrar giftingar, taka upp dauðarefsingu á ný og afnema heimastjórn Katalóníu.

Libertarias fjallar um atburðina frá sjónarhóli ungrar nunnu sem er dregin í raðir hinna frjálsu kvenna. Myndin er um konur sem fóru frá Barcelona til að berjast á Aragon-vígstöðvunum þar sem anarkistar voru ríkjandi, en ári seinna var þeim bannað að berjast af lýðveldisstjórn og kommúnistum er mynduðu hefðbundinn her ríkisstjórnarinnar undir stjórn hins Moskvuþjálfaða Enrique Lister er leysti upp Aragoníuráðið. Þegar myndin hefst, 19. júlí 1936, er byltingin hafin í nágrannaborg Barcelona. Fólkið lýsir yfir anarkísku skipulagi sem svar við valdaránstilrauninni. Á torginu er safnað saman krossum og helgimyndum til brennslu, það loga nokkrar kirkjur líka. Kirkjan var helsti andstæðingurinn, hatað kúgunartæki með menntakerfi sínu og átti stóran hluta landsins. Þótt kaþólskir menntamenn hafi verið í forystu hinnar opinberu andstöðu á seinni hluta valdatíðar Francos. Nunnurnar í klaustri sínu búa sig undir að flýja. Ung nunna, María, kemst með naumindum undan og flýr inn um dyr þar sem hún sér Jesúmynd. Það er auðvitað hóruhús og mellumamman býr henni hæli. Þangað ryðjast inn skömmu seinna vopnaðar anarkistakonur úr samtökunum Frjálsar konur í þeim tilgangi að frelsa gleðikonurnar. Spaugilegt er atriðið þegar ein herkvennanna heldur langa og leiðinlega predikun yfir þeim um að það sé borgaralegt að selja sig og ástir eigi að vera frjálsar. Mellumamma er sannkaþólsk, íhaldssöm og atvinnurekandi í þokkabót, mellurnar koma upp um hana og Maríu. María er einnig "frelsuð" og dregin inn í þennan vopnaða baráttuhóp. Þannig hefst "Frjálshyggjur", kvikmynd um konur sem segjast frekar vilja láta lífið standandi en að lifa á hjánum. Þær eru: anarkistafrömuður, saklaus nunna sem er sagt að Jesú hafi verið fyrsti anarkistinn og líklega kona í þokkabót, spíritisti, gleðikona og margar fleiri. Þær upplifa einstakt augnablik í sögunni. Þegar reynt er að framkvæma og gera draumsýn að raunveruleika.

Söng- og leikkonan Ana Belén leikur Pilar, leiðtoga hópsins er veiðir nýja félaga. Það er hörð kona og sanntrúuð en mannleg. Hún táknar brennandi heitan áhuga kvennanna til að berjast á vígstöðvunum. Adriana Gil holdgerir Maríu sem er nýliði og saklaus nunna sem sameinast herkonunum og uppgötvar fljótt að kristnar hugmyndir hennar líkjast að mörgu leyti þeim byltingarkenndu. Leikkonan og sjónvarpsstjarnan Victoria Abril er spíritistinn. Hún segir sjálf: Anarkisti, því ég trúi að einstaklingurinn sé allt og ríkið ekki neitt. Spíritisti því eftir dauðann er einstaklingurinn allt og guð ekkert.

Til vígstöðvanna

Þær halda til vígstöðvanna við miknn fögnuð á vörubílspöllum skreyttum fánum í litum anarkista. Það er voða gaman hjá stúlkunum að fá að skjóta eins og strákarnir. Áhrifamikið er atriðið þegar spíritistinn fellur í trans í skotbyrgi og grimm karlmannsrödd skammar fólkið fyrir að vera á vígstöðvunum meðan kommúnistar og stjórnarsinnar sitji á svikráðum í Barcelona og komi í bakið á þeim. Márahermenn Francos er skipuðu framsveitir með sveðjur sínar koma við sögu og myndin endar á kristilegan hátt þótt aðeins einn prestur sé aflífaður í henni.

Durutti, leiðtogi anarkistaherfylkisins og átrúnaðargoð (þeir urðu að hafa sína dýrlinga líka), birtist dularfullur í nokkrum atriðum í myndinni og eitt sinn er hann spurður af nokkrum útlendum blaðamönnum hvernig það gangi að reka her sem er skipt í litla hópa er velja sér foringja. Rússneski blaðamaðurinn segir þetta "kaos", því svarar Durrutti að það sé skondið þegar yfirvalds- og miðstýringarsinnar hugsi um raunverulegt frelsi þá detti þeim strax í hug kaos og hverjum sé heimilt að gera eitthvað illt af sér. Durutti dó síðar píslarvættisdauða á Madridvígstöðvunum og herfylki anarkista var nefnt eftir honum.

Leikstjórinn Vicente Aranda er 69 ára gamall og man stríðið betur en hvað kom fyrir hann í síðustu viku og varð því að gera myndina. Honum hefur tekist ætlunarverk sitt, að fá ungmennin á myndina eins og gerðist með Land og frelsi. Hún skartar spænskum stjörnum einsog sykurpopparanum Miquel Bosé. Aranda hefur gert mikið af myndum um kvenþjóðina með konur í aðalhlutverkum. Hann hefur verið umkringdur konum frá barnæsku og á ungar dætur. Hann telur útópíutilraunina hafa verið hina sönnu byltingu borgarastríðsins. "Ég hef einfalda skoðun á útópíunni, hún er ekki möguleg, en það verður að hugsa um hana. Eins og eitt sinn var sagt, verið raunsæ, biðjið um hið ómögulega. Það eru ómögulegir hlutir í þessum heimi en ef þeir væru virkilega óframkvæmanlegir þá værum við löngu hætt að hugsa um þá. Eins og er ríkir raunsæisstefnan í öllu, þá er það útleið að tala um hið óframkvæmanlega. Hið ómögulega er ómissandi." Er þetta ekki saga þeirra sem biðu ósigur? Jú, en í loftvarnarbyrgi vakti athygli hans frú sem predikaði yfir lýðnum að bylting mistækist aldrei, sigur eða ósigur væri ekki aðalatriðið. Fyrir Arenda var þetta eins og Biblíuræða og hann segir það undarlegt að her sem með stuðningi Ítalíu og Þýskalands réðst gegn vopnlausu fólki sem varð að ræna rifflum úr herstöðvunum og varðist í meira en þrjú ár. Það sé ekki sigurvegurunum til framdráttar.

Gegn gleymskunni

Aðalleikkonurnar þrjár segja þetta kvikmynd gegn gleymskunni og þeim finnst að Spánverjar ættu að horfa til baka og rifja upp borgarastríðið. Vicente Aranda opnar tilfinningaríkan glugga að fortíðinni. Victoria Abril hefur frelsið í æðum og 14 ára fór hún að heiman og hafnaði Guði og ástinni. Það er núna augnablikið til að rifja upp án þess að ýfa sárin. Ana Belén segir að eftir því sem við höfum meiri þekkingu á fortíðinni og þá lika hryllingnum, þess betri verðum við. Þetta er ekki aðeins kvikmyndaleg kennsla, þetta er mjög persónulegt verk, ekki fræðilegt. Ana Belén vill að ungmennin í dag, sem upplifðu hvorki stríðið né Franco, skilji þessar konur sem reyndu að láta draum rætast og lifðu endalok þess draums. Sjáið þessar verkalýðsstelpur sem ákváðu að hætta að sauma og fara upp á vörubíl, segir Abril.

Í tilefni myndarinnar héldu þrjár anarkistakonur um áttrætt tölur í Valensíuháskóla. Þær vildu segja frá baráttunni og töldu ekki allt rétt í myndinni. Arenda gerði myndina með mikilli tilfinningu en hann segir ekki allan sannleikann því mellurnar gengu ekki í félagið fyrr en búið var að skýra út fyrir þeim hugmyndir anarkista um frelsi. En þær játa að engin kvennanna í Valensíu tók upp riffil og þrammaði á vígstöðvarnar eins og í Katalóníu. Þær voru á bakverðinum á heimavígstöðunum og báðu blöðin um að ekki yrði sagt frá ættarnöfnum þeirra vegna atvinnuöryggis barna þeirra.

Á tímum annars lýðveldisins fengu konur kosningarétt, rétt til að stofna samtök, að láta heyra í sér, menntast og vinna. Stjórnmálaflokkarnir vildu bæta rétt þeirra. En það voru fyrst og fremst anarkistarnir og þá katalónsku anarkistarnir sem studdu kvenfrelsið því þeir lögðu jafnmikla áherslu á einstaklingsfrelsið og þjóðfélagsþróunina. Hvort sem konur voru öreigar eður ei, héldu þær að anarkisminn væri lausnin. Þróun anarkismans á Spáni var mjög sérstök og undantekning í sögunni eins og að þurfa að taka þátt í ríkisstjórn. Það var styrkur Katalóníumanna sem urðu að fórna grundvallaratriði með stjórnarþátttöku til að tryggja framgang byltingarinnar sem hafði það að markmiði að leysa upp ríkisvaldið. En þegar lýðveldið var í hættu vörðu þeir þetta sama ríki fyrir þeim er vildu það feigt fyrir annað ríki þar sem anarkistar og konur hefðu lítið að segja. Konurnar, sem börðust, lifðu af og sáu á bak draumnum, þurftu að bíða í 30 ár þar til einhver fór að kannast við kvenréttindi aftur.AÐALLEIKONURNAR þrjár, Ariadna Gil, Ana Belén og Victoria Abril.

GLEÐIKONURNAR eru á báðum áttum undir frelsisræðunni.

TVÆR ungar á vígstöðvunum í borgarastríðinu.

Dálkahöfundurinn Carmen Rico Godoy skrifar að stríð og byltingar séu forréttindi karla en konurnar eigi að þjást og þegja heima. Undantekning sögunnar var þegar margar konur héldu að anarkistahreyfingin myndi í raun breyta stöðu þeirra.