"LÍFSEIGASTA stjórnmálahugsjón á Íslandi er sameining vinstri manna," segir Oddur Ólafsson í Tímanum: "Héðinn sameinaði fyrir stíð, Hannibal sameinaði eftir stríð og Ólafur Ragnar sameinaði undir lok kalda stríðsins..." Sameiningarferð
»Staksteinar Alltaf að sameinast

"LÍFSEIGASTA stjórnmálahugsjón á Íslandi er sameining vinstri manna," segir Oddur Ólafsson í Tímanum: "Héðinn sameinaði fyrir stíð, Hannibal sameinaði eftir stríð og Ólafur Ragnar sameinaði undir lok kalda stríðsins..."

Sameiningarferð

ODDUR Ólafsson í Tímanum:

"Mikið sameiningarferðalag var farið um helgina í tveggja hæða rútubíl. Var það mikið auglýst, enda stóðu að því þrír krataflokkar og mikil tíðindi voru boðuð. Alþýðuflokkur, Þjóðvaki og Alþýðubandalag héldu sameinaðir í Sæmundarrútu í landnám Skallagríms Kveldúlfssonar.

Þar var stigið á stokk og heitið sameiningu og tryggðum allra jafnaðarmanna. Voru þarna samankomnir brotthlaupnir allaballar, brotthlaupnir kratar, brotthlaupnir frammarar og bráðum brotthlaupið þjóðvakafólk. Var mikill hugur í mönnum og konum að klekkja nú alvarlega á afturhaldsöflunum með því að sameinast í stórum og öflugum stjórnmálaflokki, sem sameinar hugsýnir Marx, Leníns, Friedmans og Chiracs um félagslega forsjá, frjálst markaðskerfi og sterka og sameinaða Evrópu undir styrkri stjórn Vestur-Evrópubandalagsins og Evrópusambandsins. Það á sem sagt að sameina afstöðu Svavars Gestssonar og Jóns Baldvins Hannibalssonar til utanríkismála..."

Hvað sameinar?

"FORYSTA Alþýðuflokksins trúir á markaðskerfið, hernaðarbandalög Vesturlanda og hefur það á stefnuskrá að Ísland sé bezt komið undir ægishjálmi Evrópusambandsins. Forysta Alþýðubandalagsins er á andstæðri skoðun í öllum þessum málaflokkum og stefnir í þveröfugar áttir...

Sættir Steingrímur [J. Sigfússon] sig við að sameinast krötum og berjast fyrir yfirstjórn markaðarins á daglegt líf og framvindu þjóðmála og og að ganga í EES og að biðja um enn meiri og betri Natóvernd? Vill Sighvatur [Björgvinsson] senda herinn heim, ganga úr Nató og EES og taka upp landbúnaðarstefnu Steingríms Sigfússonar og hans nóta...

En sameiningarmenn láta svona smámuni ekki aftra sér frá að stofna flokkinn stóra sem byggist á hinni einu sönnu jafnaðarstefnu, sem er að tryggja þingmönnum Þjóðvaka áframhaldandi þingsetu, Krötum langþráða fylgisaukningu og stalínistum (eða bresnjevistum ef þeir kunna betur við það) pólitískt framhaldslíf."