HEFUR Ingibjörg Sólrún, borgarstjóri, enga stjórn á sínu liði? Eða fer borgarstjórinn einfaldlega í felur, þegar klúðursmál borgaryfirvalda koma upp á yfirborðið? Það liggur alla vega í augum uppi að vandlætingarliðið á fjölmiðlunum telur ekki ástæðu til að leiða núverandi borgarstjóra fram til ábyrgðar nema þegar hún þarf að tilkynna um það sem á að falla í kramið hjá borgarbúum.
Höfuðlaus her

Páli Erni Líndal:

HEFUR Ingibjörg Sólrún, borgarstjóri, enga stjórn á sínu liði? Eða fer borgarstjórinn einfaldlega í felur, þegar klúðursmál borgaryfirvalda koma upp á yfirborðið? Það liggur alla vega í augum uppi að vandlætingarliðið á fjölmiðlunum telur ekki ástæðu til að leiða núverandi borgarstjóra fram til ábyrgðar nema þegar hún þarf að tilkynna um það sem á að falla í kramið hjá borgarbúum. En það er ýmislegt annað á seyði í borgarrekstrinum, sem borgarstjórinn ber ábyrgð á en vill láta kjurt liggja.

Nýlega heyrðum við Guðrúnu Ágústsdóttur, forseta borgarstjórnar, senda borgarstjóranum kveðjurnar í sjónvarpsviðtali þegar sagt var frá mjög umdeildum byggingarframkvæmdum á Kirkjusandi, sem borgarstjórinn hafði heimilað án fyrirliggjandi samþykktar skipulagsnefndar og þvert ofan í andmæli íbúa hverfisins. Forseti borgarstjórnar, sem er víst líka formaður skipulagsnefndar, sagði að það væri nöturlegt að skurðgröfurnar hefðu verið látnar tala þegar ljóst var að þessi mótmæli hefðu áður verið komin fram.

Guðrún Jónsdóttir, fulltrúi R-listans í skipulagsnefnd, hefur látið hafa eftir sér að þessar framkvæmdir sem borgarstjórinn leyfði kollvarpi öllum ákvæðum um takmarkanir á hávaðamengun í íbúðabyggð.

Fyrir nokkrum dögum var sagt frá því í fréttum að borgaryfirvöld hefðu mótmælt fyrirhuguðum flutningi Landmælinga Íslands til Akraness. Það er sem kunnugt er stjórnvaldsaðgerð Framsóknarflokksins, sem á að styrkja stöðu Ingibjargar heilbrigðisráðherra í heimabyggð sinni. Þrátt fyrir umrædd mótmæli borgaryfirvalda kom framsóknarkonan og borgarfulltrúi R-listans, Sigrún Magnúsdóttir, fram í fjölmiðlum með mjög skrýtnar kenningar um að þessi flutningur skipti Reykvíkinga litlu sem engu máli. Og það sem meira var: Sigrún Magnúsdóttir birti þessa yfirlýsingu sem "oddviti R-listans". Fremur lítið hefur farið fyrir þessum oddvita í samstirni R-lista kvenna hingað til en ekki er nema von að spurt sé: Hver mælir fyrir hönd meirihlutans í borgarstjórn?

PÁLL ÖRN LÍNDAL,

Laugarnesvegi 62,

Reykjavík.