JANET Evans, sem á þrjú heimsmet í sundi og sigraði í þremur greinum á Ólympíuleikunum í Seoul 1988, segist ætla að njóta þess að keppa í Atlanta ánægjunnar vegna en ekki til að reyna að sigra og síðan talar hún um að hætta alfarið í sundi. "Ég vil að vöðvarnir rýrni svo ég komist í sundföt," sagði Evans sem er 24 ára og keppir í 400 m og 800 m skriðsundi í Atlanta.
SUND "Það skiptir öllu að njóta þess að vera til"Janet Evans syndir

ánægjunnar vegna

JANET Evans, sem á þrjú heimsmet í sundi og sigraði í þremur greinum á Ólympíuleikunum í Seoul 1988, segist ætla að njóta þess að keppa í Atlanta ánægjunnar vegna en ekki til að reyna að sigra og síðan talar hún um að hætta alfarið í sundi. "Ég vil að vöðvarnir rýrni svo ég komist í sundföt," sagði Evans sem er 24 ára og keppir í 400 m og 800 m skriðsundi í Atlanta.

Hún sagðist hafa verið undir miklu álagi á Ólympíuleikun um í Barcelona þar sem hún sigraði í 800 m skriðsundi og varð í öðru sæti í 400 metrunum en þrýstingurinn væri ekki lengur fyrir hendi. "Viðhorf mitt er eins og það var 1988. Ég á möguleika á að standa mig vel ­ draumurinn hefur ræst undanfarna mánuði." Hún bætti við að hún stefndi ekki að því að ná skautadrottningunni Bonnie Blair sem sigraði í fimm greinum alls í keppni á Ólympíuleikum og er fremst bandarískra kvenna á því sviði. "Ég hef engan áhuga á því," sagði Evans sem hefur unnið til fernra gullverðlauna á Ólympíuleikum.

Evans segir að öllu skipti að njóta þess að vera til og Amanda Beard, sem er 14 ára og keppir í bringusundi, hafi haft góð áhrif. "Hún hefur stuðlað að aukinni ánægju hjá mér. Ungt íþróttafólk skilur ekki andrúmsloftið á Ólympíuleikum og hún er byrjandi að því leyti. Það er gott að hafa mikla reynslu eða vera reynslulaus. "Allt í lagi. Hérna eru allar stóru stjörnurnar frá Austur-Þýskalandi en ég fer bara og syndi," sagði ég 1988. Hins vegar fann ég fyrir þrýstingnum 1992 og hugsaði of mikið um hann. Skemmtunin hvarf vegna þess að ég varð að verja titil. Þegar ég snerti bakkann í 400 metra skriðsundi og var í öðru sæti hugsaði ég með mér að þarna hefði ég misst af tækifærinu næstu fjögur árin."

Þó Evans segist ætla að hætta alfarið að synda eftir leikana er hún ekki hætt í íþróttum. Markmið hennar er að taka þátt í maraþoni í Los Angeles að ári. "Ég hlakka til að fá að sofa út, hætta að lykta af klór og sjá til hvað framtíðin ber í skauti sér."

Reuter JANET Evans á þrjú heimsmet í sundi: "Ég vil að vöðvarnir rýrni svo ég komist í sundföt."