GUÐMUNDUR Gylfi Guðmundsson, hagfræðingur ASÍ og fulltrúi neytenda í sexmannanefnd, segir að samningar, sem bændur hafi gert undanfarnar vikur við verslanir og sláturleyfishafa um kjötsölu, feli í sér brot á búvörulögum. Hann segir að bændur vilji viðhalda opinberri verðlagningu á kjöti en víkja frá henni þegar þeim hentar.
Samningar bænda við verslanir eru ólöglegir að mati hagfræðings ASÍ Alþýðusambandið segir

bændur brjóta búvörulög

GUÐMUNDUR Gylfi Guðmundsson, hagfræðingur ASÍ og fulltrúi neytenda í sexmannanefnd, segir að samningar, sem bændur hafi gert undanfarnar vikur við verslanir og sláturleyfishafa um kjötsölu, feli í sér brot á búvörulögum. Hann segir að bændur vilji viðhalda opinberri verðlagningu á kjöti en víkja frá henni þegar þeim hentar.

Bændur hafa á undanförnum vikum gert a.m.k. fjóra samninga við afurðastöðvar, auk þess sem bændur í Húnavatnssýslu hafa gert sérstakan samning við Hagkaup um sölu á lambakjöti.

"Ég sé ekki betur en þessir samningar allir feli í sér brot á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Þetta var til umræðu í sexmannanefnd í gær [fimmtudag] og menn voru þar sammála um að þetta væri ekki löglegt. Samkvæmt lögunum ber nefndinni að ákveða verð á lambakjöti og hún getur ekki vikið frá því. Fulltrúar bænda í nefndinni mega að vísu koma með tillögu um að annað verð á lambakjöti gildi áður en eiginleg sláturtíð hefst, en það hafa þeir ekki gert og mér skilst að þeir ætli ekki að gera það.

Það sem snýr að fimmmannanefnd eru viðskipti afurðastöðva og smásala og mér sýnist að Hagkaupssamningurinn brjóti einnig lagaákvæði sem gilda um fimmmannanefnd. Vandamálið er að það er enginn aðili sem vill taka að sér að framfylgir lögunum. Samkeppnisstofnun hefur t.d. neitað að sjá um að fylgja þeim eftir."

Lögin úrelt

Guðmundur Gylfi sagði að bændur hefðu í gegnum tíðina viljað halda í lögunum ákvæðum um að sexmannanefnd bæri að ákveða verð á búvörum. Þeir notuðu verðið sem viðmiðun og gæfu afslætti frá því eins og þeim hentaði. Þetta hefði lengi verið stundað varðandi verðlagningu á eggjum og kjúklingum og nú væri þetta að færast yfir í lambakjötið, nema hvað að þessu sinni væru bændur að semja um hærra verð í tiltekinn tíma.

"Bændurnir vilja halda í þessi úreltu lög og síðan nota þau eins og þeim sýnist. Þeir fara út fyrir þau þegar þeim hentar, hvort sem það er til hækkunar eða lækkunar, en við, fulltrúar neytenda, stöndum varnarlausir gagnvart þeim.

Við erum að sjálfsögu ekki á móti því að þessir samningar séu gerðir, en við bendum bara á að lögin leyfa þetta ekki. Annað hvort verður að breyta lögunum eða bændur verða að hætta að gera svona samninga," sagði Guðmundur Gylfi.