I. NÝLEGA varð Menntaskólinn í Reykjavík 150 ára. Þá kom í ljós, að húsnæðisskortur bagar skólastarfið svo mjög, að til stórvandræða horfir. Til mikilla bóta er sú stórhöfðinglega gjöf, sem Davíð S. Jónsson og börn hans hafa fært skólanum, þar sem er Þingholtsstræti 18, en betur má, ef duga skal. II.
Hentar Lækjargata 12 fyrir

Menntaskólann í Reykjavík?

Við sölu á Lækjargötu 12 væru slegnar tvær flugur í einu höggi, segir Leifur Sveinsson, stórbættur húsakostur MR og hagur hluthafa í Íslandsbanka myndi batna.

I.

NÝLEGA varð Menntaskólinn í Reykjavík 150 ára. Þá kom í ljós, að húsnæðisskortur bagar skólastarfið svo mjög, að til stórvandræða horfir. Til mikilla bóta er sú stórhöfðinglega gjöf, sem Davíð S. Jónsson og börn hans hafa fært skólanum, þar sem er Þingholtsstræti 18, en betur má, ef duga skal.

II.

Miklar breytingar hafa á undanförnum árum orðið í rekstri Íslandsbanka hf. Aðalstöðvar hans hafa verið fluttar að Kirkjusandi 2, en gamlar stöðvar þeirra banka, sem hann er myndaður úr, eigi fullnýttar. Þannig efa ég mjög, að góð nýting sé á gamla Iðnaðarbankahúsinu í Lækjargötu 12. Gamla Verslunarbankahúsið að Bankastræti 5 gæti hugsanlega annað kröfum viðskiptavina Íslandsbanka hf. í miðbæ Reykjavíkur. Það átti að leggja þetta útibú niður, en var hætt við það, svo nú er lag að leggja niður útibúið í Lækjargötu 12.

III.

Við hluthafar í Íslandsbanka hf. höfum verið óánægðir með lítinn arð, sem við fáum af hlutafé okkar (2,5%, 4% og 6,5% undanfarin ár). Við sölu á Lækjargötu 12 gætu skapast leiðir til betri ávöxtunar á hlutafé Íslandsbanka hf. Væru þá slegnar tvær flugur í einu höggi, stórbættur húsakostur MR og hagur hluthafa í Íslandsbanka hf. mundi stórbatna.

IV.

Það er Ríkissjóður Íslands, sem á að kaupa Lækjargötu 12 af Íslandsbanka hf. og afhenda MR í tilefni af 150 ára afmæli hans. Önnur áform um endurbyggingu á svæði því, sem takmarkast af Lækjargötu, Bókhlöðustíg, Þingholtsstræti og Amtmannasstíg (Menntaskólareitur) mega halda sér og á ég þar við samkeppni þá, sem fram fór milli arkitekta um reit þennan. Verðlaunatillaga þeirra feðgina Helga Hjálmarssonar og Lenu dóttur hans er alls góðs makleg.

V.

Alþingismenn, borgarfulltrúar Reykjavíkur og hluthafar í Íslandsbanka hf. eru margir hverjir gamlir nemendur frá MR. Þeir hafa sofið á verðinum, en nú er mál að þeir vakni og reynist nú sínum gamla skóla vel á örlagastund. Góð menntun er besta fjárfestingin. Leysum því húsnæðismál MR fyrir aldamót.

Höfundur er lögfræðingur og 50 ára stúdent frá MR.

Leifur Sveinsson